Nauðsynlegt að grípa til aðgerða með það að markmiði að bæta þjónustu og mönnun á leikskólum

Gjaldfrjáls leikskóli í sex tíma á dag og aukinn sveigjanleiki í dvalartíma, tekjutenging leikskólagjalda og heimgreiðslur til foreldra eru meðal tillagna starfshóps um skipulag og starfsumhverfi í leikskólum í Kópavogi sem bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á fundi sínum þriðjudaginn 27. júní sl. Ný gjaldskrá tekur gildi 1. september.
Meðal helstu markmiða í tillögum starfshópsins er að skapa meiri stöðugleika og vellíðan í leikskólum, börnum, foreldrum og starfsfólki til hagsbóta.

Breytingarnar taka gildi 1. september og þá verður sex tíma dvöl eða skemmri á leikskólum gjaldfrjáls, en áfram verður greitt fyrir fæðisgjöld. Foreldrar hafa til 20. ágúst til þess að óska eftir breytingu á dvalartíma barna í september.

Dvalargjöld umfram sex tíma taka hækkunum sem fara stigvaxandi með auknum dvalartíma. Á sama tíma verður komið til móts við tekjulág heimili með tekjutengdum afslætti. Opnunartími leikskóla verður óbreyttur frá hálfátta til hálffimm en skipulagt leikskólastarf mun einkum fara fram frá níu til þrjú.

Til þess að skýra betur í hverju breytingarnar felast og svara spurningum sem kunna að vakna hefur upplýsingasíða verið opnuð á vef Kópavogsbæjar. Foreldrar/forsjáraðilar barna í leikskólum eru hvattir til að kynna sér efni síðunnar. Bætt verður inn upplýsingum á síðuna eftir þörfum.

Börnin sett í fyrsta sæti

Tillögurnar byggja á þeirri sýn að velferð og vellíðan barna á leikskólaaldri sé best borgið með hæfilega löngum leikskóladegi. Því standa vonir til þess að þær breytingar sem felast í tillögunum muni stytta dvalar- tíma barna enda hafa sífellt fleiri foreldrar svigrúm til þess með auknum sveigjanleika á vinnumarkaði.

Lagt er til að starfsemi leikskóla verði takmörkuð milli jóla og nýárs, dymbilviku og í vetrarleyfum í þeim tilgangi að bæta starfsaðstæður barna og starfsfólks í leikskólum, meðal annars með tilliti til skipulags, álags og breytinga á vinnufyrirkomulagi starfsfólks. Til að koma til móts við foreldra sem ekki hafa tök á að hafa börn sín heima verða að minnsta kosti tveir til fimm leikskólar opnir hverju sinni og starfsfólk sem þekkir börnin starfandi þar. Leikskólagjöld verða felld niður hjá þeim sem ekki nýta þjónustu þá daga sem lokað er.

Heimgreiðslur til foreldra verða teknar upp fyrir foreldra barna sem ekki eru í vistun í leikskóla eða hjá dagforeldri frá 15 mánaða aldri og þar til þau komast í leikskóla eða til dagforeldris. Upphæðir miðast við framlög með börnum hjá dagforeldrum sem eru í dag 107 þúsund krónur.

Þá verður farið í samstarfsverkefni um leikskóladeild fyrir 5 ára börn í rými innan grunnskóla Kópvogs með það að markmiði að fjölga leikskólarýmum og styrkja samstarf og samfellu á milli leik- og grunnskóla.
Starfshópinn skipuðu þrettán fulltrúar starfsfólks leikskóla, foreldra, fulltrúa stéttarfélaga, starfsfólks menntasviðs og kjörinna fulltrúa. Hópurinn átti víðtækt samráð við helstu hagaðila við greiningu á þeim vanda sem leikskólakerfið stendur frammi fyrir og við mótun tillagna starfshóps.

Breytingarnar eru í senn róttækar og spennandi

Kópavogspósturinn hafði samband við Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra og spurði hana nánar af hverju væri verið að fara í þessar miklu og framsæknu breytingar. „Þessar breytingar marka
tímamót í skipulagi leikskólastarfs í Kópavogi. Erfiðlega hefur gengið að manna lausar stöður, veikindadagar hafa aukist verulega en á sama tíma hefur kostnaðarþátttaka foreldra lækkað og er komið í 12% af kostnaði leikskóla. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða með það að markmiði að bæta þjónustu og mönnun á leikskólum. Tillögur starfshópsins voru unnar í víðtæku samráði við helstu hagaðila og eru breytingarnar sameiginleg sýn þeirra sem tóku þátt í vinnunni,” segir hún og heldur áfram: ,,Breytingarnar eru í senn róttækar og spennandi. Með þeim erum við að auka sveigjanleika í leikskólakerfinu og efla leikskólastarfið með hag barnanna í fyrsta sæti, enda er Kópavogur barnvænt sveitarfélag. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og það er mjög mikilvægt að hlúa vel að því, bæði með hag barna sem og starfsfólks að leiðarljósi.“

Um 2000 börn í leikskólum Kópavogs

Hvað eru mörg börn á leikskólum Kópavogs í dag – hvað áætlið þið að þau verði mörg 1. september nk.? ,,Það eru tæp 2.000 börn í leikskólum Kópavogs í dag. En við vonumst til að þessar breytingar laði að starfsfólk og með því getum við boðið fleiri börnum dvöl. Við áætlum sambærilegan fjölda 1. september nk.”

Getur falið í sér jákvæð áhrif á starfsemi leikskóla og rekstur þeirra

Hver er áætlaður kostnaður við þessar breytingar (6 tímar gjaldfrjálsir), hvað kostar sex tímar pr. barn í dag og er gjaldinu s.s. skipt á milli foreldra (12%) og bærinn greiðir (88%) af gjaldinu? ,,Markmið þeirra breytinga sem nú liggja fyrir er að bæta starfsaðstæður í leikskólum og samhliða létta á álagi og draga úr afleysingum og veikindum starfsmanna. Gangi það eftir fela breytingarnar í sér jákvæð áhrif á starfsemi leikskóla sem og rekstur þeirra. Samkvæmt núverandi gjaldskrá standa leikskólagjöld undir 12% af rekstrarkostnaði leikskóla. Með nýrri gjaldskrá sem tekur gildi 1. september verður hlutfall leikskólagjalda um 14% af rekstrarkostnaði leikskóla. Leikskólagjöld skiptast í dvalargjöld og fæðisgjöld. Dvalargjöld fyrir 6 tíma dvöl kosta í dag 20.748 kr. Frá 1. september falla dvalargjöld niður ef dvalarstundir eru 6 eða færri að meðal-tali á dag en áfram eru greidd fæðisgjöld,” segir Ásdís.

Fæðisgjaldið er eftirfarandi:
Hádegisverður 7.780 kr
Hressing 2.682 kr
Fullt fæði 10.462 kr

Eitt megin markmið breytinganna er að draga úr vistunartíma barna á leikskólum

Hver er kostnaðurinn fyrir 7 og 8 tímann? ,,Leikskólagjöld (dvalar- og fæðisgjald) fyrir 7 tíma vistun samkvæmt nýrri gjaldskrá frá 1. september verður 36.474 kr. sem er aðeins lítilsháttar hækkun frá núverandi gjaldskrá. Leikskólagjöld fyrir 8 tíma vistun samkvæmt nýrri gjaldskrá frá 1. september verður 49.474 kr. Ástæður hækkunar gjaldskrár eru annars vegar til þess að fylgja eftir hækkunum verðlags sem verið hafa töluverðar að undanförnu. Um árabil hafa gjaldskrár ýmist staðið í stað eða hækkað minna en verðlag og því hlutfall foreldra af rekstrarkostnaði leikskóla farið lækkandi með hverju árinu. Hins vegar er eitt megin markmið þeirra breytinga sem nú standa yfir að draga úr vistunartíma barna. Eftir því sem foreldrum er betur fært að stytta dvalartíma barna, þeim mun meira geta foreldrar lækkað leikskólagjöld og á sama tíma létt undir með starfi leikskóla.”

Óska eftir staðgreiðsluyfirliti þegar foreldrar sækja um afslátt

Þið ætlið að koma til móts við tekjulág heimili með tekjutengdum afslætti fyrir 7 og 8 tímann – hvernig fylgið þið því eftir? ,,Við munum hafa skýrar reglur og leiðbeiningar til foreldra á vefsíðu okkar. Þegar foreldrar sækja um afslátt biðjum við um staðgreiðsluyfirlit sem má finna á þjónustuvef skattsins. Við munum styðjast við meðal tekjur samkvæmt staðgreiðslu- skrá fyrir síðustu þrjá mánuði. Endurnýja þarf svo umsóknir árlega,” segir Ásdís.

Viðmiðunartekjur eru:
Tekjur einstæðra foreldra allt að 750.000 kr á mánuði.
Tekjur sambúðarfólks allt að 980.000 kr á mánuði.

Það hefur gengið erfiðlega að manna lausar stöður í leikskólunum – hvað eru í raun mörg stöðugildi laus? ,,Erfitt að segja nákvæmlega til um, en til að manna lausar stöður í dag vantar um 30 stöðugil-di í leikskólum.”

39 veikindadagar á hvert stöðugildi í fyrra

Eins og kemur fram að þá er álagið á leikskólakennurum mikið og veikinda- dagar hafa aukist verulega – eruð þið með einhverjar tölur um þetta á milli ára – hlutfallið? ,,Já, það er rétt, veikinda- dögum hefur fjölgað með hverju árinu sem líður og hefur veikindadögum á hvert stöðugildi í leikskólum fjölgað um rúmlega 50% á síðastliðnum 10 árum. Í fyrra voru 39 veikindadagar á hvert stöðugildi. Við erum auðvitað að vona að betra starfsumhverfi muni létta álag og draga úr veikindum.”

Þið vonist til að geta stytt dvalartíma barna á leikskólum með aðkomu foreldra, að þeir hafi svigrúm til að hafa börnin sín meira heima – hvernig sjáið þið það gerast og/eða fá þeir þá heima- greiðslu? ,,Við leggjum ríka áherslu á aukinn sveigjanleika, þannig geta foreldrar haft dvalartíma barna breytilegan eftir vikudögum sem við teljum að muni auðvelda skipulagningu styttri dvalartíma. Til dæmis gætu foreldrar skráð barn í 8 tíma dvöl þrjá daga í viku og 6 tíma tvo daga sem samtals eru 36 tímar á viku og taka þá leikskólagjöld mið af því. Heimgreiðslur verða í boði fyrir foreldra barna sem ekki eru með vistun í leikskóla eða hjá dagforeldrum frá 15 mánaða aldri,” segir Ásdís.

Og þetta getur verið tækifæri fyrir foreldra, 3-4 fjölskyldur taki sig saman og skiptist á að vera með börnin heima ákveðinn hluta dags, koma með þau seinna eða sækja fyrr? ,,Það er hárrétt og við vonumst til að þessar breytingar á gjaldskrá og sá sveigjanleiki sem við bjóðum uppá á sama tíma muni skapi hvata hjá foreldrum til að stytta dvalartíma barna.”

Um 240 börn á heildarbiðlista

Og þið bjóðið upp á heimagreiðslur til foreldra sem ekki hafa fengið vistun í leikskóla eða hjá dagforeldri frá 15 mánaða aldri og þar til að þau komist inn á leikskóla eða til dagforeldris. Hvað eru mörg 15 mánaða börn og eldri á biðlista eftir leikskólaplássi og kemur til greina að bjóða foreldrum heima- greiðslu ef þau vilja hafa börnin sín heima þrátt fyrir að þau séu komin með leikskólapláss – og geta þau í raun fengið heimagreiðslur ef þau manna pössun heima hjá sér t.d. með aðstoð ömmu/afa? ,,Í dag eru um 80 börn sem eru 15 mánaða eða eldri á biðlista. Heildarbiðlisti er um 240 börn og foreldrar eiga rétt á heimgreiðslum þegar börn þeirra verða 15 mánaða,” segir hún, en skilyrði fyrir heimgreiðslum er að barn sé með lögheimili í Kópavogi og að barn sé ekki í annarri vistun sem niðurgreidd er af Kópavogsbæ, þ.e. að barn sé ekki í leik-skóla eða í vistun hjá dagforeldri í Kópavogi eða í öðru sveitarfélagi.

Hefur bærinn efni á þessum metnaðarfullu breytingum? ,,Í stuttu máli já. Markmið Kópavogsbæjar með breytingum á skipulagi og starfsumhverfi leikskólanna er að skapa meiri stöðugleika í leikskólastarfinu og tryggja vellíðan og velferð barna og starfsfólks í leikskólum bæjarins,” segir Ásdís að lokum.

Dæmi um dvalartíma og verð

Hér eru fimm dæmi um samsetningu á dvalartíma barna í leikskólum og gjald fyrir þá dvöl. Athugið upphæðir í dæmum miðast við fullt gjald án afslátta.

Tveir dagar 9 tímar, einn dagur 8,5 tímar, tveir dagar 8 tímar, alls 42,5 tímar: Dvalargjald á mánuði 48.012 kr., með fæði 58.474 kr.

Allir dagar 8 tímar, alls 40 tímar: Dvalargjald á mánuði 39.012 kr., með fæði 49.474 kr.

Þrír dagar 8 tímar, einn dagur 4,5 og einn dagur 4 tímar, alls 32,5 tímar: Dvalargjald 24.154, með fullu fæði 34.616 kr.

Allir dagar 7 tímar, alls 35 tímar: Dvalargjald 26.012 kr., með fæði 36.474 kr.

Allir dagar 6 tímar á dag, alls 30 tímar: Ekkert dvalargjald, einungis greitt fæðisgjald 10.462 kr.

Eingöngu er um dæmi að ræða og þau er ekki tæmandi hvað varðar útfærslur á dvalartíma barna

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar