Benedikt Sigurðsson eða Benni Sig frá Bolungarvík hóf störf við Vídalínskirkju í haust en hann er að klára meistaranám í guðfræði og stefnir á prestsþjónustu. Benni heldur m.a. utan um eldri borgarastarf Vídalínskirkju. Hann kemur einnig að barnastarfinu og fermingarfræðslunni.
En af hverju kirkjustarf og guðfræði? ,,Ég byrjaði strax á unga aldri að sækja sunnudagaskóla og annað kirkjustarf. Mamma hefur verið í kirkjukór Bolungarvíkur síðan hún var unglingur svo kirkjan hefur alltaf verið hluti af mér. Ég byrjaði svo að að taka þátt í starfi sunnudagaskólans sem tónlistarmaður eftir að ég fullorðnaðist.“
Þá skynjar maður návist Guðs með sterkum hætti
En var sjómennskan ekkert inn í myndinni? ,,Pabbi er sjómaður og byrjaði ég að róa með honum 13 ára gamall á þorskanetum. Ég er svo smávegis viðloðandi sjómennskuna, átti trillur og réri til fiskjar. En hugurinn stefndi annað, í meiri tengsl við fólk. Það að vera á handfærum einn úti á rúmsjó í góðu veðri er algjörlega himnesk upplifun, sem ég sakna alltaf annað slagið og eins að liggja fyrir akkerum í Hornvík og heyra tófuna gagga í fjöruborðinu. Þá skynja maður návist Guðs með sterkum hætti,“ segir Benedikt.
Stundar hlaup og sund og spilar á gítar og harmonikku
En það var kirkjustarfið sem heillaði Benna? ,,Ég hef byrjað að syngja einsöng í jarðaförum fljótlega eftir tvítugt og söng fyrir vestan í nánast öllum jarðaförum í yfir 20 ár. Ég hef alla tíð verið mikill íþróttamaður og var keppnismaður í sundi á yngri árum. Ég hef alla tíð stundað reglubundna hreyfingu, þá aðallega hlaup og sund. Ég spila á gítar og harmonikku og hef stundað það í gegnum tíðina að skemmta fólki, bæði á litlum sem og stórum samkomum, bæði innanlands og einnig erlendis.“
Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig
Hefur þú alltaf átt trú? ,,Ég trúi einatt á boðskap Jesú Krists og vísa þá í tvöfalda kærleiksboðorðið ,,Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig.‘‘.
Garðbæingar hafa tekið okkur afskaplega vel
Ertu fjölskyldumaður? ,,Ég er mikill fjölskyldumaður. Ég er giftur Fjólu Bjarnadóttur hjúkrunarforstjóra og við eigum 3 börn, eitt barnabarn og annað er á leiðinni á næstu vikum. Við fluttum í Garðabæinn 2020 frá Bolungarvík og Garðbæingar hafa tekið okkur afskaplega vel og við höfum eignast fullt af góðum vinum hérna. Ég mæti hvern morgun í Ásgarð kl. 6:30 með Húnahópnum sem er hópur karla og kvenna sem mæta hvern morgun til að synda og spjalla í pottinum. Það hafa verið mér ómetanleg kynni af góðu fólki,“ segir Benni og við óskum honum góðs í öllum hans störfum í bæjarfélaginu.