Meirihlutinn hækkar álögur á barnafjölskyldur í Kópavogi

Tillögur starfshóps um skipulag og starfsumhverfi leikskóla Kópavogs voru nýverið samþykktar í bæjarstjórn. Tillögurnar eru sumar hverjar ágætar en þó er að mínu mati skautað fram hjá mikilvægum þáttum. Til að mynda launamálum, bættum aðbúnaði eins og hljóðvist, viðhaldi húsnæðis og fleira.

Í framhaldi af tillögum starfshópsins lagði bæjarstjóri síðan fram afar umdeilda breytingu á gjaldskrá þar sem öll vistun umfram 6 tíma fer stighækkandi með allt að 50% hækkun. Tillagan um hækkun á gjaldskrá barst ekki fyrr en eftir að bæjarstjórn var komin í sumarfrí og því var ekki hægt að taka umræðu á opnum fundi bæjarstjórnar um hana. Það er í besta falli óheppilegt enda um að ræða gríðarlega hækkun sem leiðir til þess að leikskólavist í Kópavogi verður nú sú dýrasta á höfuðborgarsvæðinu. Með breytingunum telur bæjarstjóri sig vera að búa til hvata meðal foreldra til þess að draga úr dvalartíma barna sinna.

Fjölmargir foreldrar í Kópavogi hafa gagnrýnt gjaldskrárhækkanirnar og þær lokanir sem framundan eru. Viðbrögð sem koma ekki á óvart enda var þessi mikla hækkun á gjaldskrá ekki rædd í samráðsferli hjá starfshópnum. Undirrituð ásamt bæjarfulltrúa Pírata lögðu til breytingartillögu í bæjarstjórn og óskuðu eftir samráði við foreldra áður en tillagan yrði afgreidd þannig að foreldrum hefði í að minnsta gefinn kostur á að koma ábendingum á framfæri. Núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafnaði því og bæjarfulltrúar Vina Kópavogs og Samfylkingar sátu hjá við breytingartillögu okkar. Það má taka fram að undirrituð sat hjá við afgreiðslu málsins því það er ekki forsvaranlegt að samþykkja jafn miklar hækkanir á álögum til barnafjölskyldna í Kópavogi. Sér í lagi þar sem undanfarið hafa átt sér stað breytingar á lánakjörum húsnæðislána og miklar hækkanir á daglegri neysluvöru heimila.

Hávær gagnrýni hefur komið fram frá m.a. Kvenréttindafélagi Íslands, Jafnréttisstofu og BSRB þar sem mikill samhljómur er um ágalla á þeim meintu hvötum sem bæjarstjóri er að reyna að ná fram.

Svikin loforð?

Í dag er hlutfall foreldra í kostnaði við rekstur leikskóla rúmlega 12%. Tillaga að nýrri gjaldskrá frá 1. ágúst 2023 gerir ráð fyrir að hlutfall foreldra af rekstri leikskóla hækki í um 16%, eins og kemur fram í samþykktum tillögum. Jafnframt er stefnt að því að hækka hlutfall foreldra í rekstri leikskóla í u.þ.b. 20% á næstu tveimur árum. Þetta er þvert á markmið Sjálfstæðisflokksins sem lofaði fyrir kosningar að álögum og gjöldum yrði stillt í hóf. Ekki verður annað séð en hærra hlutfall þessarar kostnaðarþátttöku lendi á þeim fjölskyldum sem síst skyldi.
Að lokum vil ég kasta fram þeirri tillögu að breyta því fyrirkomulagi að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi samningsumboð fyrir nánast öll sveitarfélög á Íslandi til þess að semja um launakjör starfsfólks og brjóta það upp þannig að t.d landshlutar hafi samningsumboð hvert fyrir sig.

Kópavogsbær hefur alla tíð verið barnvænt velferðarsveitarfélag þar sem ungar barnafjölskyldur hafa sóst eftir því að búa. Það er því óskandi að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar dragi til baka þessar gríðarlegu hækkanir og raunverulega stilli álögum og gjöldum í hóf í samræmi við gefin kosningaloforð.

Theodóra S. Þorsteinsdóttir
Oddviti Viðreisnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar