Stuðningur Garðbæinga skiptir sköpum

Í Hjálparsveit skáta Garðabæ starfa um 100 sjálfboðaliðar í sjö flokkum sem hafa mismunandi sérhæfingu. Meðlimir sveitarinnar hafa tekið þátt í yfir 60 útköllum á síðastliðnu starfsári. Auk útkalla hafa félagar sinnt fjölmörgum öðrum verkefnum s.s. æfingum, námskeiðum og fjáröflunum. Æfingar og námskeið eru grundvöllur þess að viðhalda þekkingu og hæfni björgunarsveitarfólks til að sinna fjölbreyttum verkefnum. 

Fyrir ári síðan setti sveitin sér markmið með sölu Neyðarkallsins að liðka fyrir endurnýjun snjóbíls og vörubíl sveitarinnar. Með dyggum stuðningi Garðbæinga tókst ætlunarverkið og í apríl fékk sveitin nýjan snjóbíl og vörubíl sem hafa fengið nöfnin Þór og Mjölnir. Mikið hefur verið lagt í að hafa þessi tæki sem best búin og þau hafa þegar nýst m.a. í aðstoð við slökkvistarf í gróðureldum við eldgosið á Reykjanesi og í útkalli á Fimmvörðuhálsi. 

Félagar sveitarinnar hafa alla tíð verið dugleg að leita nýjunga til að efla leitar- og björgunarstarf. Á vormánuðum var stofnaður hópur í kringum notkun á drónum í leit og björgun. Á síðustu árum hefur notkun dróna aukist í björgunarsveitarstarfi og þeir hafa nýst vel til leitar t.d. á svæðum sem eru erfið yfirferðar. Markmið hópsins er að styrkja hann enn frekar, efla þekkingu og tækjabúnað t.d. með hitamyndavél sem fest er á dróna. Neyðarkall,

fjáröflun björgunarsveita verður dagana 2.-4. nóvember. Sjálfboðaliðar hjálparsveitarinnar munu selja neyðarkallinn við verslanir í Garðabæ ásamt því að ganga í hús að kvöldi fimmtudagsins 2. nóvember. Fjáröflun sem þessi er mikilvæg hjálparsveitum sem fjármagna allt starf sitt með styrkjum og fjáröflunum. 

Með von um góðar móttökur, því ykkar stuðningur skiptir okkur máli.
Félagar Hjálparsveitar skáta Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar