Bæjarstjóri Kópavogs sem einnig er oddviti sjálfstæðismanna ritaði í pistli á vef síns félags í september s.l. að „það skipti höfuðmáli að standa vörð um traustan rekstur og safna ekki skuldum“. Síðan hnýtir hún enn og aftur í stjórnendur Reykjavíkurborgar og rekstur þeirra sem hún telur vera víti til varnaðar.
Lánasöfnun og hallarekstur
Í síðustu viku samþykkti meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs fjárhagsáætlun fyrir komandi ár. Enginn í minnihluta sá sér fært að styðja hana vegna slælegra vinnubragða. Í henni er gert ráð fyrir að niðurstaða rekstur verði jákvæður um 244 milljónir sem eru vel innan við 1% af tekjum. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 var gert ráð fyrir 87 milljóna króna jákvæðri niðurstöðu og árið þar á undan 100 milljónum í plús. Þetta eru litlar tölur í stóra samhenginu. Þrátt fyrir góð fyrirheit var árið 2022 gert upp með yfir tveggja milljarða króna halla og nú stefnir í svipaðar tölur fyrir árið 2023. Við getum gert ráð fyrir að sagan endurtaki sig árið 2024 verði ekki miklar breytingar á ytra umhverfi okkar. Stærstur hluti þessa halla liggur nefnilega í verulega auknum vaxtakostnaði af lánum. Og þá aftur að yfirlýsingu bæjarstjóra um að það eigi ekki að safna skuldum og að reksturinn sé traustur. Í fjárhagsáætlun 2024 er gert ráð fyrir nýjum lántökum sem nema 4,5 milljörðum. Að auki er lengt í tveimur lánum um 5 ár að upphæð 3,7 milljarða. Þannig er samanlögð ný lánaupphæð næsta árs 8,2 milljarðar. Vaxtaberandi lán Kópavogs á næsta ári verða um 40 milljarðar. Það kostar bæinn 5 milljarða á ári að greiða af þeim. Verra er að hluti af þessum lántökum fer í að greiða fyrir taprekstur. Er þetta merki um traustan rekstur?
Í hvað eiga peningarnir að fara?
Fyrir utan 3 – 4 milljarða sem fara í að greiða taprekstur síðustu tveggja ára þá er verið að byggja Kársnesskóla sem mun kosta mun meira en gert var ráð fyrir. Á áætlun er að byggja stúku og knatthús við Kórinn og keppnisvöll við Fífuna. Nýtt sambýli við Kleifakór og nýjan leikskóla við Skólatröð. Allt kostar þetta peninga og er samtala fjárfestingaáætlunar næsta árs um 6,3 milljarðar. Af þeirri upphæð er aðeins gert ráð fyrir 250 milljónum í uppbyggingu almennra og félagslegra íbúða sem er eitt af skylduverkefnum sveitarfélaga. Upphæð sem ekki hefur breyst frá árinu 2020. Ef hún hefði bara verið uppfærð samkvæmt vísitölu væri hægt að kaupa einni íbúð meira inn í félagslega kerfið, sem hefur verið í svelti til fjölda ára. Yfirvöld í Kópavogi státa sig af því að gera vel í þessum málaflokki. Samt eru helmingi fleiri félagslegar íbúðir á hvern íbúa í Reykjavík en í Kópavogi. Er það eðlilegt? Ber Kópavogsbæ ekki skylda til að standa undir sínum hluta af félagslegri þjónustu höfuðborgarsvæðisins. Þessar 250 milljónir eiga líka að standa straum af 12% stuðningi bæjarins á móti 18% stuðningi ríkisins til almenna húsnæðiskerfisins. Í því kerfi eru byggðar leiguíbúðir af óhagnaðardrifnum íbúðafélögum. Aldrei hefur slíkt félag fengið úthlutað lóð í Kópavogi. Ef annað stærsta sveitarfélag landsins telur sér ekki skylt að tryggja íbúum í öllum tekjuhópum öruggt húsnæði, hver á þá að gera það?
Því spyr ég enn og aftur, er þetta sjálfbær og traustur rekstur?
Bergljót Kristinsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi