Almar sló fyrsta höggið á Íslandsmótinu með 8 járni sem hefur legið óhreyft í golfpokanum!

Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar sló fyrsta högg Íslandsmótsins í golfi á Urriðavelli þegar mótið var formlega sett í síðustu viku áður en fyrsti keppandi mótsins Valur Snær Guðmundsson var kallaður á teig til að hefja leik. Áður en Almar tók fyrsta höggið bauð Kári Sölmundarson keppendur velkomna til leiks og afhendi svo formlega Huldu Bjarnadóttur forseta GSÍ völlinn til afnota fyrir Íslandsmótið í golfi 2023.

,,Fyrst verð ég að þakka golfklúbbnum Oddi fyrir ótrúlega vel heppnaða framkvæmd á Íslandsmótinu. Þetta var klúbbnum til mikils sóma og náttúruparadísin í Garðabæ skartaði sínu fegursta,“ segir Almar.
 
Var bæjarstjórinn sáttur með upphafshöggið? ,,Ég mætti á teig snemma á fimmtudagsmorgninum og ákvað eftir vandlega yfirlegu að nota 8 járn úr settinu mínu sem hefur legið lengi nær óhreyft. Þetta var fyrsta högg mitt á golfvelli í ár en það heppnaðist bara þokkalega. Boltinn sveif nokkra tugi metra og endaði ekki alveg á vel sleginni brautinni. En næstum því! Höggið hefði svo sem ekki dugað til mikilla afreka á mótinu,“ segir hann brosandi.

Mynd: Almar ásamt Huldu og Kára þegar Íslandsmótið í golfi var sett

Ef golfbakterían nær mér þá er ekki von á góðu

En er bæjarstjórinn einhver golfari? ,,Ég hef gaman af golfi en hef ekki gefið mér tíma til að spila undanfarin ár. Það stendur alltaf til að breyta því en það þarf að bíða enn um sinn. EF golfbakterían fer með mig eins og hlaupabakterían þá er nefnilega ekki von á góðu. Minn frítimi utan vinnu og fjölskyldustúss fer í hlaupin núna.“

Safnar áheitum fyrir Kraft

,,Þegar blaðið kemur út verð ég einhvers staðar á Holtuvörðuheiði hlaupandi með félögum mínum í hlaupahópnum Boss HHHC. En við erum að safna áheitum fyrir Kraft, sem styður svo fallega við ungar fjölskyldur fólks með krabbamein, með því að hlaupa frá Akureyri til Reykjavíkur. Svo verður Reykjavíkurmaraþon hlaupið á laugardag. Það er ástæða til að hvetja Garðbæinga til að styðja við Kraft eða önnur góðgerðafélög með því að heita á hlaupara,“ segir Almar að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar