Hringtorg í Garðabæ nefnd í höfuðið á fyrrverandi forsetum Íslands

Menningar- og safnanefnd fjallaði um á síðasta fundi sínum um tillögu bæjarstjórnar að hringtorgum í Garðabæ verði gefin nöfn eftir fyrrverandi forsetum Íslands og einnig að merkum áföngum í sjálfstæðisbaráttunni verði gerð skil á öðrum hringtorgum og þau fegruð til samræmis.

Nefndin leggur til að horft verði til sögu Bessastaða sem er samofin sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Að hafa aðsetur forseta lýðveldisins í bænum er nokkuð sem nefndin telur bæjarsóma og full ástæða til að minna á sögu forsetaembættisins í bæjarlandinu og merkilega áfanga í sjálfstæðisbaráttunni.

Leggur nefndin annars vegar til að torg bæjarins fái nöfn þeirra forseta sem hafa látið af embætti og skal nafngiftin heiðra forsetatíð þeirra. Þannig hvetur nefndin til þess að við fegrun torganna hvort sem útilistaverk verða sett upp eða gróður valinn þá skuli innblásturinn sóttur í gildi og áherslur sem viðkomandi forseti stóð fyrir eða tíðarandann sem ríkti í forsetatíð hvers og eins. Nöfn torganna skuli merkt með veglegum og smekklegum hætti. Þannig leggur nefndin til:

Sveinstorg
Ásgeirstorg
Kristjánstorg
Vigdísartorg
Ólafstorg

Í annan stað leggur nefndin til að merkum áföngum í sjálfstæðisbaráttunni verði gerð skil á öðrum hringtorgum og við fegrun þeirra torga innblástur sóttur í náttúru Íslands og þjóðlegar áherslur. Á næsta ári er 80 ára afmæli lýðveldisins og væri spennandi að vígja Lýðveldistorg þá um sumarið.

Fullveldistorg
Heimastjórnartorg
Sjálfstæðistorg
Lýðveldistorg
Forsetatorg

Nefndin bendir á að við vinnuna kom fram að nafnið Fógetatorg virðist hafa orðið til um torgið við Bessastaði en hversu formleg eða rótgróin sú nafngift er þarf að skoða nánar. Menningar- og safnanefnd felur umhverfissviði bæjarins að taka tillögurnar og útfæra fyrir torg bæjarins.

Menningar- og safnanefnd Garðabæjar leggur til að hringtorg bæjarins verði nefnd eftir fyrrverandi forsetum Íslands. Nöfn torganna skulu merkt með „veglegum og smekklegum hætti.“

Forsíðumynd: Fógetatorg virðist hafa orðið til um torgið við Bessastaði

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar