Íþróttir og innviðir

Sem áhugamanni um íþróttir hefur það ekki farið framhjá mér hversu mikinn kraft fótboltinn hefur gefið bæjarbúum í sumar. Félögin eru að gera frábæra hluti og stuðningsmenn verið í yfirvinnu að hvetja sitt lið. En fótboltinn gefur og hann tekur, sætir sigrar og sár töp hafa litið dagsins ljós en það er einmitt ástæðan fyrir að við elskum leikinn og styðjum okkar lið í blíðu og stríðu.

Félögin eru með barna og unglingastarf á heimsmælikvarða þar sem allir eru velkomnir. En það er auðvitað ekki sjálfgefið að geti tekið á móti öllum og veitt iðkendum og aðstandendum framúrskarandi upplifun. En með krafti og elju framkvæmdastjóra, þjálfa, starfsmanna, sjálfboðaliða og yfirstjórnar tekst það með miklum glæsibrag og eiga þau mikið hrós skilið fyrir metnað sinn og vinnusemi.

Fótboltinn sker sig töluvert úr hjá félögunum en sem dæmi má nefna að 55% allra iðkenda hjá Breiðablik, 19 ára og yngri, eru að stunda knattspyrnu. Ef við svo rýnum í heildarhlutfall iðkenda þriggja stærstu félaganna, þ.e. Breiðablik, HK og Gerplu kemur í ljós að Breiðablik er með um 45% allra iðkenda þeirra á milli (tölur frá 2022). Mikilvægt er að vera meðvituð um hvernig þróunin er á hverjum tíma og hlúa vel að innviðum. Því sem áður var talið framúrskarandi aðstaða er fljót að úreldast með vaxandi kröfum og þeim fjölda iðkenda sem raun ber vitni.

Það er krefjandi verkefni að halda í við þessa þróun. Uppbygging á félagssvæði HK við Kórinn stendur nú fyrir dyrum sem er jákvætt skref og verður skemmtilegt að fylgjast með því á komandi árum. Á sama tíma megum við ekki gleyma okkur hvað varðar núverandi innviði. Fífan er dæmi um frábæra aðstöðu sem komin er að þolmörkum. Mörg okkar kannast við álagið í Fífunni á háanna tíma þegar við sækjum börnin eftir vel heppnaða æfingu og reynum að finna þau og allt sem þeim tilheyrir í ærandi hávaða og mannmergð. Álagið á húsnæðið og starfsfólkið er gríðarlegt og ljóst er að bregðast þarf við í náinni framtíð.

Ein af þeim hugmyndum sem upp hafa komið er að setja upp gervigras og lýsingu á grasflatirnar við hliðina á Fífunni, en með því væri hægt að létta á og hlúa töluvert betur að mannvirkinu sem og nýta flatirnar allan ársins hring. Með fullunnu skipulagi svæðisins er þetta spennandi kostur sem viðbót við þá innviði sem fyrir eru.

Eitt er þó ljóst að við erum á fullri ferð inn í framtíðina og við þurfum að vera á tánum gagnvart því þjónustustigi og gæðum sem við viljum veita okkar iðkendum og ekki síður því starfsumhverfi sem við bjóðum starfsfólki upp á. Við þurfum að geta haldið í við þróun og nútímakröfur og viðhalda heiðarlegu samtali við hagaðila og íbúa um hvernig framtíð íþróttainnviða bæjarins eigi að þróast og dafna til framtíðar. Þannig verðum við áfram í fararbroddi sem íþróttabærinn Kópavogur.

Sverrir Kári Karlsson, formaður íþróttaráðs Kópavogs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar