Allt tal um að við höfum gefið frá okkur bæjarlandið og farið á skjön við reglur er alrangt og stenst engan skoðun

Málefni leikskóla og skipulagsmála á Kársnesi hafa ratað í fréttir undanfarið. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs segir markmiðið í öllum málaflokkum ætíð vera að setja hagsmuni bæjarbúa í fyrsta sæti. Margt hefur áunnist fyrsta árið hjá nýjum meirihluta og spennandi verkefni eru framundan segir bæjarstjóri.

Hver eru helstu verkefnin á þessu fyrsta ári ykkar? ,,Okkar helstu verkefni hafi einkum verið þrjú. Í fyrsta lagi að tryggja áfram góðan rekstur til að geta lækkað álögur á bæjarbúa, sem við gerðum með verulegri lækkun fasteignaskatta á íbúðar- og atvinnuhúsnæði í upphafi árs. Í öðru lagi að ráðast í alvöru breytingar sem snúa að leikskólunum til að bregðast við þeim mikla vanda sem þar hefur fengið að viðgangast í allt of langan tíma. Í þriðja lagi að standa vörð um grunnþjónustu bæjarins og forgangsraða verkefnum. Við fórum til dæmis í breyt-ingar á menningarhúsunum og ætlum að opna menningarmiðju sem verður eins konar upplifunarrými á næsta ári. Við teljum að hér sé svo sannarlega um jákvæða breytingu að ræða sem mun lyfta upp menningarstarfsemi í bænum,” segir Ásdís.

Með miklum ólíkindum hvernig minnihlutinn hefur látið

Reitur 13 hefur verið til umræðu þar sem ósætti er um hvernig að úthlutuninni var staðið – hvað viltu segja um það? ,,Það er með miklum ólíkindum hvernig minnihlutinn hefur látið í þessari umræðu, vísvitandi slitið hluti úr samhengi og um leið dregið ranga mynd af málinu. Ef við hefðum farið þá leið sem minnihlutinn vildi fara hefðum við verið að vinna gegn hagsmunum bæjarins, ekki fengið 1,5 milljarð króna fyrir reitinn og ekki náð að tryggja það að uppbyggingaraðilar tækju þátt í kostnaði við uppbyggingu innviða á svæðinu, eins og hafnarsvæðinu. Við gengum frá samkomulagi áður en skipulagið fór í auglýsingu til að tryggja hagsmuni bæjarins.”

Það var ekki hægt að auglýsa þennan reit

,,Meginreglan er að allar lóðir til sölu eru auglýstar og það er um leið okkar markmið að hámarka ávallt þau verðmæti sem við fáum með lóðasölu. Á þessum tiltekna reit var það hins vegar ekki hægt því hluti af bæjarlandinu tengist sameiginlegum bílakjallara og þá var skörun bæjarlands og fasteigna byggingaraðila ásamt því sem Borgarlínan á að fara þarna í gegn sem flækti málið enn frekar. Við hins vegar fengum markaðsverð fyrir lóðirnar og vandlega var farið yfir allar forsendur í þeim efnum, en til grundvallar var kaupsamningur núverandi lóðarhafa sem nýverið keyptu sinn hluta dýru verði af fyrri eiganda lóðarinnar,” segir hún og bætir við: ,,Allt tal um að við höfum gefið frá okkur bæjarlandið og farið á skjön við reglur er því alrangt og stenst engan skoðun.”

Myndin sýnir uppbyggingarform á Reit 13, hæð húsa, inngarð og tengsl við nágrennið. Mynd/Atelier

Ekkert annað en pólitískt leikrit hjá oddvita Viðreisnar sem jafnan virðist hafa meiri áhuga á að fara í manninn en ekki málefnin

,,Þá finnst mér merkilegt að oddviti Viðreisnar skuli halda því fram að málið hafi ekki verið rætt í bæjarstjórn. Í fyrsta lagi er mikilvægt að hafa í huga að þessi reitur á sér langa sögu allt frá 2017, þegar sá hinn sami oddviti var í meirihluta. Málið hefur verið margoft rætt í bæjarstjórn í gegnum árin þó hennar skoðun virðist hafa breyst þegar hún fór í minnihluta. Þá var þetta tiltekna samkomulag rætt í bæjarráði og loks í bæjarstjórn þar sem umræður fóru fram í heilar þrjár klukkustundir. Formaður skipulagsráðs og skipulagsráðsfulltrúi, Hjördís og Andri Steinn, sátu fund bæjarstjórnar og svöruðum öllum spurningum minnihlutans. Þetta er ekkert annað en pólitískt leikrit hjá oddvita Viðreisnar sem jafnan virðist hafa meiri áhuga á að fara í manninn en ekki málefnin,” segir Ásdís.

Þjónusta við barnafólk orðið sífellt lakari og verið að bregðast við því

Þið kynntuð nýverið róttækar breytingar í leikskólamálum – af hverju og hvaða árangri telji þið að þessar breytingar skili? ,,Við erum einfaldlega að bregðast við þeim vanda sem hefur fengið að viðgangast of lengi þar sem þjónusta við barnafólk hefur orðið sífellt lakari, skort hefur nægjanlega festu í starfinu sökum manneklu og álags. Á mínu fyrsta ári sem bæjarstjóri setti ég í forgang að heimsækja sem flesta leikskóla til að hitta starfsfólk og hlusta á hvað þarf að gera til að bæta starfsumhverfið. Það merkilega við þær heimsóknir er að allir sögðu hið sama, viðvarandi álag, streita og óviðunandi umhverfi fyrir börn og starfsfólk,” segir hún og heldur áfram: ,,Þær breytingar sem við erum að innleiða eru ekki úr lausu lofti gripnar. Við stofnuðum starfshóp skipaður öllum hagaðilum, fulltrúum leikskóla, foreldra, stéttarfélaga og fulltrúa úr pólitíkinni. Almenn samstaða var um að fara þessa leið sem við erum að fara. Þá voru vinnufundir haldnir með bæjarfulltrúum og oddvitar flestra flokka tóku þátt í þeim umræðum og voru breytingar gerðar á tillögum til að koma til móts við sum sjónarmið. Vinir Kópavogs og Samfylkingin studdu breytingarnar með meirihlutanum.”

Eflaust verða gerðar einhverjar breytingar þegar reynsla er komin á þetta

,,Við lítum á þessar breytingar sem tilraunaverkefni og eflaust verða gerðar einhverjar breytingar þegar reynsla er komin á þetta. Í grunninn felst breytingin í því að við erum að bjóða sex klukkutíma gjaldfrjálsa en ný gjaldskrá tekur við eftir þann tíma sem er sniðin þannig að hvati skapast fyrir foreldra til að draga úr dvalartíma barna. Þá erum við að auka sveigjanleikann þannig að foreldrar geti skráð barnið með mismunandi dvalartíma á dögum vikunnar. Með þessum breytingum erum við að biðla til foreldra að skrá dvalartíma barna í takt við raunnýtingu en það sem við höfum séð er að skráður dvalartími barna er almennt meiri en raunnýtingin. Við hins vegar mönnum leikskóla og rekum þá í takt við skráðan dvalartíma. Í því felst einnig ákveðin sóun og aukið álag sem kannski er ekki þörf á.”

Ég skil vel að fólki bregði við að heyra að gjaldskrárhækkanir

,,Ég skil vel að fólki bregði við að heyra að gjaldskrárhækkanir en mikilvægt er að hafa í huga að áfram verða leikskólagjöld 86% niðurgreidd af Kópavogsbæ. Þá mun gjaldskráin taka mið af meðaldvalartíma, það munar til dæmis talsverðu ef unnt er að draga úr dvalartíma þó ekki nema um 30 mínútur á hverjum degi. Þá var rík áhersla lögð á að verja tekjulág heimili og erum við því með tekjutengda afslætti. Einstæðir foreldrar fá einnig afslátt áfram fram að áramótum en miðað við góðar ábendingar foreldra tel ég mögulega þörf á að endurhugsa þann þátt og meta hvort við getum mætt einstæðum foreldrum betur sem ekki falla undir tekjuviðmið eftir áramót,” segir hún.

