Það er alveg óumdeilt að Hnoðraholtið er ein besta staðsetningin á höfuðborgarsvæðinu

Garðabær auglýsir um þessar mundir til sölu byggingarrétt á lóðum í öðrum áfanga uppbyggingar á Hnoðraholti, en fyrsti áfangi var boðinn út sl. vor. Í öðrum áfanga er um að ræða sölu á byggingarrétti fyrir 23 einbýlishúsalóðir, eina parhúsalóð, tíu raðhúsalóðir (43 íbúðir) auk lóða fyrir 5 fjölbýlishús.

Þá er einnig farið að huga að sölu á byggingarrétti á öðrum áfanga í Vetrarmýri og uppbyggingu í Þorraholti.

Garðapósturinn spurði Almar Guðmundsson bæjarstjóra nánar um sölu byggingarréttar í öðrum áfanga Hnoðraholts norður.

Framboðið af byggingarmöguleikum er fjölbreytt

Þetta eru spennandi lóðir enda fá bæjarfélög ef einhver sem getur boðið upp á óbyggðar lóðir á besta stað, miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu? ,,Ég held að það sé alveg óumdeilt að Hnoðraholtið er ein besta staðsetningin á höfuðborgarsvæðinu. Hverfið er miðsvæðis, stutt í allar samgönguæðar og þjónustu. Framboðið af byggingarmöguleikum er fjölbreytt og öll áhersla á að íbúar geti notið nærliggjandi umhverfis og náttúrugæða með vönduðum almenningsrýmum og góðri tengingu við nærliggjandi svæði,“ segir Almar.

Og lóðirnar eru byggingarhæfar og nýir lóðarhafar geta hafið uppbyggingu strax á þessu ári – það er frekar óvenjulegt, en kostur? ,,Það er mikill kostur og fólki í raun ekki til setunnar boðið að hefjast handa þegar það er tilbúið. Við finnum að eftirspurnin er mikil og því er líklegt að fólk sé tilbúið að hefjast handa fyrr en seinna.“

Meðvituð um efnahagsástandið

En þú óttist ekkert að setja lóðir í sölu í þessu erfiða efnahagsumhverfi sem við búum við í dag auk þess sem verktakar hafa dregið töluvert úr byggingaframkvæmdum? ,,Við sáum það í fyrri úthlutun að hún gekk mjög vel. Við vitum hvað við höfum í höndunum, framúrskarandi staðsetningu og fjölbreyttar húsagerðir – og fólk getur byrjað strax þar sem innviðirnir eru klárir. Við vitum að fólk hefur áhuga á að búa sér heimili í Hnoðraholti, við finnum það á fjölda fyrirspurna. Við erum meðvituð um hvernig efnahagsástandið er, en vitum líka að það er mikið ákall frá stjórnvöldum um fjölbreytta búsetukosti. Hnoðraholt svarar því ákalli vel.“

Ákvörðun tekin að vel ígrunduðu máli

Þannig að það koma aldrei til greina að fresta þessari úthlutun um óákveðinn tíma þar sem efnahagsástandið batnar? ,,Nei, það kom í raun ekki til greina. Við förum okkur að engu óðslega og vöndum okkur í þessum sem öðrum verkefnum á vegum bæjarins. Þessi ákvörðun var tekin að vel ígrunduðu máli, meðal annars því við finnum það vel hvað áhuginn á lóðum í Hnoðraholti – og Garðabæ – er mikill.“

En hvað svo með almenna þjónustu í hverfinu eins og grunn- og leikskóla, verður hún tilbúin þegar fyrstu íbúar flytja inn eða hvernig verður það leyst sérstaklega þar sem á að draga úr framkvæmdum í nýrri fjárhagsáætlun fyrir árið 2024? ,,Tekjur frá gatnagerð og byggingarréttarsölu eru eyrnamerktar uppbyggingu innviða í þessu hverfi, eins og í öðrum hverfum. Að sjálfsögðu munum við byggja þessa innviði upp í takt við þróun hverfisins og Miðgarður nýtast þegar vel sem íþróttamiðstöð í nágrenni hverfisins.“

Svo þetta verður mjög eftirsóknarvert staður til að búa á? ,,Þetta er einstakur staður, einstaklega vel staðsettur og spennandi fyrir íbúa að taka þátt í uppbyggingu á nýju hverfi. Ég hlakka mikið til að sjá þetta hverfi byggjast upp,“ segir Almar og það syttist í að lóðarúthlutun 2. áfanga í Vetrarmýri verði boðinn út en það eru um 400 íbúðir. Þá er uppbygging einnig að fara af stað í Þorraholti en þar munu rísa um 230 íbúðir.
Svo íbúum í Garðabæ mun fjölga töluvert á næstu árum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar