Við finnum að það er hlustað á okkur

Á síðasta bæjarstjórnarfundi kom Ungmennaráð Garðabæjar til fundar, á sérstökum bæjarstjórnarfundi unga fólksins.

Ellefu ungmenni fengu sér sæti í Sveinatungu, höfðu framsögu og fóru yfir þau málefni sem helst brenna á ungmennaráðinu, samgöngur, fræðslu og aðstöðu fyrir ungt fólk í bænum og líðan ungs fólks sem og niðurstöður frá sl. ungmennaþingi.  Fulltrúum í ungmennaráði Garðabæjar er veitt fræðsla og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum. Það er því dýrmætt að fá tækifæri til að þjálfa sig í slíkum vinnubrögðum á bæjarstjórnarfundi.
 

Eiga að segja sínar skoðanir

Hlutverk ungmennaráðs er meðal annars að vera vettvangur og leið til þess að gera ungmennum bæjarins kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við stjórnvöld og viðeigandi aðila. 
Á sameiginlegum bæjarstjórnarfundi gefst ungmennum og bæjarfulltrúum gott tækifæri á að ræða málin beint og ráðið sinnir hlutverki sínu að vera bæjaryfirvöldum til ráðgjafar m.a. varðandi málefni ungs fólks.
„Ungmennaráðið hefur þróast mikið á síðustu árum og finnum við fyrir því að bærinn tekur
ungmennaráðinu alvarlegra og felur því fleiri verkefni. En við finnum einnig að það er
hlustað á okkur. Við höfum gert ýmislegt undanfarið og tekið þátt í skemmtilegum verkefnum. Sem dæmi héldum við vel heppnað ungmennaþing í október sl. fulltrúar hafa setið í stýrihóp Barnvæns Sveitarfélaga og farið á ráðstefnur m.a. á vegum UNICEF. Þá höfum við tekið þátt og verið sýnileg á stórum viðburðum félagsmiðstöðva bæjarins,“ segir Valgerður Eyja Eyþórsdóttir formaður Ungmennaráðs Garðabæjar.

Ungmennaráð ásamt bæjarstjórn Garðabæjar

Sérstök ályktun um aðstöðumál

Ungmennaráðið hvatti sérstaklega til þess að Garðabær skoðaði alvarlega aðstöðu ungs fólks í bænum og hugmyndir um einhvers konar ungmennahús. Talsverð rýni og hugmyndavinna hefur þegar átt sér stað sl. ár en ekki leitt af sér niðurstöðu.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar og fundarstjóri, lagði til sérstaka ályktun varðandi aðstöðumálin. Hún felur það í sér að fulltrúar ungmennaráðs og bæjarstjórnar og ásamt ÍTG geri sérstaka úttekt á málinu og komi með tillögur að úrbótum varðandi aðstöðu fyrir ungt fólk í Garðabæ. Þeim er ætlað að skila skýrslu til bæjarstjórnar í haust. Ályktunin var samþykkt samhljóða.

Hópurinn ræddi einnig sérstaklega fræðslumál til ungs fólks í skólum og kölluðu til dæmis eftir meiri fjármálafræðslu, kynfræðslu, fræðslu um sambönd og kynbundið ofbeldi. Óskað var eftir að ábendingum og tillögum til skoðunar í grunnskólanefnd Garðabæjar.

Þá er þeim samgöngumál í Garðabæ ofarlega í huga og höfðu uppi ýmsar ábendingar og lagfæringar og hvað mætti betur fara varðandi strætómálin.

Bæjarfulltrúar, forseti bæjarstjórnar og bæjarstjóri tóku ábendingar til sín ræddu og svöruðu.  Hvöttu fulltrúar bæjarstjórnar ungmennaráðið til dáða og fögnuðu aðhaldinu en vert er að geta þess að bæjarstjórn Garðabæjar setur allar fundargerðir ungmennaráðsins á dagskrá og umfjöllunar á bæjarstjórnarfundum eins og aðrar fundargerðir nefnda og ráða.
 
Í ungmennaráði eiga sæti: Valgerður Eyja Eyþórsdóttir (formaður) , Íris Lind Steinþórsdóttir , Anna Kristín Elmarsdóttir , Heiða Bríet Andradóttir , Emilía Ósk Hauksdóttir , Eyþór Elvar Þórarinsson , Auður Ýr Magnúsdóttir , María Draumey Kjærnested , Freyja Huginsdóttir , Ester Helga Helgadóttir , Daníel Pétursson, Una Kristjana Hannesdóttir .

Valgerður Eyja Eyþórsdóttir (formaður)

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar