Kópavogsbær sýnir ábyrgð við komu flóttafólks

Samningur um samræmda móttöku flóttafólks í Kópavogi var undirritaður fimmtudaginn 22. júní.

Samkvæmt honum mun Kópavogur taka á móti allt að 101 flóttamanni. Þar með hafa níu fjölmennustu sveitarfélög landsins öll undirritað samninga um samræmda móttöku flóttafólks. Heildarfjöldi flóttafólks sem samningarnir ná yfir er orðinn ríflega 3.300.

Samræmd móttaka flóttafólks er hugsuð fyrir þau sem fengið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og þurfa stuðning við að ná rótfestu hér á landi. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að. Lögð er áhersla á nauðsynlega aðstoð við fólk til að vinna úr áföllum og að það fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem gegnum atvinnu, nám, samfélagsfræðslu og íslenskukennslu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, óskar nýjum bæjarbúum Kópavogs velfarnaðar. „Ég fagna því að Kópavogur hafi slegist í ört stækkandi hóp sveitarfélaga vítt og breitt um landið sem undirritað hafa samninga um samræmda móttöku flóttafólks,“ segir hann.

Sigrún Þórarinsdóttir, sviðstjóri velferðarsviðs hjá Kópavogsbæ, Björg Baldursdóttir, formaður velferðarráðs Kópavogs, sem rituðu undir samninginn fyrir hönd Kópavogs og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Viljum standa vel að þjónustu við flóttafólk

„Kópavogsbær fagnar því að gengið sé til samninga við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks. Kópavogsbær leggur ríka áherslu á að vel sé staðið að þjónustu við flóttafólk líkt og aðra íbúa sveitarfélagsins. Með þessum samningi sýnir Kópavogsbær ábyrgð enda nauðsynlegt að innviðir standi undir þeim fjölda sem um er samið,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Mismunurinn allt að 155 milljónir yfir þriggja ára tímabil

Hvað fjöldann varðar þá takið þið við 101 flóttamanni sem er niðurstaða eftir greiningarvinnu sem þið fóruð í enda viljið þið gera þetta með ábyrgum hætti. Hver er kostnaðurinn fyrir Kópavogsbæ að taka á móti þessum fjölda flóttamanna? ,,Samningur um samræmda móttöku felur í sér að veita tiltekinn fjölda þjónustutíma. Þjónustan er í formi félagslegrar ráðgjafar, sérstakrar umsýslu og við húsnæðisleit og standsetningu heimilis.
Útreikningar Kópavogsbæjar benda til þess að greiðslur ríkisins sem snúa að þessum þáttum séu vanáætlaðar, sem dæmi er launakostnaður sveitarfélagsins hærri, virkar vinnustundir á ári færri og ekki er gert ráð fyrir öðrum starfsmannakostnaði. Þetta þýðir að sveitarfélagið þarf að leggja til mismun eða hagræða annars staðar til að geta veitt þjónustu skv. samningi. Okkur reiknast til að miðað við 100 manns er mismunurinn allt að 155 milljónir yfir þriggja ára tímabil. Þá er ekki tekið mið af því að raunkostnaður vegna skólagöngu flóttabarna er hærri en framlög. Að okkar mati er afar brýnt að stuðningur mennta- og barnamálaráðuneytisins við skólaþjónustu sveitarfélaga sé hluti af samningi um samræmda móttöku flóttafólks til að tryggja betur fjármögnun sérhæfðrar þjónustu leik- og grunnskóla til flóttabarna,” segir hún.

121 umsókn á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð og 38 umsóknir í afgreiðsluferli

Það er skortur á húsnæði í Kópavogi og nú þegar biðlisti eftir félagslegu húsnæði í bænum – hvað er sá biðlisti langur og hvernig ætlið þið að koma þessum 101 flóttamanni fyrir? Verður það til þess að þessi biðlisti eftir félagslegu húsnæði fyrir Kópavogsbúa muni jafnvel lengjast? ,,Nauðsynlegt er að tryggja að innviðir standi undir þeim fjölda sem um er samið. Í samræmdri móttöku flóttafólks mun sérstaklega reyna á húsnæðismálin en sveitarfélög sem undirgangast samninga bera mikla ábyrgð þegar kemur að liðsinni við að útvega einstaklingum húsnæði.
Við sjáum þegar að allmörg sveitarfélög sem þegar taka þátt í samræmdri móttöku hafa auglýst eftir húsnæði þar sem lítið framboð er af hentugu íbúðarhúsnæði til leigu sem þarf að standa einstaklingum í samræmdri móttöku til boða. Mikill skortur er í dag á leiguhúsnæði hjá Kópavogsbæ og rétt að benda á að alls er 121 umsókn á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð og 38 umsóknir í afgreiðsluferli. Flóttafólk í samræmdri móttöku, eins og aðrir íbúar með lögheimili í Kópavogi, geta sótt um félagslegt leiguhúsnæði þegar 6 mánaða lögheimilisskráningu er náð. Sú hætta er fyrir hendi að biðlistar gætu lengst en meðalbiðtími eftir úthlutun íbúðar er í kringum þrjú ár í dag.
Viðbúið er að það verði vandkvæðum bundið að tryggja flóttafólki sem stendur til boða samræmd móttaka hjá Kópavogsbæ, húsnæði innan tímamarka, skv. samningi og kröfulýsingu, ef horft er til stöðunnar á húsnæðismarkaði í dag. Sérfræðingar velferðarsviðs hafa mikla reynslu af því að liðsinna íbúum sveitarfélagsins í húsnæðisleit en það mun taka tíma og vert að benda á.”

Hvernig er staðan varðandi leik- og grunnskóla, sjálfsagt einhver börn á leik- og grunnskólaaldri sem eru að koma í Kópavoginn, komast þau inn? ,,Kópavogsbær leitast við að veita börnum flóttamanna á leik- og grunnskólaaldri þá þjónustu sem þörf er á hverju sinni. Grunnskólabörn með lögheimili í Kópavogi fá ávallt inngöngu í grunnskóla í Kópavogi en innganga barna á leikskólaaldri í leikskóla tekur mið af aldri barns og stöðu mála við innritun í leikskóla hverju sinni,” segir Ásdís að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar