Kópavogsbær endurskoðar orðanotkun í atvinnuauglýsingum til að gera ráð fyrir fleiri en tveimur kynjum

Fulltrúi Pírata í jafnréttis- og mannréttindaráði Kópavogs, Indriði Ingi Stefánsson, lagði fram erindi á fundi ráðsins þann 1. febrúar síðastliðinn um mikilvægi þess að tryggja jafna stöðu allra óháð kyni við umsóknir á vef bæjarins. Erindið kveður á um að útbúa þurfi samræmt orðalag sem tryggir að engin séu útilokuð hvað varðar umsóknir. Vísar Indriði til þess að í atvinnuauglýsingum bæjarins fyrir janúarmánuð var til dæmis hvatning um að „karlar jafnt sem konur“ sæktu um auglýstar stöður forfallakennara við Kársnesskóla, leikskólakennara við Grænatún leikskóla og dönskukennara við Snælandsskóla.
 
„Ég gef mér að þarna sé verið að nýta fyrri ákvæði í auglýsingum og ekki sé raunverulega ætlunin að mismuna á grundvelli kyns. Það dregur ekki úr mikilvægi þess að framsetningin sé samræmd og mismuni ekki.“ segir Indriði í erindi sínu, og lagði til að bærinn kæmi sér upp staðlaðri framsetningu varðandi ávörpun kyns í atvinnuauglýsingum.
 
Í greinargerð með erindinu kemur fram að það sé mikilvægt að Kópavogsbær standi við lagaskyldur um að mismuna ekki á grundvelli kyns. Þá sé jafnframt mikilvægt að tryggja að ásýnd bæjarins sé að bærinn standi vörð um mannréttindi, sérstaklega jaðarsettra hópa eins og fólks með kynhlutlausa skráningu. 
 
Þa var samdóma álit Jafnréttis- og mannréttindaráðs að ítreka mikilvægi þess að starfsauglýsingar á vegum Kópavogsbæjar séu kynhlutlausar og hvetji öll áhugasöm til að sækja um störfin óháð kyni. Þá hefur bæjarráð Kópavogs tekið undir afgreiðslu ráðsins og vísað því til afgreiðslu sviðsstjóra stjórnsýslusviðs, sem er jafnframt næsti yfirmaður mannauðsstjóra bæjarins.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar