Sigurður Guðmundsson hefur tekið við sem formaður Stjörnunnar, en aðalfundur félagsins var haldinn í síðustu viku. Sigurður tekur við formennskunni af Sigurgeiri Guðlaugssyni, sem vegna vinnu sinnar, gat ekki haldið áfram.
Sigurður er sjálfsagt flestum Garðbæingum að góðu kunnur, en hann hefur verið viðrinn Stjörnuna frá blautu barnsbeini, æfði bæði fótbólta, handbolta og blak með yngri flokkum félagsins auk þess sem hann lék með meistaraflokki Stjörnunnar í knattspyrnu í mörg ár. Hann hefur þjálfað hjá Stjörnunni, bæði yngri flokka og meistaraflokk karla. Þá hefur hann unnið sem sjálfboðaliði fyrir félagið allt frá því að hann lagði knattspyrnuskóna á hilluna á síðustu öld.
Sigurður hefur einnig verið bæjarfulltrúi í Garðabæ undanfarin átta ár og er formaður skipulagsnefndar, en Sigurður ákvað nú á vormánuðum að taka ekki þátt í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí nk.,
Ein breytinga varð á aðalstjórn Stjörnunnar á fundinum. Brynja Baldursdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn félagsins og hennar sæti tekur Sigrún Lilja Guðbjartsdóttir.
Forsíðumynd. Sigurðu Guðmundsson, nýr formaður Stjörnunnar til vinstri á myndinni, og Sigurgeir Guðlaugsson fyrrverandi formaður Stjörnunnar.