Kraftmikið menningarvor í kortunum

Fjölbreyttir viðburðir, metnaðarfullar sýningar og andleg næring af öllu tagi verða í boði í menningarhúsunum í Kópavogi á vetrar- og vormánuðum þar sem allar kynslóðir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Ljúfur hádegisjazz og lestrarkveikjur fyrir bókaorma

Á meðal nýlegra liða má nefna hádegisjass á Bókasafni Kópavogs og viðburðaröðina Leslyndi. Hádegisjazzinn er haldinn í samstarfi við Tónlistarskóla FÍH, fer fram á Bókasafni Kópavogs síðasta fimmtudag hvers mánaðar þar sem ungir og upprennandi jasstónlistarmenn flytja ljúfa tóna en tónleikarnir vara í rétt rúman hálftíma og eru dásamlegt uppbrot á deginum.

Leslyndi hóf göngu sína síðastliðið haust og hefur notið mikilla vinsælda. Þar stíga þjóðþekktir bókaunnendur á stokk og deila með hlustendum bókum og lestrarkveikjum sem hafa haft áhrif en framundan eru heimsóknir hinna ástsælu rithöfunda Einars Kárasonar, Auðar Övu Ólafsdóttur, Braga Ólafssonar og Fríðu Ísberg.

Ímyndunaraflið virkjað í skapandi smiðjum

Á laugardögum verður boðið upp á skapandi smiðjur í viðburðaröðinni Fjölskyldustundir á laugardögum en þær eru leiddar af sérfræðingum í barnastarfi og listamönnum í fremstu röð. Skuggaleikhús og óróasmiðja, grímugerð og vefnaður, fjöltyngdar listsmiðjur og Vísindasmiðja Háskóla Íslands er á meðal þess sem börn og fjölskyldur geta notið alla laugardaga á milli 13 – 15.

Ljóðið hyllt á afmælisdegi Jóns úr Vör

Á afmælisdegi ljóðskáldsins Jóns úr Vör verða verðlaun og viðurkenningar veittar í ljóðasamkeppninni Ljóðstafur Jóns úr Vör en samkeppnin er nú haldin í 22. sinn og hefur fyrir löngu sannað gildi sitt sem ómetanleg innspýting inn í bókmenntasenuna. Alltaf ríkir mikil leynd yfir því hver hlýtur Ljóðstafinn og spennandi er að sjá hver mun hampa stafnum góða næst. Ljóðið verður í öndvegi í kringum Ljóðstafinn með fjölbreyttum viðburðum og ljóðasýningum.

Venjulegir staðir, venjulegar myndir

Spennandi sýningar eru framundan í Gerðarsafni en í tengslum við þær verður hægt að njóta áhugaverðra leiðsagna á sýningatímabilinu. Um er að ræða sýningarnar Venjulegir staðir og Venjulegar myndir þar sem ljósmyndin er í brennidepli og hina alltumlykjandi og þverfaglegu innsetningu Moltu eftir Rósa Ómarsdóttur en þar verður einnig boðið upp á lifandi sýningu í samstarfi við Íslenska dansflokkinn.

Hvað er?

Í mars og apríl mun Náttúrufræðistofa standa fyrir áhugaverðri erindaröð undir yfirskriftinni Hvað er? Þar munu sérfræðingar úr ólíkum áttum bregða ljósi á mismunandi viðfangsefni tengd náttúrufræðum og tala um þau á mannamáli.

Í Salnum verður hægt að fá beint í æð strauma og stefnur úr alls konar áttum, sígilda og splunkunýja í bland en tónleikaraðirnar Tíbrá, Söngvaskáld og Af fingrum munu halda áfram að vera vettvangur fyrir fjölbreytta tónlistarupplifun.

Fjölmargt annað er í boði í glæsilegri vetrar- og vordagskrá menningarhúsanna í Kópavogi en dagskrána má kynna sér inni á menningarvefnum meko.is.

Elísabet Indra Ragnarsdóttir, verkefna- og viðburðastjóri menningarmála hjá Kópavogsbæ

Einar Kárason

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar