Sparnaður á kostnað vistvæns skipulags og lýðræðisins

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Kópavogi hreykir sér af því að ætla að skila 228 m.kr. rekstrarafgangi á næsta ári. Þessi afgangur er þó ekki kominn til af góðu. Tveir mikilvægir málaflokkar hafa til dæmis verið þurrkaðir út úr þessari fjárhagsáætlun, þrátt fyrir að hafa hingað til átt þar fastan sess árlega. Annars vegar er hætt við 80 m.kr. framlag til íbúalýðræðisverkefnisins Okkar Kópavogs – Tækifærum íbúa til áhrifa fækkar samhliða því, þar sem kosning verður ekki lengur annað hvert ár heldur þess í stað á þriggja ára fresti.

Hins vegar er allt fjármagn í gerð göngu- og hjólastíga afturkallað í áætlun næsta árs, en síðustu ár hafa 55-65 m.kr. verið áætlaðar í stígagerð innanbæjar árlega. Nú stendur ekki til að leggja neina nýja stíga utan tengistíga sem falla undir samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og greiðast þar með úr sameiginlegum sjóði sveitarfélaganna.

Það er enginn vafi um það að góðir innviðir fyrir virka ferðamáta eru ein verðmætasta fjárfesting sem við sem samfélag getum ráðist í. Þannig stuðlum við að því að fleiri fari ferða sinna gangandi eða hjólandi, sem bæði dregur úr umferðarþunga og leiðir af sér betri heilsu bæjarbúa. Aðskildir göngu- og hjólastígar bæta auk þess umferðaröryggi og stuðla þannig bæði að bættum lífsgæðum og sjálfbærara samfélagi.
Yfirlýst framtíðarsýn bæjarins fjallar meðal annars um að Kópavogur sé „borgarsamfélag í nánum tengslum við náttúruna sem sýnir bæði umhverfislega og samfélagslega ábyrgð“, ásamt því að vera „samfélag sem byggir á lýðræðislegum ákvörðunum þar sem íbúarnir hafa áhrif á eigin mál“.
Hér í Kópavogi var um árabil hefð var fyrir samvinnu allra flokka við gerð fjárhagsáætlunar og þannig gátu allir bæjarfulltrúar tekið sameiginlega ábyrgð á fjármálum bæjarins. Í fyrra var horfið frá því vinnulagi sem er miður, vegna þess að samvinna þvert á flokka er bæði lýðræðislegri og líklegri til þess að skila farsælli útkomu sem meiri sátt ríkir um.
Þess í stað sparar meirihlutinn sér nokkra milljónatugi með umdeildum niðurskurði svo skila megi áætlun í plús.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti og bæjarfulltrúi Pírata

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar