Fjárfestum enn og aftur úthlutað lóðum án auglýsingar í Kópavogi

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur nú samþykkt að úthluta án auglýsingar byggingarlandi á okkar besta stað á Kársnesinu til fjárfesta sem hafa sankað að sér nærliggjandi fasteignum á svæðinu. Gjörningurinn er auðvitað algjört brot á jafnræði og dregur úr virkri samkeppni á byggingarmarkaði.

Í Kópavogi eru í gildi úthlutunarreglur sem segja að allar lóðir skuli auglýstar í að minnsta kosti tvær vikur áður en þeim er úthlutað en það er greinilega hægt að skauta fram hjá þeim eftir hentisemi. Rökstuðningur bæjarstjóra um að nauðsynlegt sé að hafa lóðirnar á einni hendi vegna deiliskipulagsins heldur engu vatni því samkvæmt samkomulagi við fjárfestana er gert ráð fyrir uppskiptingu lóða og framsal þeirra í kjölfarið. Auk þess eru mörg dæmi þess að ólíkir byggingaraðilar hafi staðið að byggingu sameiginlegs bílastæðakjallara. Þá segir bæjarstjóri að bærinn hafi fengið „markaðsverð“ fyrir lóðirnar en ekki liggur fyrir hvernig á að hafa verið reiknað út. Tap Kópavogsbæjar vegna milligöngu um kaup og sölu á húsnæði Hjálparsveitar Skáta í kringum 300 milljónir.

Á reitnum verður heimilt að byggja 150 íbúðir sem ljóst er að verði fyrst og fremst lúxusíbúðir fyrir ríkt fólk. Engin kvöð er um að ákveðið hlutfall íbúðanna skuli til dæmis uppfylla skilyrði hlutdeildarlána eða vera selt óhagnaðardrifnum leigufélögum. Kópavogsbær hefur kauprétt að 4,5 íbúða fyrir félagslegt húsnæði á markaðsverði en ekki kostnaðarverði svo það eru hverfandi líkur á að af þeim kaupum verði.

Hvorki bæjarstjóri né oddviti Framsóknarflokksins mættu á fund bæjarstjórnar þegar málið var afgreitt. Eftir standa fjölmargar spurningar sem er enn ósvarað en meirihlutinn hafnaði beiðni okkar hinna um frestun.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Pírata

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar