Spennandi að fá að koma aftur inn á fullu gasi, en vera ekki bara á hliðarlínunni

Hannes Steindórsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins bað um lausn frá störfum sem bæjarfulltrúi á fundi bæjarstjórnar sl. þriðjudag eins og fram kemur í viðtali við Hannes í Kópavogspóstinum og á kgp.is í gær.

Elísabet Sveinsdóttir, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var í fimmta sæti á lista flokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum tók því sæti Hannesar á fundinum, en Sjálfstæðisflokkurinn er með fjóra bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Kópavogs.

Elísabet þekkir vel til bæjarmálanna enda búið í Kópavogi í tugi ára, en hún tók við formennsku í Lista- og menningarráði Kópavogs eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí í fyrra.

Kópavogspósturinn heyrði í Elísubetu, sem var þá stödd í Austurríki þar sem hún starfar sem leiðsögumaður og sat ekki fund bæjarstjórnar sl. þriðjudag. Hún gaf sér þó tíma til svara nokkrum spurningum sem nýr bæjarfulltrúi í Kópavogi.

Eftirsjá af Hannesi

Hvernig líst svo á Elísabetu á að taka sæti í bæjarstjórn Kópavogs? ,,Það leggst nú aldeilis vel í mig þó svo að ég sjái eftir Hannesi, en vona að hann starfi áfram með okkur og verði til halds og trausts. En já, það er spennandi að fá að koma inn á fullu gasi, en vera ekki bara á hliðarlínunni, “segir hún brosandi.

Set bæinn minn í fyrsta sæti

Og þú hefur góðan tíma til að sinna starfi bæjarfulltrúa? ,,Já, ég hef það, en þarf samt að forgangsraða upp á nýtt mínum verkefnum og setja bæinn minn í fyrsta sæti.

Mest aðkallandi að bærinn sé rekinn áfram af skynsemi og ábyrgð

Hver telur þú vera með aðkallandi málin í Kópavogi þessa stundina? ,,Það er mest aðkallandi að bærinn sé rekinn áfram af skynsemi og ábyrgð, sérstaklega á óvissutímum sem þessum. Ábyrgur og traustur rekstur er nefnilega forsenda alls þess sem á eftir kemur og þannig getum við veitt framúrskarandi þjónustu sem mætir þörfum íbúa sem er nú alltaf megin tilgangurinn.”

Elísabet hefur undanfarnar vikur verið stödd í Austurrísku ölpunum ásamt eiginmanni sínum, Aðalsteini Jónssyni, og kemur því vel hvíld og eldhress í bæjarfulltrúann!

Í stopulu sambandi við umheiminn

Þú ert formaður Lista- og menningarráðs þar sem margt hefur verið að gerast á undanförnum vikum og mánuðum. Heldur þú áfram sem formaður eða breytir til? ,,Við höfum ekkert rætt slíka hluti þannig að ég hef ekki hugmynd, enda hef ég verið á ferðalagi í Austurrísku ölpunum undanfarnar vikur og því í stopulu sambandi við umheiminn,” segir hún brosandi og bætir við: ,,Ég vil hinsvegar gjarnan klára verkefnin sem við erum með í gangi og tengjast lista- og menningarmálum í Kópavogi. Það skiptir máli að þeim sé fylgt vel eftir og verði okkur bæjarbúum til sóma.”

Það er mikill hugur í mér að láta gott af mér leiða

Þannig að þú ert bara full tilhlökkunar að taka sæti í bæjarstjórn Kópavogs? ,,Já, sannarlega. Það er mikill hugur í mér að láta gott af mér leiða og vera í góðu sambandi við bæjarbúa – við sem erum bæjarfulltrúar störfum jú í þeirra umboði,” segir Elísabet að lokum frá Austurríki.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar