Börn og samkennd

Á leið minni niður á Garðatorg í vikunni hitti ég dásamlega ömmu fyrir ofan heilsugæsluna.  Eftir faðmlög og góðar kveðjur fór hún segja mér hvað það hefði verið henni mikið gleðiefni að styðja ömmustelpuna sína við verkefnið „Jól í skókassa“ sem börnin í Vídalínskirkju hafa verið að undirbúa síðustu daga.  Þar eru þau að útbúa jólagjafir fyrir börn á aldrinum 7-10 ára í Úkraínu og í ljósi stríðsins verður það ennþá þýðingar meira í hugum okkar allra.  Þær langmæðgur höfðu nostrað saman við þá hluti sem fóru í kassann og þá var heppilegt að amman var flínk að prjóna. 

Þegar ég gekk í burtu fór ég að hugsa hvað það væri mikilvægt að ala börnin okkar upp við samkennd og samstöðu. Það gefur lífinu aukin tilgang og dýpkar tilfinningargreind vaxandi kynslóðar.  Það er líka svo fallegt að unglingarnir í æskulýðsfélagi Vídalínskirkju ættleiddu barn í gegnum SOS en þau safna ákveðinni upphæð á ári hverju sem tryggir framfærslu og nám.  Þau hafa verið með gríðarlega flottar hugmyndir og voru t.d. ýmis leiktæki í messukaffinu sem hægt var að spreyta sig á gegn vægri greiðslu, fyrir utan andlitsmálningu og vöfflusölu.  

En nú er komið að stóru verkefni á þessu hausti en það er fermingarbarnasöfnunin sem verður í bæjarfélaginu okkar 7. – 10. nóvember næstkomandi þegar fermingarbörnin safna til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku, nánar tiltekið í Eþíópíu og Úganda.  Ekkert er eins mikilvægt á þessum slóðum eins og að byggja vatnsbrunna. Það er mikil reynsla fyrir börnin okkar að heyra af afleiðingum af skítugu drykkjarvatni fyrir fólkið í þessum löndum og vatnsskorti sem er þeim svo fjarlægt.  Ég finn að þau hafa mikinn metnað að gera vel og ég hef lofað þeim að biðja bæjarbúa að taka vel á móti þeim þessa daga og láta eitthvað af hendi rakna til þessa málefnis.  Ég vil einnig láta bæjarbúa vita að það eru margir sem sækja í styrktarsjóð Vídalínskirkju og við tökum alltaf glöð á móti framlögum þar.  Gospelkór Jóns Vídalíns og Vídalínskirkja munu einnig halda tónleika á aðventunni þar sem allur aðgangseyrir fer í gott málefni en í fyrra fór fjármagnið til kvennaathvarfsins. Allt skiptir þetta gríðarlega miklu máli og hefur sterk uppeldisleg áhrif.  Ég er líka alltaf viss um að Guð blessar glaðan gjafara. 
 
Kær kveðja 
Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar