Fjölskyldusýningar í menningarhúsunum sumarið 2023

Menningarhúsin í Kópavogi eru frábær áfangastaður fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Á túninu fyrir framan húsin eru vinsæl leiktæki og þegar inn er haldið er boðið upp á alls kyns skemmtun og fróðleik fyrir börn. Í sumar standa yfir þrjár sýningar sem ættu að höfða sérstaklega til fjölskyldufólks.

Þykjó í Gerðarsafni

Heimur dýranna ræður ríkjum á sýningu ÞYKJÓ í Gerðarsafni en þessi rómaði hönnunarhópur sýnir þar verk sem unnin voru þegar hönnuðir hópsins voru staðarlistamenn við menningarhúsin árið 2021. ÞYKJÓ vann þá m.a. Krakkahreiður, sem innblásin eru af hreiðrum spörfugla, hina dásamlegu búningalínu Ástarfugl og Feludýr þar sem hægt er að bregða sér í gervi snigils og fugls og innsetninguna Sjónarspil sem hverfist um að sjá heiminn út frá augum ólíkra dýra svo sem fiðrildis og refs. Á sýningunni er hægt að máta búninga, hreiðra um sig, snerta, horfa og leysa skemmtileg verkefni en sýningin er opin alla daga frá 12 – 18.

Draumaeyjur og heimkynni dýranna

Á Bókasafni Kópavogs stendur á jarðhæð yfir sýningin Draumaeyjan okkar en sýningin var unnin af sautján ungum grunnskólabörnum í Kópavogi veturinn 2022 – 2023. Þar má sjá ótal verk sem börnin unnu út frá söguheimi Astrid Lindgren, Tove Jansson, H. C. Andersen og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en sýningarstjóri er Kristín Ragna Gunnarsdóttir. Sýningin býður upp á alls konar skemmtun fyrir alla fjölskylduna sem þessir hugmyndaríku listamenn unnu.

Á Náttúrufræðistofu Kópavogs stendur svo yfir hin glæsilega sýning Heimkynni þar sem hægt er að skoða og kynna sér lífríki Íslands og fjölbreytt búsvæði. Þangað eru öll hjartanlega velkomin en Náttúrufræðistofa og Bókasafn Kópavogs eru opin frá 8 – 18 alla virka daga og á laugardögum frá 11 – 17.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar