Verslun Iceland í Engihjalla breytt í Nettó-verslun

Á morgun, fimmtudaginn 29. júní verður verslun Iceland í Engihjalla breytt í Nettó-verslun. Nettó er lágvöru-verslun eins og Kópavogsbúar ættu að vita, en nýja verslunin í Engihjalla verður þriðja Nettó-verslunin í Kópavogi.

Tækifæri að fjölga lágvöruverðsverslunum í Kópavogi

Heiðar Róbert Birnuson er rekstrarstjóri Nettó og Kópavogspósturinn spurði hann af hverju tekin hafi verið ákvörðun að breyta Iceland versluninni í Nettó-verslun? ,,Við erum alltaf að skoða hvað hentar fyrir hverja staðsetningu og við teljum að það séu tækifæri í Kópavogi að fjölga lágvöruverðsverslunum og koma með þá styrkleika sem Nettó hefur inn í Engihjallann. Verslunin hefur verið endurnýjuð og lagt mikla áherslu á að bæta flæði og yfirsýn ásamt því að auka vöruframboð. Þá var farið í sérstakar aðgerðir til þess að gera verslunina umhverfisvænni. Má þar nefna að skipt var út lýsingu og kælum með það að markmiði að spara sem mesta orku og þá verðum við með innkaupakerrur úr endurunnu sjávarplasti,” segir Heiðar.

Aukið vöruúrval í Nettó Engihjalla

Og verður þetta sambærileg verslun og þið rekið við Salaveg og Búðarkór í Kópavogi? ,,Já, við erum að koma með svipaða verslun nema aðeins stærri og rýmri verslun sem býður upp á tækifæri sérstaklega í vöruframboði. Við erum að auka vöruúrvalið, sérstaklega í heilsuvörum og vörum fyrir barnafjölskyldur án þess að minnka vægi annarra vöruflokka. Í nýju Nettó versluninni kemur einnig inn bakaríið okkar þannig við verðum með nýjan bakstur á hverjum morgni og safapressu með nýpressuðum appelsínusafa.”

Áherslan á að bjóða góð verð og vera samkeppnishæf á lágvöruverðsmarkaði

En hvað er það sem einkennir Nettó-verslanirnar? ,,Við hjá Nettó leggjum áherslu á að geta veitt gott vöruúrval í takt við óskir og væntingar okkar viðskiptavina ásamt góða þjónustu – þannig að viðskiptavinir okkar geti gert heildarinnkaupin sín á einum stað. Allt sem við gerum er gert á ábyrgan hátt, hvort sem það snýr að rekstri eða umhverfi. Við bjóðum ferskleika og góð tilboð en umfram allt er áherslan á að bjóða góð verð og vera samkeppnishæf á lágvöruverðsmarkaði.”

60 þúsund nota Nettó appið

Og svo hefur Nettó-appið verið vinsælt Er notkun þess alltaf að aukast og hverjir eru kostirnir við það? ,,Já, appið okkar er mjög vinsælt en það erum um 60.000 notendur í appinu okkar. Viðskiptavinir Nettó fá 2% inneign af öllum viðskiptum ásamt því að reglulega eru sértilboð aðeins til þeirra sem eru með appið og er þar hægt að gera frábær kaup. Hægt er að greiða með appinu sem er mjög þægilegt en það er þó ekki nauðsynlegt að vista kortaupplýsingar í appinu ef viðskiptavinir vilja aðeins safna inneign og greiða með inneigninni í appinu.”

Opnunartilboð fyrstu dagana

Eru svo einhver opnunartilboð í boði fyrstu dagana í Nettó Engihjalla? ,,Já, við erum að stilla upp tilboðum, kynningum og lukkuhjólinu okkar vinsæla fyrir opnunarhelgina og munum kynna breytinguna vel á næstu vikum. Nettó er einnig bakhjarl Ljóssins og verður samstarfi okkar um vörusölu til styrktar þeirra sett af stað í Engihjallanum.”

,,Við erum að auka vöruúrvalið, sérstaklega í heilsuvörum og vörum fyrir barnafjölskyldur án þess að minnka vægi annarra vöruflokka. Í nýju Nettó versluninni kemur einnig inn bakaríið okkar þannig við verðum með nýjan bakstur á hverjum morgni og safapressu með nýpressuðum appelsínusafa,“ segir Róbert Heiðar rekstrarstjóri Nettó.

Opnunartíminn frá 8-24

Nú var Iceland á sínum tíma sólarhringsverslun – hvernig verður opnunartíminn í Nettó Engihjalla? ,,Við höfum tekið eftir minnkandi ásókn í næturverslun en viljum að sjálfsögðu halda góðum opnunartíma í Engihjalla þar sem viðskiptavinir okkar eru vanir því. Við erum hér fyrir þá og því mikilvægt að svara þeirra óskum. Opnunartíminn verður því frá 8-24.”

Og þetta er þá þriðja Nettóversluninin sem þið rekið í Kópavogi, þið hljótið að vera ánægðir í Kópavogi og bæjarbúar að sama skapi með ykkur? ,,Já, okkur líður vel í Kópavogi og höfum átt í mjög góðum viðskiptum og samskiptum við okkar viðskiptavini þar,” segir Heiðar Róbert brosandi að lokum.

Alvöru opnunarhátíð 1. júlí

Opnunarhátíðin verður svo á laugardaginn 1. júlí kl 13 í Nettó Engihjalla þar sem m.a. verða grillaðar pylsur, lukkuhjól verður á staðnum í samvinnu við Nóa Síríus, vörukynningar og BrynjuÍs gefur börnum ís. Þá verður starfsemi Ljóssins og samstarfsverkefni þeirra með Nettó kynnt og einnig verður appkynning á Samkaupa-appinu. Svo það er um að gera að skella sér í nýja Nettó verslunina í Engihjalla strax á morgun þegar hún opnar eða í allra síðasta lagi á laugardaginn þegar opnunarhátíðin er haldin.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar