Saman gerum við betur!

Við í Viðreisn förum full tilhlökkunar inn í nýjan vetur og hlökkum til samtalsins og samstarfsins við félaga okkar í bæjarstjórn.

Eftir gott sumarfrí er alltaf ljúft og gott að halda af stað inn í rútínuna góðu. Það sama á við um pólitíkina þar sem hún liggur að mestu leyti í dvala yfir hásumarið.

Það er gott til þess að hugsa að við erum farin að sjá fyrir endann á miklum viðhaldsframkvæmdum vegna leka og myglumála í skólunum okkar en algjör samhljómur var hjá nýrri bæjarstjórn um að forgangsraða fjármunum í löngu tímabært viðhald. Vel hefur tekist að taka utan um það stóra verkefni, öll hafa lagt sitt að mörkum stjórnendur jafnt sem starfsfólk sem og nemendur. En því fylgir eðlilega mikið álag þegar mikið rask verður á starfsemi.

Við sjáum fram á spennandi tækifæri til þess að gera enn betur í okkar einstaka samfélagi sem Garðabær er og fögnum við í Viðreisn því sérstaklega að finna stuðning við úrbætur í málefnum fatlaðs fólks.
Við horfum til þess að nýr íbúðakjarni verði tekinn í notkun með haustinu þar sem 7 fötluðum einstaklingum hefur verið úthlutað íbúð. Mikið fagnaðarefni að sjá þjónustu við fatlað fólk eflast og styrkjast. Sjálfstæð búseta er stór liður í þeirri vegferð.

Það er fleira gott að gerast í málefnum fatlaðra en nýverið styrkti Garðabær verkefnið Íþróttir fyrir alla sem býður fötluðum einstaklingum upp á að æfa fótbolta og bind ég miklar vonir við að verkefnið verði nýtt sem fyrirmynd að frekari inngildingu í öllu íþrótta- og tómstundastarfi fyrir allt fatlað fólk.

Atvinnumál fatlaðra hafa einnig verið í umræðunni og ákveðið hefur verið að rýna tækifærin til að efla atvinnuþátttöku fatlaðra ungmenna sem eru að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Það verður virkilega spennandi að taka þátt í þeirri vinnu. Garðabær hefur allt að bera til þess að verða leiðandi og framsækið sveitarfélag þegar kemur að atvinnumálum fatlaðra en við í Viðreisn höfum sérstaklega kallað eftir þessari vinnu og viljum sjá atvinnumiðstöð fatlaðra verða að veruleika.

Gríðarleg húsnæðisuppbygging á sér stað næstu misserin. Fyrr en varir verður komin byggð í Vetrarmýrinni og nýr kjarni er að byggjast upp úti á Álftanesi. Uppbyggingunni í Vetrarmýrinni munu fylgja nýjar áskoranir í uppbyggingu innviða svo sem leik- og grunnskóla og þá skiptir máli að læra af reynslunni svo barnafjölskyldur lendi ekki í sömu ógöngunum og raungerðust í Urriðaholtinu. Almenningssamgöngur verða áfram áskorun og við munum halda áfram að kalla eftir því að almenningssamgöngur verði alvöru valkostur fyrir íbúa ekki síst unga fólkið sem er með ákall um betri samgöngur og íbúa sem búa í útjaðri Garðabæjar líkt og í Urriðaholti, Álftanesi og í náinni framtíð í Vetrarmýri.

Þar munum við í Viðreisn standa vaktina.

Við í Viðreisn munum halda áfram að setja góð mál á dagskrá, tala fyrir ábyrgum og faglegum rekstri sveitarfélagsins, taka samtalið og hvetja til samráðs og samstöðu okkar allra við bæjarstjórnarborðið.
Saman erum við mikið sterkari og stuðlum þannig enn betur að betri þjónustu við fjölbreyttan hóp íbúa í sveitarfélagi sem heldur áfram að vaxa og dafna með frjálslyndið og mennskuna að leiðarljósi.

Sara Dögg Svanhildardóttir – oddviti Viðreisnar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar