Garðabær menningar og lista

Bærinn okkar hefur verið þekktur sem öflugur skóla- og íþróttabær, segja má að glæst frammistaða á þessum sviðum séu okkar aðalsmerki en þriðja stoðin gæti orðið menning og listir. Til þess eigum við öll sóknarfæri. Nauðsynlegt er að bæta aðstöðu og húsnæðismál til að svo geti orðið en allt annað er til staðar. 
 
Menningarveturinn í Garðabæ var einstaklega öflugur og mörg nýmæli í boði. Dagskrá fyrir fjölskyldur, fyrir eldri borgara og þá sem geta brugðið sér á tónleika í hádeginu, fyrir jazzgeggjara og aðra tónlistaráhugamenn, fyrir fróðleiksfúsa um ýmiskonar málefni eru rúmlega fimmtíu talsins á vorönn einni. Þá er ótalið allir þeir viðburðir sem í boði voru fyrir skólahópa en á vorönn nutu 2299 grunnskólabörn dagskrár í boði menningar- og safnanefndar.
 
Fyrsta flokks lista- og fræðifólk hefur lagt hönd á plóg þegar kemur að öllum viðburðum hvort sem er fyrir börn eða fullorðna en yfirumsjón með allri dagskrá hefur menningarfulltrúi bæjarins Ólöf Breiðfjörð sem er í góðu samstarfi við starfsfólk stofnana bæjarins hvort sem er skólastjórar og kennarar eða starfsfólk menningarstofnana.

Menning fyrir alla fjölskylduna

Viðburðir fyrir fjölskyldur á Bókasafni Garðabæjar fóru fram á laugardögum svo sem sögur og söngur sem ætlað er yngstu börnunum með foreldrum sínum, föndurstundir og forritun, hljóðfærasmiðja og öskupokagerð svo eitthvað sé nefnt. Á Hönnunarsafni Íslands fóru fram leirsmiðjur, furðudýrasmiðja og skuggasmiðja þar sem teiknað var eftir skuggum skúlptúra Einars Þorsteins stærðfræðings og hönnuðar.
Hádegistónleikaröðin Tónlistarnæring hefur fest sig í sessi en tónleikar fara fram fyrsta miðvikudag í mánuði í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Á tónleikunum koma fram fyrsta flokkst tónlistarmenn í bland við upprennandi stjörnur og ávallt þétt setið í yndælum salnum í tónlistarskólanum. Aðrir viðburðir fyrir fullorðna eru leiðsagnir í Hönnunarsafninu og fyrirlestrar um hönnun en einnig ýmiskonar áhugaverð erindi á Bókasafni Garðabæjar svo sem erindi frá Samtökunum 78, erindi um skyndihjálp ungbarna og rithöfundaspjall.

Skólamenning 

Í upphafi hverrar annar er menningardagskrá fyrir skólahópa kynnt skólastjórum og kennurum og óhætt að segja að samstarfið milli menningarfulltrúa og skólasamfélagsins sé eins og best verður á kosið. Í vor fóru fram í Hönnunarsafninu hönnunarsmiðjur fyrir 4. bekkinga og allir nemendur 4. bekkja í grunnskólum Garðabæjar tóku þátt í að hanna og búa til heimili í fjölbýlishús sem varð að sýningu á safninu sem var opnuð á Barnamenningarhátíð. Fimmtu bekkingar tóku hinsvegar þátt í verkefnavinnu  um landnámið á margmiðlunarsýningunni Aftur til Hofsstaða á Garðatorgi 7 en Barnamenningarsjóður styrkti verkefnagerðina sem unnin var af þjóðfræðingi með það fyrir augum að gera áhugaverð og skemmtileg verkefni fyrir nemendur. Valgerður Guðnadóttir söngkona flutti ásamt píanóleikara og fiðluleikara Töfrafljóð sem allir 1. og 2. bekkingar Garðabæjar nutu en farið var í tónlistarferðalag með Valgerði og félögum og ýmiskonar tónlist kynnt á skemmtilegan hátt fyrir nemendum. Á Barnamenningarhátíð dönsuðu svo 1. bekkingar í danspartýi á Garðatorgi. Þriðju bekkingar tóku þátt í furðudýrasmiðju á Hönnunarsafninu auk þess sem sýning á skringilegum fjölbýlishúsum eftir 4. bekkinga var opnuð. Gunnar Helgason tók á móti 5. bekkingum í ritsmiðju á Bókasafninu og 7. bekkingar fóru í leiðsögn og spjall með fornleifafræðingi um Minjagarðinn á Hofsstöðum og Aftur til Hofsstaða. Þá var opnuð á Bókasafni Garðabæjar sýning á verkum leikskólabarna, Músagangur á bókasafninu. Í maí nutu svo 4. bekkingar óperunnar Töfraflautan eftir Mozart en það voru nemendur söngdeildar Tónlistarskólans sem fluttu. Þá tóku nemendur unglingastigs þátt í Ljóðaslammi á Bókasafninu og nemendur 6. bekkjar þátt í ratleik um safnið.

Jazzþorpið og Rökkvan 

Jazzþorpið í Garðbæ fór líklega ekki framhjá neinum en ánægja með hátíðina var mikil. Menningar- og safnanefnd fékk til liðs við sig Ómar Guðjónsson sem á veg og vanda að hugmyndavinnu þorpsins og fékk til liðs við sig fyrsta flokks jazztónlistarmenn sem fluttu tónlist en einnig erindi tengd jazzinum. Garðatorg var skreytt lituðum pappírskúlum og húsgögn frá Góða Hirðinum voru til sölu. Þúsundir sóttu Garðatorg heim þessa helgi og var það um leið mikil lyftistöng fyrir verslun og þjónustu á svæðinu. 
 
Í haust mega Garðbæingar eiga von á öflugri menningardagskrá fyrir alla aldurshópa en stóri viðburður haustsins verður Rökkvan, listahátíð unga fólksins í Garðabæ sem haldin var í fyrsta sinn í fyrra við frábærar undirtektir. Við eigum mikinn auð í ungu listafólki sem er reiðubúið að leggja mikið á sig til að efla menningarlíf bæjarins og okkur ber skylda til að styðja þau dyggilega. 

Auk þess að standa fyrir öflugri dagskrá veitir menningar- og safnanefnd árlega styrki til einstaklinga, hópa og frjálsra félagasamtaka svo sem Grósku, félags myndlistarmanna í Garðabæ sem vinnur gott starf og annarra sem standa að tónleikum og sýningum í því skyni að efla menningarlíf Garðabæjar.

Guðfinnur Sigurvinsson,
formaður Menningar- og safnanefndar 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar