Í kjallara Digraneskirkju hitti Bergljót Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi Samylkingarinnar Önnu Kristinsdóttur formann Mæðrastyrksnefndar Kópavogs, en þar fer fram hefðbundin jólaúthlutun nefndarinnar að þessu sinni.
Bergljót tók Önnu tali fyrir Kópavogspóstinn, en Anna hefur verið formaður mæðrastyrksnefndar s.l. 8 ár.
Getur illa sagt sig frá starfinu
Anna kom inn sem meðlimur í Kvenfélagi Kópavogs en kvenfélögin standa að baki mæðrastyrksnefnda um allt land. Hún getur illa sagt sig frá starfinu þar sem endurnýjun er lítil í félaginu og fáar sem geta helgað sig þessu þakkláta starfi alla daga.
Anna ólst upp í austurbæ Kópavogs frá sex ára aldri og hefur að mestu búið þar en með viðkomu víða um land vegna vinnu eiginmannsins Sigurðar Kristjánssonar. Saman eiga þau þrjá uppkomna syni.
Úthluta til þeirra sem ekki ná endum saman
Hvað gerir mæðrastyrksnefnd? ,,Starf mæðrastyrksnefndar snýst um að úthluta fatnaði, líni, hreinlætisvörum, leikföngum, bókum, búsáhöldum og úttektarkortum í matvöruverslanir til þeirra sem ekki ná endum saman í bæjarfélaginu. Sumt er selt gegn vægu verði. Stjórnin og aðrir fastir sjálfboðaliðar telja átta konur sem sinna þessu starfi árið um kring. Fyrir jólin koma inn fleiri sjálfboðaliðar til að pakka inn gjöfum til barna og útbúa matarpoka. Starfsfólk Íslandsbanka hefur gert þetta í mörg ár og í ár bættist starfsfólk Kópavogsbæjar við,” segir Anna.
Vaxandi hluti styrkþega er aldrað fólk sem ekki nær endum saman
Hverjir þurfa hjálp? ,,Anna segir mæðrastyrksnefnd sinna um 1.000 manns á ári, þ.a. er um helmingur sem fær jólaaðstoð. Önnur aðstoð er í formi úttektarkorta og fatnaðar árið um kring. Um helmingur þeirra sem þiggja aðstoð eru af erlendu þjóðerni en sú breyting hefur orðið að vaxandi hluti styrkþega er aldrað fólk sem ekki nær endum saman. Einnig eru áberandi foreldrar með sameiginlegt forræði en börnin með lögheimili hjá hinu foreldrinu. Þeir fá enga aðstoð frá ríkinu en eru samt með börnin til jafns við hitt foreldrið og eru að sligast undan húsnæðiskostnaði eins og allir sem leita til nefndarinnar. Listar yfir þá sem fá stuðning eru samkeyrðir við aðrar stuðningsveitur á höfuðborgarsvæðinu svo aðeins er hægt að sækja um á einum stað,” segir hún.
Nokkrir tryggir bakhjarlar, bæði fyrirtæki og einstaklinga, en styrkir eru minni í ár
Hverjir styðja starfið? ,,Anna segir nefndina hafa nokkra trygga bakhjarla bæði fyrirtæki og einstaklinga en styrkir eru minni í ár og allur matur og þá sérstaklega kjöt hefur hækkað mjög mikið þannig að fjármagnið nýtist verr en áður. Einnig hefur nefndin þurft að kaupa sumt af því sem þau áður fengu gefins. Sem sýnir að það er líka verri tíð hjá styrkveitendum,” segir Anna.
Ákall til bæjarbúa
Til að vinna gegn þessari þróun þarf ákall til bæjarbúa um að styrkja starfið sem bakverðir með föstum framlögum. Anna hvetur alla sem lagt geta til starfsins að gerast bakverðir og leggja fasta upphæð inn á reikning nefndarinnar 0536-05-403774 kt. 500197-2349. Hugsunin er að margt smátt geri eitt stórt.
Þurfa loka fjóra mánuði á ári vegna fjárskorts
Hvað er framundan? ,,Mæðrastyrksnefnd er í þeirri vondu stöðu að vera á hrakhólum með húsnæði. Kópavogsbær hefur styrkt starfið með því að leggja til húsnæði í Fannborg 5 en óvíst er hvort nefndin muni halda áfram starfi þar. Þetta mál er í höndum bæjaryfirvalda og leysist vonandi farsællega. Nú þarf helst að safna bakhjörlum svo hægt sé að halda opnu allt árið. Eins og staðan er núna þarf að loka í fjóra mánuði yfir sumarið vegna fjárskorts.”
Anna stendur þó keik og heldur áfram sínu góða starfi í þágu bæjarfélagsins okkar og er sannkölluð jólamóðir.