Hvað e rbetra en að skella sér í tennis eða padel í hádeginu og fá sér síðan góðan og hollan mat að borða sem listakokkurinn Aron Gísli Helgason ber á borð, en í Tennishöllinni í Kópavogi er að finna veitingastaðinn Hjartað, sem býður upp á hádegisverð alla virka daga á milli kl. 11:30 til 14:00 á mjög svo sanngjörnu verði.
Þess má geta að Aron Gísli er enginn aukvissi er kemur að eldamennsku, en hann var í kokkalandsliði Íslands árið 2021 og hefur starfað á mörgum góðum veitingahúsum, meðal annars hjá Héðni Restaurant, Brut og Rub23
Langflestir tennisklúbbar í heiminum bjóða upp á veitingar
Kópavogspósturinn heyrði í Jónasi Páli Björnssyni, framkvæmdastjóra Tennishallarinnar, sem rekur veitingastaðinn og spurði, hvernig það hafi komið til að ákveðið var að fara í veitingarekstur í miðjum Kópavogsdal? ,,Í raun er þetta bara hluti af tennismenningunni. Langflestir tennisklúbbar í heiminum bjóða upp á veitingar og að hægt sé að setjast niður eftir leik og fá sér veitingar og þetta er í raun hluti af félagslega þættinum í starfseminni. Að mínu áliti er það að fara í tennis eða padel og setjast svo niður með góðum félögum og njóta góðra veitinga, það er bara lífið. Síðan bý ég líka í hverfinu og ég held að íbúarnir hér nálægt taki þessu fagnandi því við erum að bjóða upp á hollan og góðan mat t.d í hádeginu kl. 11:30-14:00 á góðu verði,“ segir Jónas.
Þeir hljóta að vita hvað er hollt
Og hvernig hafa síðan tennis- og padel iðkendur ásamt öðrum bæjarbúum tekið veitingastaðnum? ,,Við finnum að tennis- og padelspilarar eru ánægðir með þetta framtak og margir fá sér fisk dagsins eftir hádegistennis. Það er líka ánægjulegt að sjá marga aðra úr bænum koma að borða hjá okkur t.d koma margir einkaþjálfara úr Sporthúsinu og borða hjá okkur í hádeginu, þeir hljóta að vita hvað er hollt.“
Fjölbreyttur matseðill
En hvað er svo á matseðlinum á Hjartanu – hvað leggur listakokkurinn Aron Gísli áherslu á? ,,Við erum að byrja með nýjan matseðil 4. sept en engar áhyggjur við munum enn bjóða upp á fisk dagsins sem hefur verið vinsælasti rétturinn okkar. Til viðbótar munum við bjóða upp á kjúklingarétt, kjúklingasalat og hamborgara svo eitthvað sé nefnt. Aðal áherslurnar hjá mér er að velja íslenskt gæða hráefni, bjóða upp á hollan og góðan mat á sanngjörnu verði,“ segir hann.
Hægt að panta matarbakka til að taka með í hádeginu
Er hægt að panta matarbakka í hádeginu og taka með sér? ,,Já, það er hægt, það hefur aukist að fyrirtæki panti mat hjá okkur. Það eru allir velkomnir í mat hjá okkur hvort sem fólk tekur með sér eða borðar á staðnum.“
Og þið hafið verið að bjóða fyrirtækjum og vinahópum upp á hópefli sem hefur notið vinsælda? ,,Já, það er orðið mjög vinsælt að fyrirtækjaskemmtanir og vinahópar komi í Tennishöllina, vinsælast er að hópurinn panti heimagerða pizzu og spili padel en við útfærum hópeflið í samræmi við óskir hvers og eins.“
150% aukning á fjórum árum
Þið opnuðuð Tennishöllina árið 2007 og svo byggðuð þið við og stækkuðu Tennishöllina fyrir tveimur árum og fóruð þá líka að bjóða upp á padel. Er mikill áhugi fyrir tennis og padel á Íslandi, vaxandi íþróttagreinar, bæði hjá keppnis- og áhugafólki? ,,Já þetta hefur gengið vel. Í raun ef ég tek padel og tennis saman þá hefur verið 150% aukning hjá okkur á þessum fjórum árum síðan við stækkuðum. Þannig að ég tel að þörfin fyrir þessa starfsemi hafi verið mikil. Við búum á landi þar sem veðrið er ekki of gott og það er bara nauðsynlegt að byggja svona starfsemi upp svo það verði skemmtilegra að lifa hérna. Það er í raun markmiðið okkar með þessari uppbyggingu. Tennis er held ég stærsta einstaklingsíþrótt í heiminu og padel sækir mjög hratt á og er líklegast sú íþrótt sem vex hraðast um þessar mundir. Þetta eru mjög skemmtilegar íþróttagreinar, mikið spil og leikur og það er ástæða fyrir miklum vinsældum erlendis og þær ástæður eiga alveg við hér á Íslandi eins og annars staðar og síðan er félagslegi þátturinn í klúbbnum mjög mikilvægur fyrir samfélagið. Svona klúbbar eru í raun félagsmiðstöðvar fólks á öllum aldri.“
Svona klúbbar eru í raun félagsmiðstöðvar fólks á öllum aldri
Haustið er framundan, þið bjóðið væntanlega upp á fullt af námskeiðum í vetur og svo er sjálfsagt margar útfærslur í boði hvernig áhugasamir geta spilað tennis eða padel hjá ykkur? ,,Já, einfaldasta leiðin er bara að bóka á heimasíðunni okkar tennishollin.is staka tíma og mæta og spila. Allir eru velkomnir. Tilvalið t.d fyrir vini að koma og spila og svo jafnvel að setjast niður í rólegheitum eftir að leik lýkur yfir léttum mat eða drykk. Barnastarfið er að fara á fullt og Tennisfélag Kópavogs býður upp á tennisæfingar fyrir börn og unglinga. Félagið er einnig með mini tennis fyrir 5-7 ára og býður núna í fyrsta skipti upp á padelæfingar fyrir unglinga. Fullorðnir eru margir með fasta tíma og þeir sem vilja spila oft eru margir með morgun- og helgarkort og koma oft í viku. Við bjóðum líka upp á námskeið fyrir algjöra byrjendur og lengra komna bæði í tennis og padel. Tennis Cardio eða Splurggen eins og umsjónarmaðurinn hann Milan kallar það er orðið vinsælt en það eru mjög skemmtilegir tímar þar sem tennis og tónlist er blandað saman og úr verður mikið tennisstuð. Svo höfum við verið að bjóða upp á námskeið fyrir eldri borgara í pickleball sem er orðið mjög vinsælt í Bandaríkjunum en einnig er boðið upp á pickleball spil fyrir fólk á öllum aldri á sunnudagsmorgnum. Eins og ég sagði þá eru allir velkomnir og ef fólk er að spá í þessu þá eru allir velkomnir að koma við hjá okkur á skrifstofunni og við getum farið yfir hvað er í boði og hvað hentar hverjum og einum,“ segir Jónas að lokum og greinilegt er að möguleikarnir í Tennishöllinni eru mjög fjölbreyttir er kemur að tennis og padel.
Eins og áður segir er Hjartað opið með heitan mat í hádeginu alla virka daga frá kl. 11.30-14.00. Kaffihúsið er opið allan daginn og á kvöldin er boðið upp á búst og pítsur bakaðar í steinofni.
Hægt er að fá nánari upplýsingar hvað sé í boði á veitingastaðnum Hjartanum og í Tennishöllinni á tennishollin.is
Mynd: Aron og Jónas á veitingastaðnum Hjartanu í Dalsmára 13 Kópavogi.