Foreldrar eru að stytta dvalartíma

,,Foreldrafundir hafa verið haldnir þar sem farið hefur verið yfir þessar breytingar. Þeir fundir hafa gengið vel en einnig höfum við fengið fínar ábendingar sem við erum að fara yfir. Nú á fyrstu vikunum erum við farin að sjá breytingar, foreldrar eru að stytta dvalartíma, við erum að fá leikskólakennara til baka úr grunnskólum og almennur áhugi er að vinna á leikskólum bæjarins. Við erum því ekkert nema bjartsýn á komandi vetur og von- umst til þess að foreldrar, börn og starfsfólk finni strax mun. Markmiðið með þessum breytingum er að efla leikskóla bæjarins með betri mönnun og bættri leikskólaþjónustu fyrir börnin. Kópavogsbær er barnvænt samfélag og við erum að setja börnin í fyrsta sæti.”

Kom ekki á óvart að verkalýðshreyfingin skildi kalla eftir hækkun launa en það er um leið mikil skammsýni

Verkalýðshreyfingin hefur gagnrýnt þessar breytingar og talið að heppilegra hefði verið að hækka laun starfsmanna, kom það aldrei til greina? ,,Það kom mér svo sem ekki á óvart að verkalýðshreyfingin skildi kalla eftir hækkun launa en það er um leið mikil skammsýni. Laun þessara stétta hafa verið að hækka en álagið er áfram hið sama. Þá heyrði ég á öllum leikskólum hið sama – starfsumhverfið er óásættanlegt, of mikið álag og streita þannig að við getum ekki sinnt þeirri þjónustu sem við viljum sinna. Ég hefði talið æskilegra ef verkalýðshreyfingin, sem fulltrúi starfsfólksins, hefði heyrt í starfsfólki áður en þau stigu fram. Þá saknaði ég þess að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafi ekki lesið breytingarnar, sem dæmi virtust þau ekki átta sig á því að við værum með tekjutengdan afslátt fyrir tekjulág heimili.”

Stefna á úthlutun á nýju hverfi í Vatnsendahvarfi á síðari hluta ársins

Það hefur verið af nógu að taka á ykkar fyrsta ári en hvað er svo framundan? ,,Á síðari hluta ársins stefnum við á að hafin verði úthlutun á nýju hverfi í efri byggðum, í Vatnsendahvarfi. Skipulagið er á lokametrum. Þá hefjum við fljótlega vinnu við að skipuleggja höfnina úti á Kársnesi. Þá er hönnun hafin við Fossvogsbrúna en sú brú verður ákaflega mikilvæg búbót fyrir bæinn og skapar ný tækifæri við þróun vesturhluta Kópavogs. Skóflustunga var nýlega tekin við Arnarnesveg en sá vegur er mjög mikilvægur fyrir efri byggðir og mun létta verulega á umferð þar.
Við munum áfram fylgja eftir þeim breytingum sem við erum að gera í leikskólamálum, árangurinn verður mældur reglulega, við munum mæla líðan barna og starfsfólks ásamt því að eiga gott samráð við foreldra. Þá er áhugaverð uppbygging framundan í íþróttamálum, sem dæmi ætlum við að hefja hönnun á nýrri stúku HK á næsta ári. Við viljum einnig horfa til heildarskipulags í Kópavogsdalnum nú þegar Sorpa fer af Dalvegi haustið 2024 – á þeim stað viljum við sjá verslun og þjónustu sem bæjarbúar geta notið góðs af sem dalinn ganga, hlaupa eða hjóla sem dæmi. Þá fer fljótlega af stað vinna við fjárhagsáætlun fyrir árið 2024, eins og síðasta ár munum við áfram standa vörð um góðan rekstur, stilla álögum í hóf og finna leiðir til að fara betur með fjármuni bæjarbúa,” segir Ásdís að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar