Er allt tilbúið fyrir skólann?

Skólabörnin okkar með litríkar töskur á bakinu eru árlegur boðberi þess að komið er síðsumar. Fjölskyldan fer yfir útbúnaðarlistann um leið og börnin bíða spennt eftir því að vita hvejir eru með þeim í bekk eða hóp. Það er spenna í loftinu, eftirvænting. Kennarar hefja undirbúningsvinnu og hlakka til að taka á móti börnunum.

Grunnskólar Garðabæjar tóku á móti nemendum sínum þriðjudaginn 23. ágúst sl. Í bænum starfa átta grunnskólar, sex þeirra eru reknir af bænum en tveir sjálfstætt starfandi. Nú eru ríflega 2550 grunnskólanemendur innritaðir í 1.- 10. bekk, þar af eru um 232 börn að hefja nám í 1. bekk.

Virðum starf kennarans

Í Garðabæ er öflugt skólasamfélag sem einkennist af fagmennsku og metnaði. Skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skapa þetta umhverfi og gera það vel. Við þurfum áfram að standa vörð um skólana okkar og efla starf þeirra enn frekar. Gætum þess að virða starf kennarans, hrósa fyrir það sem vel er gert og tala ætíð af virðingu um skólann og kennara við barnið. Hrós kostar ekkert en skilar oft miklu. Ræðum beint við kennara eða stjórnendur skólans um það sem hugsanlega má betur fara. Rödd forráðamanna skiptir máli og góð tengsl þeirra við skóla barnsins er mikilvæg.

Hagsmunir barnsins

Skólinn er vinnustaður barnsins, öll uppvaxtarárin frá bernsku og fram á unglingsár. Við þekkjum vel hve mikilvægt það er að líða vel í vinnunni, hlakka til að koma þangað að morgni. Það sama gildir um barnið. Það er afar brýnt að því líði vel í skólanum, það njóti sín og gangi til skóla af gleði að morgni. Á sama hátt og við förum yfir skólabúnaðinn í töskunni þurfum við að gæta vel að því hvað tryggir vellíðan barnsins í skólanum. Spyrjum barnið og sýnum líðan þess áhuga, stöndum vörð um hagsmuni og möguleika þess til þroska og velsældar.

Stuðningur við skólabarnið

Einn besti stuðningur sem hægt er að sýna barni er einlægur áhugi, kærleikur og heilbrigð mörk í uppeldi. Spyrja, gefa sér tíma, ræða málin, horfa í augun og hlusta. Læsi er einn af grunnþáttum menntunar. Til að börn nái tökum á lestri þurfa þau hvatningu og æfingu bæði heima og í skólanum. Hæfilegt heimanám þarf að vera hluti af heimilislífinu, það tekur tíma og orku og þarf því að komast inn í skipulagið. Hvenær, hvar og með hverjum? Þetta þarf að ræða og skipuleggja. Streita í kringum heimanám á síðustu stundu er slæm upplifun sem þarf að vera undantekning en ekki reglan. Þá er vert að hafa í huga að notkun snjallsíma og tölvu getur unnið gegn vellíðan, hvíld og einbeitingu.

Helstu áherslur á komandi skólaári

Fjölbreyttir nútímalegir kennsluhættir, þróunarverkefni og samstarf kennara eru lykilþættir í öflugu skólastarfi. Sem dæmi um helstur áherslur grunnskólanna á komandi skólaári má nefna innleiðingu nýrrar Menntastefnu Garðabæjar og Farsældarfrumvarpsins auk endurgerðar eineltisáætlunar. Ýmis fræðsla verður í boði fyrir forráðamenn og skólasamfélagið s.s árleg forvarnavika í október nú með yfirskriftina FARSÆLD, Menntadagur Garðabæjar þar sem þróunar- og rannsóknarverkefni eru kynnt, fræðslu- og menningarssvið bæjarins hefur fundað með forsvarsmönnum Samtakanna 78 um fræðslu, áfram verður unnið við að mennta nýja starfsmenn í Verkfærakistu KVAN sem þjálfar nemendur í samskiptum o.fl.

Skólabyrjun er tækifæri og áskorun. Styðjum vel við börnin okkar, á heimilinu sem foreldrar, forráðamenn og ættingjar, í skólunum sem fagmenn og umsjónaraðilar og í tómstundunum sem þjálfarar og ábyrgðaraðilar. Garðabær er bær þar sem bæjarbúar láta sér annt hver um annan – látum okkur einkum annt um unga fólkið okkar sem þarf stuðning og jákvæða athygli.

Sigríður Hulda Jónsdóttir formaður skólanefndar grunnskóla Garðabæjar og forseti bæjarstjórnar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar