Það hafa verri menn en þið orðið prestar

Í nýútkominni bók, Stundum verða stökur til, rekur Garðbæingurinn, séra Hjálmar Jónsson, ævi sína í vísum og ljóðum; námsárin, prestskapinn og pólitíkina svo að eitthvað sé nefnt. Skemmtileg atvik verða þar ljóslifandi í samskiptum hans við fólki í gleði og gáska og skeytin fljúga í allar áttir. Og ekki vantar sögurnar á bak við kveðskapinn. Grípum aðeins niður í bókina og gefum séra Hjálmari orðið:

Ég útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri sumarið 1971. Auk mín fóru tveir úr hópi útskriftarnemanna í guðfræðinám við Háskóla Íslands, þeir frændur Pálmi Matthíasson og Pétur Þórarinsson. Þegar við bárum þetta val okkar undir skólameistarann okkar, Steindór Steindórsson frá Hlöðum, sagði hann: „Farið þið endilega í guðfræðina, strákar. Það hafa verri menn en þið orðið prestar.“

*Sæluvika Skagfirðinga á sér góðar rætur. Lífsgleðin er þar auðfundin og notaleg. Ég kom eitt sinn niður í Græna salinn, þar sem söngurinn ómar. Ég lét jafnan fara lítið fyrir mér þar, flestir eru mér fremri í sönglistinni; þar kom til mín Halldór Hafstað og rétti mér óðara fleyginn sinn. Ég bragðaði á og giskaði á að þar væri Svartidauði blandaður gosdrykk:

Brátt mun þynnast fjendaflokkur,
furði engan sjón þótt dvíni.
Halldór bóndi byrlar okkur
brennivín í appelsíni.

Einhverju sinni við upphaf sæluviku var ég að undirbúa messu. Sú venja hafði skapast fyrir mína tíð að messað var fyrri sunnudaginn en daginn eftir lokaballið var talið rétt að gefa frí frá helgihaldinu. Nú var semsagt fyrri sunnudagurinn, framundan margir listviðburðir og mannamót. Messan að jafnaði mjög vel sótt. Um morguninn var ég slæmur í hálsinum, rámur og greinilega einhver kvefpest að búa um sig. Ég hringdi í vin minn, Óskar Jónsson lækni, og bað hann nú að duga mér vel, senda mér eitthvað fljótvirkt og krassandi þannig að röddin færi ekki alveg og ég gæti messað. Reyndar þótti Óskar sparsamur á lyf að hætti góðra lækna, líkaminn skyldi vinna á slæmskunni í lengstu lög. Því var það að einhver orti sem ekki fékk lyf sem hann eða hún taldi sig vanta:

Ekki vill hann Óskar minn
ausa út meðulonum.
Margur dáðadrengurinn
má drepast fyrir honum.

En í eymd minni og raddleysi setti ég saman þessa bón til Óskars:

Staðan er bæði tæp og treg,
tárvot augun og bólgin kverk.
Nú verður messan neyðarleg
nema þú gerir kraftaverk.

Óskar brá við skjótt, ég fékk sýklalyf og sterka dropa. Um hádegið hafði ástandið ekki lagast heldur versnað til muna. Ég var orðinn þegjandi hás og ófær um að sinna mínu embætti í kirkjunni. Signý mín hringdi þá fyrir mig í sr. Gunnar Gíslason í Glaumbæ, sem þá var nýhættur prestsskap, og bað hann að bjarga þessu með messuna. Séra Gunnar brást við vel og drengilega eins og hans var von og vísa. Hann var mættur í Sauðárkrókskirkju rétt fyrir kl. 14 og gengur fyrir altarið undir forspilinu. Nú er frá því að segja að læknishjónin, Óskar og Aðalheiður Arnórsdóttir, komu til messunnar. Þau komu bara rétt fyrir klukkan tvö þannig að þau fengu sæti uppi á svölum í aftari röð og sáu ekki niður. Þegar svo séra Gunnar byrjar að tóna var röddin talsvert öðruvísi en í mér. Aðalheiði sagðist svo frá síðar að Óskar hefði sprottið á fætur og gáð fram af skörinni, litið inn að altarinu og tautað fyrir munni sér: „Hvað gaf ég honum eiginlega!“

* Margir muna þegar Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Pálmadóttir voru saman í sjónvarpsviðtali, sem fékk skjótan endi. Ingibjörg fann fyrir brjóstþyngslum og virtist vera að fá hjartaáfall. Öllum var illa brugðið en athygli vakti að Össur stóð sem myndastytta og hafðist ekkert að:

Allir vita að eitt sinn var
Össur höndum seinni
þegar hans að höndum bar
hjartastopp í beinni.

Margt var kveðið þegar Árni Johnsen kleip í eyrað á Össuri:

Össur hefur hugsun skakka
um heppni sína veit ekki.
Alla daga ætti að þakka
að Árni kleip en beit ekki.

Hér er vísað til þess að nokkru áður hafði hnefaleikakappinn Mike Tyson bitið stykki úr eyranu á öðrum boxara, Evander Holyfield.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar