Fordæma hvernig staðið er að gæslu almannahagsmuna í Kópavogi

Á síðasta fundi bæjarráðs Kópavogs var lagt fram samkomulag milli Kópavogsbæjar og Fjallasólar ehf. um fyrirhugaða uppbyggingu og þróun á lóðunum Bakkabraut 2 og 4, Bryggjuvör 1, 2 og 3, og Þinghólsbraut 77 og 79, en minnihlutinn í bæjarráði Kópavogs fordæmir hvernig staðið er að gæslu almannahagsmuna í þessu samkomulagi og telur að samingurinn feli í sér að öll áhættan liggi hjá Kópavogsbæ.

Árið 2017 var efnt til lokaðrar samkeppni um mögulega útfærslu deiliskipulags fyrir Bakkabraut 2 og 4, Bryggjuvör 1, 2 og 3, og Þinghólsbraut 77 og 79. Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 mynda lóðirnar þróunarrét nr. 13 á Þróunarsvæði Kársnes, ÞR-1, sem skipt var upp í 13 reiti. Tillaga Atelier arkitekta varð hlut- skörpust í samkeppninni. Hinn 27. júní sl. samþykkti bæjarstjórn Kópavogs nýtt deiliskipulag fyrir reit 13 sem byggir á fyrrgreindri tillögu. Auglýsing um samþykkt deiliskipulag reits 13. bíður birtingar í B-deild Stjórnartíðinda.

Bæjarráð samþykkti að vísa samkomulaginu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Öll áhætta liggur hjá Kópavogsbæ

Vegna samkomulagsins bókaði minnihlutinn eftirfarandi: ,,Samkomulag þetta er gert við aðila sem ekki hefur afsal fyrir eignarréttindum og byggist á deiliskipulagi sem ekki hefur gengið í gildi. Samkomulag um uppbyggingu og þróun er vanbúið og gjörsamlega ótímabært.

Hér er um að ræða ráðstöfun á lóðum bæjarins til einkaaðila án útboðs. Kostnaðargreining á innviðaþörf liggur ekki fyrir. Sambærilegar kvaðir og hér koma fram um leiguíbúðir fyrir stúdenta, fyrstu kaupendur og aldraða hafa reynst haldlausar með öllu í fyrri samningum við þróunaraðila og engin útfærsla fylgir.

Kaupréttur bæjarins á félagslegum íbúðum á markaðsverði er markleysa í ljósi þess að fyrir liggur að íbúðir á svæðinu verða mjög dýrar.

Samningurinn felur í sér að öll áhætta liggur hjá Kópavogsbæ. Undirritaðar fordæma hvernig staðið er að gæslu almannahagsmuna í þessu samkomulagi.”

Það er Bergljót Kristinsdóttir, Theódóra S. Þorsteinsdóttir, Sigurbjörg E. Egilsdóttir og Helga Jónsdóttir sem standa að bókuninni.

Vill nýta hluta lóðanna til úthlutunar til óhagnaðardrifinna byggingarfélaga

Bergljótar Kristinsdóttur, oddviti Samfylkingarinnar telur nauðsynlegt að bæjaryfirvöld nýti hluta lóða sinna á reit 13 til úthlutunar til óhagnaðardrifinna byggingarfélaga. ,,Yfirvöld í Kópavogi hafa ekki séð ástæðu til að leggja til land undir slíka uppbyggingu skv. núverandi lagaheimildum, til þessa og eru í mikilli skuld við þann hóp íbúa sem þurfa á slíku húsnæði að halda. Engar skýringar fylgja í meðfylgjandi samningi um hvernig eigi að framkvæma sölu á stökum íbúðum til slíkra félaga en þeirra módel byggir í dag á eigin uppbyggingu til að halda niðri uppbyggingarkostnaði,” segir í bókun hennar.

Taka ekki undir gagnrýni minnihlutans

Í bókun meirihlutans í bæjarráði segir: ,,Meirihlutinn tekur ekki undir gagnrýni minnihlutans á samkomulagið sem byggir á samþykktu deiliskipulagi bæjarstjórnar. Til að standa vörð um hagsmuni Kópavogsbæjar er nauðsynlegt að ganga frá samkomulagi við lóðarhafa um byggingarréttargjald áður en deiliskipulagið er sett í auglýsingu. Með þessu samkomulagi er tryggt að uppbyggingaraðilar taka þátt í kostnaði á innviðauppbyggingu á svæðinu.
Til að tryggja heildstæða uppbyggingu á reitnum er nauðsynlegt að úthluta hluta af lóðum bæjarins á reitnum, til uppbyggingaraðila. Við úthlutun á lóðum bæjarins var tekið mið af markaðsverði og vandlega farið yfir allar forsendur í því samhengi.”

Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir að framkvæmdir byrji eigið síðar en í apríl 2026 og þeim ljúki eigi síðar en í árslok 2029.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar