Við höfum verið lánsöm og verið með gott fagfólk í grunnskólum bæjarins

Edda Björg Sigurðardóttir, grunn- og tónlistarskólafulltrúi og gerði grein fyrir skólastarfi grunnskóla Garðabæjar og Tónlistarskóla Garðabæjar á fundi bæjarráðs í síðustu viku.

Þar fór Edda Björg m.a. yfir fjölda nemenda í skólunum sagði frá starfi í einstaka skólum og upplýsti um samstarf grunnskólanna, tónlistarskólans og Hönnunarsafnsins varðandi menningartengda viðburði.

Fram kom í máli Eddu Bjargar að 2561 nemandi í grunnskólum Garðabæjar hafi lokið námi sl. vor, en gert er ráð fyrir að 2591 nemandi hefji nám við grunnskóla Garðabæjar núna í haust svo þeim fjölgar um 30 og í töflunni hér fyrir neðan má sjá hvernig þeir skiptast á milli skóla bæjarins.

Fjöldi í grunnskólum m.v. stöðu innritunar 20. júní sl.

Álftanesskóli (1.-10.b.) 348

Flataskóli (1.-7.b) 332

Garðaskóli (8.-10.b) 636

Hofsstaðaskóli (1.-7.b.) 513

Sjálandsskóli (1.-10.b) 233

Urriðaholtsskóli (1.-9.b) 288

Hjallastefnan (1.-7.b) 127

Alþjóðaskólinn (1.-10.b.) 117

Garðapósturinn settist niður með Eddu Björg sem segir þessar tölur eigi eftir að taka einhverjum breytingum fyrir skólabyrjun, en skólasetning verður 23. ágúst nk. ,,Þeir forráðamenn sem eiga enn eftir að innrita börn sín í grunnskóla eru beðnir að gera það sem allra fyrst á vefsíðu bæjarins gardabaer.is,” segir hún.

2299 nemendur fjölbreyttra menningarviðburða

Svo eru grunnskólarnir í samstarfi við Tónlistarskóla Garðabæjar og Hönnunarsafn Íslands – með hvaða hætti og er ánægja með þetta samstarf? ,,Í Tónlistarskóla Garðabæjar stunduðu 512 nemendur nám við skól-ann og 4. nemendur luku burtfararprófi í vor. Skólinn er í góðu samstarfi við grunnskólana í bænum. Meðal annars hefur skólinn aðstöðu til kennslu í grunnskólunum, þannig að nemendur á yngsta- og á miðstigi geta stundað tónlistarnám á skólatíma. Þá hefur öllum grunnskólanemendum í bænum verið boðið upp á fjölbreytta menningardagskrá á skólaárinu. Þannig nutu 2299 nemendur fjölbreyttra menningarviðburða sem ýmist voru haldnir í sal Tónlistarskóla Garðabæjar, í Hönnunarsafni Íslands og á Bókasafni Garðabæjar. Þessir viðburðir eru unnir í kraftmiklu samstarfi menningarsviðs, tónlistarskólans og grunnskólana,” segir hún.

Garðbæingum hefur fjölgað ört undanfarin ár, hvernig er staðan með skólamannvirkin, taka þau við öllum þessum nemendum? ,,Það er ánægjulegt að nemendum fjölgi í Garðabæ og við tökum þeim fagnandi. Eðli skólahverfa er að nemendum fjölgar og fækkar með nokkurra ára millibili. Þannig er nemendum í Flata-, Hofsstaða-, og í Sjálandsskóla að fækka á næsta skólaári. Í Álftanesskóla stendur nemendafjöldinn nokkurn veginn í stað en þar eigum við von á fjölgun nemenda á næstu árum og þar er pláss til að mæta þeirri þörf. Í Garðaskóla fjölgar nemendum á milli ára og þar verða settar fjórar lausar kennslustofur við skólann í sumar. Í Urriðaholti fjölgar nemendum hratt. Áfangi tvö sem nú er í byggingu, verður afhentur í janúar, þá ætti að fara vel um alla nemendur og starfsmenn. Við þurfum að brúa bilið fram að því að nýi áfanginn verður tilbúinn. Það gerum við með lausum kennslustofum sem settar verða niður sumar. Fyrir íbúa í Garðabæ er alltaf pláss í grunnskólum bæjarins, hlutverk okkar er meðal annars að leysa húsnæðis- vanda, stundum til skamms tíma en í öðrum hverfum til lengri tíma,” segir hún.

Það er skortur á kennurum og ekki búið að fullmanna allar stöður

Er Garðabær vel í stakk settur þegar kemur að kennurum? ,,Við höfum verið lánsöm og verið með gott fagfólk í grunnskólum bæjarins. Það er skortur á kennurum og ekki búið að fullmanna allar stöður fyrir næst skólaár. Það er gott að vinna í grunnskólum Garðabæjar og forréttindi að vinna og búa í bæjarfélaginu. Ég hvet kennara sem búa í bænum að skoða auglýsingar um lausar kennarastöður hjá Garðabæ á heimasíðu bæjarins,” segir Edda Björg.

Við þurfum að hafa kjark til að setja börnum mörk

Hverjar eru annars helstu áskoranirnar í skólastarfinu fyrir komandi skólaár? ,,Það eru fjölmargar áskoranir í skólastarfi sem gerir skólastarf óendanlega skemmtilegt. Garðabær og þar með grunnskólarnir eru í örum vexti. Bakgrunnur nemenda er ólíkur og þarfirnar misjafnar. Menntun nemenda er hornsteinn grunnskólastarfs, við eigum að bera virðingu fyrir hvert öðru, hvernig svo sem við erum. Við þurfum að skilja hvert annað. Skólasamfélagið er fjölmenningarlegra auk þess sem tungumálabakgrunnur fjöltyngdra barna er mjög breytilegur. Um leið og það mikilvægt og gott fyrir samfélagið okkar, þá er það áskorun. Meðal annars fjölgar nemendum með stöðu flóttafólks. Til að móttaka þeirra takist vel er mikilvægt að allt samfélagið séu virkir þátttakendur í aðlögun fjölskyldnanna. Snjalltæki og notkun samfélagsmiðla hjá ungum börnum og unglingum sem ekki hafa aldur eða þroska til að nota slíka miðla er áskorun sem teygir anga sína í of miklum mæli inn í skólastarfið. Við þurfum að hafa kjark til að setja börnum mörk með velferð þeirra og farsæld að leiðarljósi. Fyrir utan áskorunina að kenna öllum nemendum að lesa, skrifa og reikna þá skipar skólinn stóran sess í þjálfun mennskunnar, félagslegra samskipta og búa í lýðræðislegu þjóðfélagi. Þannig er það áskorun að börn fái að hafa meiri áhrif á nám sitt, skipuleggja það og vinna sjálfstætt. Gott samstarf heimilis og skóla er kjarni farsællar skólagöngu fyrir alla nemendur. Þátttaka foreldra í skólastarfi á að vera eftirsóknarvert og það þurfum við að efla,” segir Edda Björg að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar