1.700 leikir spilaðirá Símamótinu á 38 völlum

Það er mikil spenna í loftinu í Smáranum þessa stundina á meðal nærri 3000 ungra knattspyrnustúlkna sem hefja leik á morgun á hinu árlega Símamóti Breiðabliks, en setningin mótsins er í kvöld. Mótið er nú haldið í 39 árið í röð, en upphaflega hét það Gull- og silfurmótið.

Kópavogspósturinn sló á þráðinn til Jóhanns Þórs Jónssonar, formans barna og unglingaráðs Breiðabliks, en Jóhann heldur utan um mótið ásamt fríðu föruneyti, til að forvitnast m.a. um hvernig undirbúningur hefur gengið fyrir þetta 39-unda Símamót? ,,Undirbúningur hefur gengið mjög vel enda erum við að keyra mótið núna í sama fyrirkomulagi og undanfarin 3 ár. Ferlið hefst í raun á haustmánuðum þegar mótsgjafir eru pantaðar af Símanum og helstu tímasetningar settar niður. Síðan fjölgar fundunum eftir því sem líður nær móti en ábyrgðin liggur hjá einvala liði í Barna- og Unglingaráði Breiðabliks ásamt starfsmönnum félagsins,” segir Jóhann.

Alltaf hollt að horfa aðeins í baksýnisspegilinn

Hvað er það helst sem þarf að hafa í huga þegar svona stórt og fjölmennt mót er skipulagt? ,,Það er alltaf hollt að horfa aðeins í baksýnisspegilinn og velta fyrir sér hvort eitthvað mætti gera betur en við eigum góðan lærdómsfund fljótlega eftir hvert mót til að setja niður þannig punkta. Tryggja þarf að manna lykilstöður sjálfboðaliða sem taka að sér afmörkuð verkefni s.s. skólana, tjaldsvæði og matreiðslu en við erum svo heppin að hafa með okkur fólk sem er til í að taka þessi verkefni að sér ár eftir ár og slíkt er vitaskuld ómetanlegt. Eins reynum við að skoða hvort það eru einhverjar áherslubreytingar sem við viljum gera og vekja athygli á líkt og við höfum reynt að gera undanfarin ár með aukinni vitund um kvennafótbolta, útrýma mismunun og öfund, hækka gæðin á mótum og fleiri slíkum þáttum. “

Og það eru um 3000 þúsund þátttakendur á mótinu en þið gerið ráð fyrir miklu fleiru fólki í Smárann þessa dagana? ,,Já, bæði í Smáranum og Fagralundi, þar sem 5. flokkur spilar, verður mikið um að vera en við reiknum með að á þessi svæði komi á milli 10 og 12 þúsund manns yfir helgina.”

Sjálfboðaliðar manna 700 vaktir

Já, hvað eru þetta margir sjálfboðaliðar og dómarar sem taka þátt og hjálpa til á mótinu og hvernig gengur að manna það og er hlutverk þeirra fjölbreytt – hvað eru leiknir margir leikir á mótinu? ,,Það eru spilaðir um 1.700 leikir á mótinu á 38 völlum þannig að umfangið er gríðarlega mikið. Við erum að gera ráð fyrir að sjálfboðaliðar manni um það bil 700 vaktir fyrir utan dómgæslu en þetta eru yfirleitt 4-5 tíma vaktir sem hver og einn tekur. Vaktirnar eru mismunandi, allt frá öryggisgæslu og sjúkravakt yfir í sjoppurekstur. Ég reiknaði það út í fyrra að samtals eru þetta ríflega 400 dagsverk sem liggja í valnum þessa daga sem mótið stendur.

Líðum ekki vanvirðingu eða dónaskap gagnvart okkar dómurum

Og þið ætlið að leggja mikla áherslu á dómaramálin og á foreldra sem eiga það sumir hverjir til að gleyma sér á hlíðlínunni og vera sígasprandi á bæði dómarann og stundum andstæðingana? ,,Eins og ég nefndi áðan þá reynum við að skoða áhersluatriði þar sem Símamótið getur hreyft við hlutum enda tökum við hlutverk okkar alvarlega sem stærsta fótboltamót landsins. Í ár ætlum við að sýna það í verki að við líðum ekki vanvirðingu eða dónaskap gagnvart okkar dómurum sem margir hverjir eru að stíga sín fyrstu skref í dómgæslu.“

Allir dómarar verða með Bleika spjaldið

Og hvernig ætlið þið að ná til þeirra sem ekki geta hamið sig? ,,Í fyrsta lagi þá verða allir dómarar í nýjum bolum sem KSÍ og Síminn lögðu til en á bakinu má sjá vinsamleg tilmæli til foreldra að hegða sér vel og nota orkuna í að hvetja sína iðkendur áfram. Ef svo illa fer að einhver þarf á tiltali að halda þá verða allir dómarar með Bleika spjaldið sem dómarinn getur veitt viðkomandi og ætti sá hinn sami þá að taka það til sín og vonandi hegða sér betur. Við vonum reyndar að enginn fái bleika spjaldið í ár.”

Stelpurnar í Íslenska landsliðinu mæta á setninguna

Og svo ætlið þið að vera með einhverja skemmtidagskrá á kvöldin, hvað verður í boði þar, og svo verður ýmislegt annað í gangi á keppnisstöðunum í Smáranum og í Fagralundi? ,,Setningarathöfnin er vitaskuld eitt af því sem stelpurnar muna hvað mest eftir. Taka þátt í skrúðgöngunni og hlusta á hvatningu frá skemmtilegum aðilum. Í ár ætla stelpurnar í Íslenska landsliðinu að mæta á setninguna og hvetja arftakana til dáða en það hittir svo skemmtilega á að á föstudagskvöldið er landsleikur Íslands og Finnlands og þangað ætlar Símamótið að stefna öllum sínum þátttakendum og vonandi slá áhorfendamet á Laugardalsvelli,” segir hann, brosir og heldur áfram: Kvöldvakan á laugardeginum verður ekki síður spennandi en þangað ætlar Diljá að mæta og taka nokkur lög en eldri stelpurnar í 5. flokki fara á einkasýningar í Smárabíó. Jói í Sporthero verður á sínum stað og einnig verðum við með tæki frá Fótboltalandi til að leyfa krökkunum að spreyta sig á.”

Einstakt að fá að vinna með svona frábærum hópi

Og þið sem komið að mótinu hlakkar væntanlega til helgarinnar og fá að upplifa stemmninguna enda sjálfsagt landsliðskonur framtíðarinnar að etja kappi á mótinu? ,,Okkur hlakkar mikið til enda er þetta alveg einstakt að fá að vinna með svona frábærum hópi sjálfboðaliða og starfsmanna Breiðabliks sem telja ekkert eftir sér þessa síðustu daga og leggja nótt við nýtan dag að gera þetta að enn einu frábæru Símamóti,” segir Jóhann Þór.

Mynd: Jóhann Þór ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra á Símamótinu

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar