Ítrekað hafa tillögur að breyttu deiliskipulagi á kolli Nónhæðar ratað inn á borð bæjarstjórnar Kópavogs. Lóðarhafi hefur sóst eftir auknu byggingarmagni og fjölgun íbúða þótt í gildi sé nýlegt deiliskipulag sem unnið var í umfangsmiklu samráði við lóðarhafa og íbúa. Á síðasta ári hafnaði Kópavogsbær tillögu lóðarhafa um fjölgun íbúða. Ávörðunin var kærð og í janúar sl. felldi úrskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismála synjun Kópavogsbæjar úr gildi. Skilaboð úrskurðarnefndarinnar voru „… rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar var haldinn slíkum ágöllum að fallast verður á kröfu kæranda um ógildingu hennar“.
Erindið kom því aftur fyrir fund skipulagsráðs í apríl og var þá í annað skipti hafnað ósk lóðarhafa á Nónhæð um aukið byggingarmagn og fjölgun íbúða. Í þetta sinn lögðu undirritaðar mikla áherslu á að Kópavogsbær skilaði ítarlegum rökstuðningi þess efnis að gildandi deiliskipulag byggðist á víðtæku íbúasamráði. Í rökstuðningi skipulagsráðs fyrir síðari synjuninni sagði: „… var deiliskipulag samþykkt eftir víðtækt samráð við hagsmunaaðila, ekki síst íbúa. Deiliskipulagið er byggt á málefnalegum sjónarmiðum, meðalhófs var gætt við meðferð málsins og sérstaklega horft til markmiðskafla 1.gr. skipulagslaga um að tyggja samráð og réttaröryggi.“
Fjölmargar athugasemdir íbúa komu fram þegar deiliskipulagstillaga lóðarhafans var auglýst. Flestar voru á eina lund. „Samþykki skipulagsyfirvöld og bærinn þessa tillögu er komið fordæmi fyrir aðra verktaka og lóðareigendur til þess að halda bara áfram að biðja um meira byggingarmagn þangað til að bærinn gefst upp og segir já. Allt tal um samráð eða samkomulag við aðra íbúa verður þá fullkomlega marklaust.“ Sjónarmiðið um að ekki mætti bregðast trausti þeirra sem leitað hafði verið samráðs við réð niðurstöðunni. Skoðanir voru skiptar í skipulagsráði um hvort sá rökstuðningur væri fullnægjandi að vísa í íbúasamráð. Þrír fulltrúar af sjö í ráðinu stóðu að baki afgreiðslunni, undirritaðar og Hjördís Ýr Johnson formaður ráðsins. Áheyrnarfulltrúi Pírata studdi þessa afstöðu einnig. Eitt mótatkvæði var greitt og þrír sátu hjá.
Það eru tímamót að skipulagsráð Kópavogs bóki með skýrum hætti að samráð við íbúa sé ráðandi um ákvörðun. Skilaboð úrskurðarnefndarinnar eru líka skýr: „Eitt markmiða skipulagslaga er að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana. Verða þeir einstaklingar sem gera athugasemdir við skipulagsáætlun á auglýsingatíma hennar ekki að hafa sérstaka lögvarða hagsmuni af hinni auglýstu tillögu og er sveitarfélagi heimilt að taka allar athugasemdir til skoðunar áður en ákvörðun er tekin um hvort skipulagstillaga verði samþykkt eða henni breytt. Verður þannig að telja málefnalegt að líta til þess samráðs sem hafði átt sér stað við málsmeðferð fyrri breytingar á umræddu deiliskipulagi sem og þeirra athugasemda sem bárust á auglýsingatíma tillögunnar.“
Þessi niðurstaða er mikill stuðningur við þá sem kallað hafa eftir að íbúasamráð verði bæði virkara og virtara en verið hefur hjá Kópavogsbæ. Af einhverjum ástæðum hafa skipulagsyfirvöld í bænum veigrað sér við að rökstyðja ákvarðanir með þeim efnisrökum, sem koma fram í íbúasamráði. Með þessu nýja fordæmi eru þau sjónarmið kveðin í kútinn. Minnumst þess að öll framboðin í síðustu kosningum lögðu áherslu á nýtt verklag í skipulagsmálum og virkara samráð.
Mörg stór skipulagsverkefni eru á dagskránni, m.a. á Kársnesi, í Vatnsendabyggð, við Dalveg og í Auðbrekku og miðbæ. Við skorum á meirihlutann að standa við fyrirheitin í málefnasamningi sínum og vera með okkur í liði. Íbúar eiga það skilið. Framtíðaríbúar eiga líka skilið mannvænna skipulag og meiri virðingu fyrir mannlífi, umhverfi og þjónustu en einkennt hefur skipulagsmálin í Kópavogi um langa hríð.
Bæjarfulltrúarnir Helga Jónsdóttir oddviti Vina Kópavogs og Theodórs S. Þorsteinsdóttir oddviti Viðreisnar eiga báðar sæti í skipulagsráði.