Árangur umfram mínútutalningu

Fyrsti fundur nýs menntaráðs Kópavogs var 28. júní 2022. Núna þegar fyrsta önn nýs menntaráðs er lokið er rétt að staldra við, líta til baka og skoða hvernig hefur gengið.
Í málefnasáttmála Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Kópavogi 2022-2026, “Áttaviti til árangurs” er farið vel yfir áherslur meirihlutans í menntamálum og fjölmörg verkefni sett fram sem ganga þarf í á kjörtímabilinu. Því langar mig að draga fram tvo fundi sem stóðu upp úr nýliðið haust.

Þann 6. september 2022, á eitt hundraðasta fundi menntaráðs kom á fundinn Kristrún Lind Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Ásgarðs og kynnti Askinn námsgagnatorg. Askurinn er sérsniðið námsumsjónarkerfi sem gefur yfirsýn yfir framkvæmd nútíma skólastarfs, styður við starf kennarans og auðveldar skipulag og framkvæmd náms án aðgreiningar. Askurinn er sérstaklega hannaður til þess að halda utan um tengingu persónumiðað náms við grunnþætti menntunar, heimsmarkmiða sameinuðu þjóðanna, markmiða aðalnámskrár og þar með skólanámskrár skólanna.

Ég er sannfærður um það að innleiðing Asksins muni eiga stóran þátt í því að allir nemendur Kópavogsbæjar hafi tækifæri til þess að nám þeirra verði útfært með persónumiðaðar þarfir þeirra í huga. Askurinn gefur okkur áður óþekkt tækifæri til þess að tengja nám enn betur við íþróttir og önnur ólík áhugasvið nemenda og hugsanlega kveiki þannig meiri áhuga á náminu. Með nýtingu tækninnar á þennan hátt skapast dýrmæt yfirsýn í rauntíma yfir framfarir nemenda og utanumhald um árangur þeirra af þeim markmiðum sem sett eru af kennurum eða nemendum sjálfum. Kennarar sem hafa skoðað og notað Askinn og markaðstorg hans með kennsluefni hafa metið vinnuhagræðingu sína mikla.

Í fyrrnefndum sáttmála, “Áttaviti til árangurs” segir:
“Tryggja eftirsóknarvert vinnuumhverfi í skólum bæjarins með bættri aðstöðu og umhverfi”
“Kópavogur verður áfram í fararbroddi í framsýnu skólastarfi og tryggt áframhaldandi þróun í stafrænni tækni og fjölbreyttum hug- og vélbúnað. Með því bætum við gæði náms- og starfsumhverfi nemenda og kennara”

Fyrstu skólar Kópavogs hafa nú þegar hafið undirbúning við að innleiða Askinn á þessu ári.

Þann 15. nóvember 2022, á eitt hundraðasta og fimmta fundi menntaráðs var kynning á veikindatíðni og verkefninu “velferð á vinnustað” þar sem markmiðið er að styðja við starfsfólk og stjórnendur vegna veikinda. Það er ekki ofsögum sagt að kennarastarfið sé krefjandi og því þarf að leita allra leiða til að tryggja það að tíma bæði kennara og stjórnenda sé vel varið. Núverandi tímaskráningarkerfi er í mínum huga hamlandi og ávinningur af mínútutalningu er enginn. Heillavænlegra er að mínu mati að mæla og birta árangur skólastarfsins en mínútur starfsmanna. Við þurfum að hafa yfirsýn yfir gæðastarf í skólunum okkar og geta gripið inn í til að styðja við þar sem viðvörunarbjöllur hringja.

Í fyrrnefndum sáttmála, “Áttaviti til árangurs” segir:
“Endurskoða stimpilklukku/vinnustund í núverandi mynd til einföldunar fyrir starfsmenn og stjórnendur bæjarins”

Lagt er upp með að nýtt ferli með tímaskráningu starfsmanna grunnskóla Kópavogs verð kynnt fyrir menntaráði fyrir sumarfrí 2023 og unnt verði að hefja vinnu eftir því á skólaárinu 2023-2024.

Stafræn einstaklingsmiðuð kennsla og árangursmælingar umfram tímamælingar eru framtíðin og framtíðin er í Kópavogi!

Sigvaldi Egill Lárusson
Höfundur er foreldri barna í leik- og grunnskóla í Kópavogi og formaður menntaráðs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar