Íbúafundur um fjárhagsáætlun

Þriðjudaginn 6. desember kl. 17:15 verður haldinn opinn fundur í Sveinatungu á Garðatorgi 7 um fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2023. Gert er ráð fyrir að fjárhagsáætlun Garðabæjar verði samþykkt á bæjarstjórnarfundi fimmtudaginn 1. desember nk. en þá fer fram síðari umræða bæjarstjórnar um áætlunina.

Vinnuferli fjárhagsáætlunar

Fjárhagsáætlunin fyrir árið 2023 hefur verið í vinnslu frá því snemma í haust en í september setur bæjarráð forsendur áætlunarinnar sem sviðsstjórar og forstöðumenn vinna tillögur út frá. Íbúar fengu einnig eins og undanfarin ár tækifæri til að senda inn ábendingar og tillögur um fjárhagsáætlun í gegnum samráðsgátt. Alls bárust á fimmta tug ábendinga frá íbúum en alls voru nálægt 500 einstaklingar sem skráðu sig inn á samráðsgáttina þar sem þeir gátu sett inn rök með eða móti ábendingum og líkað við tilteknar ábendingar. Fjárhagsáætlunin var einnig reglulega á dagskrá bæjarráðs sem fundar vikulega og farið hefur verið yfir áherslur, fjallað um ný verkefni og fundað hefur verið með fjölmörgum aðilum vegna áætlunarinnar. Fyrri umræða um fjárhagsáætlunina fór fram í bæjarstjórna í byrjun nóvember og eins hafa nefndir bæjarins fjallað um áætlunina á sínum nefndarfundum. Samhliða áætlun fyrir árið 2023 er jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2024, 2025 og 2026.

Opinn kynningarfundur 6. desember

Samþykkt fjárhagsáætlun verður eins og áður sagði kynnt á opnum fundi fyrir íbúa þriðjudaginn 6. desember nk. Fundurinn verður haldinn í fundarsal bæjarins í Sveinatungu á Garðatorgi 7 og hefst kl. 17:15. Á fundinum verður farið yfir helstu atriði fjárhagsáætlunar, s.s. rekstur og fjárhagsstöðu, þjónustu, fræðslumál, velferðarmál, framkvæmdir, umhverfi, menningu og mannlíf. Tækifæri gefst til að spyrja út í þætti í áætluninni. Allir eru velkomnir á fundinn en hann verður jafnframt í beinu streymi á vef Garðabæjar. Upplýsingar um fundinn og gögn um fjárhagsáætlun bæjarins má finna á vef Garðabæjar, gardabaer.is.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar