Mig langar í raun ekki að hætta

Hannes Steindórsson, bæjarfulltrúi og fasteignasali ákvað á fundi bæjarstjórnar sl. þriðjudag aðbiðja um lausn frá störfum sem bæjarfulltrúi, en hann sat þar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og var auk þess for-maður umhverfisnefndar Kópavogs.

Rosalega erfið ákvörðun

Kópavogspósturinn heyrði hljóðið í Hannesi eftir fundinn og spurði hann m.a. af því hver væri ástæðan fyrir þessum óvænta leik, að segja skilið við bæjarpólitíkina? ,,Þetta var rosalega erfið ákvörðun að taka. Mannskapurinn í bæjarstjórn, úr öllum flokkum, er algerlega fyrsta flokks eintaklingar og vinna mikið og gott verk fyrir bæjarbúa,” segir Hannes.

Brjálað að gera í vinnunni

Ertu búinn að vera hugsa þetta lengi og melta með þér eða kom þessi ákvörðun skyndilega upp? ,,Þessi pæling er búin að blunda í mér í smá tíma, en mig langar í raun ekki að hætta,” segir hann og heldur áfram: ,,Staðan er einfaldlega þannig að á þessu tímabili er ég í rúmlega fullu starfi sem fasteignasali og framkvæmdarstjóri, var formaður félags fasteignasala, sit í nefnd á vegum iðnaðarráðuneytis vegna mögulegra breytinga á lögum um fasteignakaup, síðast en ekki síst á ég þrjú yndisleg börn sem ég þarf að sinna og ala upp.”

Mikill lærdómur og góður skóli

Það er eitt ár liðið síðan þú settist í bæjarstjórn, hvernig hefur þessi tími verið, tekið góða reynslu út úr þessu? ,,Þetta er sennilega það magnaðasta sem ég hef komist í, gríðarlegur lærdómur og mikill skóli, ég tek með mér mikla þekkingu og lærdóm sem nýtist mér í framtíðinni.”

,,Þessi pæling er búin að blunda í mér í smá tíma, en mig langar í raun ekki að hætta,“ segir Hannes sem þarf að hætta vinnu sinnar vegna auk þess sem hann á þrjú yndisleg börn sem þarf að sinna og ala upp.

Fann fljótlega að álagið var of mikið

Þetta er ekki langur tími sem þú sast í bæjarstjórn, reiknaðir þú ekki með hvað þetta væri mikil vinna þegar þú ákvaðst að gefa kost á þér, sem hefur þá bitnað meira á vinnu þinni sem fasteignasali og fjölskyldu, en þú gerðir ráð fyrir? ,,Svo sannarlega, ég fór svolítið blint út í þetta og fann fljótlega að álagið sem fylgdi þessu starfi sem viðbót við mikla vinnu á öðrum vettvangi var of mikið, fyrir utan mesta vinnan var í sömu viku og ég er með börnin mín þrjú,” segir Hannes.

Starfsfólk Kópavogsbæjar á mikið hrós skilið

En hvernig kanntu við bæjarpólitíkina, fínn vinnustaður og sérðu fyrir þér að þú eigir eftir að koma til baka síðar? ,,Ég kann gríðarlega vel við þetta starf og starfsfólk Kópavogsbæjar á mikið hrós skilið, það er mikið álag á þeim,” segir hann og heldur áfram: Ég er ekki hættur í pólitík og enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Mögulega nýtast kraftar mínir betur fyrir flokkinn á öðrum sviðum.“

650 fasteignasala en 400 eignir að seljast

En hvernig er annars staðan á fasteignamarkaðinum almennt, alltaf eitthvað að seljast þrátt fyrir háa stýri- vexti og verðbólgu, enn lifandimarkaður? ,,Það þarf að vera með báðar hendur á stýri miðað við markaðsað-stæður, það eru um 650 fasteignasalar á höfuðborgarsvæðinu en það seljast einungis um 400 eignir.”

Þakklæti frá mínum dýpstu hjartarótum

Og Kópavogur alltaf áhugaverður kostur fyrir kaupendur, gott að búa í Kópavogi? ,,Mörg af vinsælustu hverfum höfuðborgarsvæðisins eru í Kópavogi, og eins og einn góður maður sagði og hafði rétt fyrir sér: „Það er gott að búa í Kópavogi”,” segir Hannes og bætir við: ,,Að lokum langar mig að þakka frá mínum dýpstu hjartarótum þann mikla stuðning og þá góðu kosningu sem ég fékk frá íbúum Kópavogs og verð ég ævinlega þakklátur.”

Forsíðumynd: Hannes Steindórsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar og Sigrún Hulda Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar í september í fyrra þegar íbúar Álalindar fengu viðurkenningarskjöld fyrir fallegustu götur ársins, þegar umhverfisviðurkenningar Kópavogs voru veittar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar