Viðreisn bæjarsjóðs Garðabæjar

Í drögum fjárhagsáætlunar Garðabæjar fyrir árið 2024 sjáum við loksins fram á viðreisn bæjarsjóðs með tillögu meirihlutans um hækkun útsvars.

Það er gott en fyrst og fremst mjög mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn, meirihluti bæjarstjórnar horfist í augu við þann veruleika sem fjölgun íbúa sveitarfélagsins er að skapa með þeim fjölbreytileika sem honum fylgir.
Það hefði hins vegar auðvitað verið betra og æskilegra ef aukin áhersla meirihlutans á lögbundna þjónustu hefði birst fyrr. Mikið fyrr.

Tillaga meirihlutans um hækkun útsvars eru auðvitað söguleg tíðindi í sjálfu sér. 
En um leið löngu tímabær að mati okkar í Viðreisn. Það er ábyrgt að horfast í augu við raunveruleikann og standa með ákvörðun um að styrkja stöðu bæjarsjóðs í takt við óhjákvæmilega útgjaldaaukningu vegna aukinnar grunnþjónustu.

Útsvari hvers sveitarfélags er ætlað að standa undir þeirri grunnþjónustu sem veitt er. Rekstri leik- og grunnskóla og svo annarri lögbundinni þjónustu eins og fjölbreyttri þjónustu við fatlað fólk. 
Í Garðabæ er það svo að þjónustuþörf hefur farið stigvaxandi með sem hefur haft það í för með sér að bæjarsjóður stendur ekki undir sér og því ekki sjálfbær vegna þess að útsvarstekjur duga ekki til. 

Sjálfstæðismenn, meirihlutinn í bæjarstjórn hefur hins vegar hingað til valið að mæta þeirri stöðu með öðrum leiðum hingað til og hafa tekjur af lóðasölu verið ein aðal undirstaða björgunar hingað til. En slíkar björgunaraðgerðir geta aldrei verið annað en tímabundnar. Tekjur af lóðasölu eru fyrst og fremst til þess fallnar að mæta uppbyggingu innviða samhliða uppbyggingu hverfa en ekki til þess að brúa bilið á milli tekna af útsvari og útgjalda vegna grunnþjónustu.

Útsvarið hingað til byggir á viðmiði þess tíma þegar Garðabær var mun fámennara sveitarfélag og einsleitnara en við búum við í dag. Við því verður að bregðast með ábyrgum hætti.

Ákvörðun sem felur í sér að hreyfa ekki við útsvari í takt við breytta íbúasamsetningu og mikla fjölgun íbúa hefur afleiðingar í för með sér sem vert er að minnast á í þessu samhengi.  

Tekjur sveitarfélagsins stýra getu til að veita þjónustu og með því að ákveða minni tekjur skerðist auðvitað nauðsynlegt svigrúm til þess að standa undir fjölþættri þjónustu sem því nemur.

Gott og skýrt dæmi um slíkt er til að mynda uppbygging félagslegs húsnæðis fyrir fatlað fólk.
En uppbygging innviða eins og íbúðakjarna fyrir fatlað fólk krefst fjármagns til rekstrar. Því uppbyggingu fylgir aukin þjónusta. Það er fagnaðarefni að sjá þann viðsnúning sem er að verða á forgangsröðun meirihlutans í uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk. 

Því það er hægt að velja að fjárfesta ekki í slíkri þjónustu til þess að komast um leið hjá því að hækka útsvar og skerða þannig í raun lögbundna þjónustu og um leið val fyrir þá einstaklinga sem þurfa á þeirri þjónustu að halda og eiga skýlausan rétt til.

Við í Viðreisn fögnum þeirri mikilvægu ákvörðun sem er ein af ástæðum þess að grípa verður til þess að hækka útsvar. Á sama tíma og við rýnum annan rekstur og leitum allra leiða til að hagræða. Fyrir því höfum við í Viðreisn lengi talað og hvatt til rýni á öllum kaupum á þjónustu og farið sé í útboð þar sem það á við.

Það er mikilvægt á tímum sem þessum að Sjálfstæðisflokkurinn, meirihlutinn í bæjarstjórn Garðabæjar sjái og viðurkenni það sem við í Viðreisn höfum kallað eftir um langt skeið. 
Að tekjur eru nauðsynlegar til þess að halda úti góðri þjónustu í þágu allra íbúa en ekki síður til þess að ástunda ábyrga fjármálastjórn. 

Sara Dögg Svanhildardóttir oddviti og bæjarfulltrúi Viðreisnar
Guðlaugur Kristmundsson varabæjarfulltrúi Viðreisnar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar