Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir presti til þjónustu í Digranes- og Hjallaprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Fimm umsóknir bárust og varð sr. Hildur Sigurðardóttir fyrir valinu hjá valnefnd og hefur Biskup Íslands staðfest ráðninguna.
Sr. Hildur Sigurðardóttir er fædd þann 21. febrúar árið 1968 í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá Guðfræðideild Háskóla Íslands haustið 1995 og vígðist þann 8. október sama ár til Seltjarnarneskirkju við hlið sr. Sólveigar Láru Guðmundsdóttur þáverandi sóknarprests á Seltjarnarnesi. Þar starfaði hún fram í ársbyrjun 1998, þegar eiginmaður hennar, sr. Jón Ármann Gíslason vígðist til Skinnastaðarprestakalls í Öxarfirði og fluttust þau hjónin þangað þar sem þau hafa búið í rúmlega 25 ár.
Þau hjón eiga tvo syni, þá Þorstein Gísla, sem fæddur er árið 2004 og Sigurð Kára, sem er fæddur árið 2007 og stunda þeir nú báðir nám við Menntaskólann í Kópavogi.
Hefur unnið við ýmist störf
Í sveitinni hefur sr. Hildur unnið ýmis störf. Hún hefur verið leikskólastjóri, annast heimaþjónustu, verið kennari og starfað á heilsugæslu og í apóteki á Kópaskeri. Einnig hefur hún verið í afleysingum sem prestur á nokkrum stöðum frá Vopnafirði til Akureyrar, lengst þó á Þórshöfn á Langanesi og Raufarhöfn þegar það var sérstakt prestakall.
Aðspurð um væntingar sínar til starfsins í Digranes- og Hjallaprestakalli segir sr. Hildur: „Ég er farin að vinna að nokkru leyti nú þegar í Digranes- og Hjallaprestakalli og líkar mér mjög vel að fara að vinna með sr. Alfreð Erni Finnssyni. Einnig höfum við einstaklega hæft starfsfólk í báðum kirkjum sem sinna sínu starfi af natni og áhuga.“
Hlakkar til að takast á við ný verkefni
Svo er gott að vera komin í Kópavoginn til að þjónusta í Digranes- og Hjallakirkju? ,,Það er gott að vera komin suður til að vera með stórfjölskyldunni, en líka söknuður af dreifbýlinu, þar sem við höfum búið í hartnær 26 ár. En ég hlakka að sjálfsögðu til að takast á við ný verkefni hér sunnan heiða.“
Horfir á enska boltann og les bækur
En hvað gerir svo Hildur fyrir utan vinnutímann, einhver áhugamál? ,,Ég var mikið í íþróttum í gamla daga og á met og verðlaun í ýmsum greinum, þótt ég segi sjálf frá. Ég stefni að því að hreyfa mig eitthvað meira á næstunni. En þegar ég hugsa mig um, þá hef ég mjög „sófakartöfluleg“ áhugamál, t.d. finnst mér gaman að horfa á breskar og sænskar glæpamyndir,“ segir hún og tekur samt fram að þær megi samt ekki vera of óhugnanlegar. Mér finnst gaman að horfa á enska boltann og lesa bækur. Einnig syng ég svolítið, en ég hef lokið söngnámi frá söngskóla,“ segir Hildur.
Skemmtilegt að starfa með fólki í ólíkum aðstæðum
Er gefandi að starfa sem prestur? ,,Það er meira en gefandi að starfa sem prestur, það er lífstíll. Fjölbreytnin finnst mér kostur, en alltaf er skemmtilegast þó að starfa með fólki í ólíkum aðstæðum.
Eiga bæjarbúar nokkuð von á að þú umbreytir starfinu í Hjalla- og Digraneskirkju? ,,Ég er sem betur fer ekki einráð og við sr. Alfreð Örn gerum allt í samráði hvort við annað og sóknarnefnd og starfsfólk kirkjunnar. Annars er aldrei að vita,“ segir hún í glettingi.
Börnin og unglingarnir séu hryggjarstykkið í kirkjustarfinu
Á hvað þú munt leggja mesta áherslu í starfinu? „Mér finnst persónulega að börnin og unglingarnir séu hryggjarstykkið í kirkjustarfinu, því ef þau eru ánægð og koma í kirkjuna, þá kemur fullorðna fólkið líka,“ segir Hildur.
En hefur starf kirkjunnar verið að breytast á undanförum árum? ,,Sveitaprestur og borgarprestur er t.d. tvennt ólíkt. Já, mér finnst áherslurnar vera alltaf að breytast, kannski má segja meiri fjölbreytni,“ segir Hildur sem hlakkar til að takast á við ný verkefni í Digranes- og Hjallaprestakalli.
Sr. Hildur Sigurðardóttir ásamt samstarfsfélaga sínum í Digranes- og Hjallaprestakalli, Alfreði Erni Finnssyni.