Loftgæðamæli komið fyrir á Garðaholti

Garðabær hefur fest kaup á færanlegum loftgæðamæli sem komið hefur verið fyrir tímabundið á Garðaholti ( þar sem fyrir eru GSM mastur Mílu og jarðskjálftamælir).  Heilnæmt andrúmsloft er ein af undirstöðum lífsgæða, góðrar heilsu og velferðar en þar vilja Garðbæingar skara fram úr sem samfélag. 

Í loftgæðastöðinni eru fullkomnir símælandi ryk- og brennisteinsmælar auk veðurstöðvar og komi til frekari eldgosa á Reykjanesi verður mælirinn einnig vel staðsettur til að vakta vestasta hluta höfuðborgarsvæðisins, Garðaholt og Álftanes. 

Mælirinn er sá fyrsti í Garðabæ og verður eins og sagði fyrst um sinn á Garðaholti, með tíð og tíma verður hægt að flytja hann á aðra staði innan bæjarfélagsins. Staðsetningin er valinn í samstarfi við heilbrigðiseftirlitið sem fylgist með mæliniðurstöðum og gefur út tilkynningar ef þurfa þykir. 

Um árabil hefur Garðabær óskað eftir því að Garðaholt verði vaktað og árið 2021 samþykkti Bæjarráð Garðabæjar tillögu umhverfisnefndar að nauðsynlegt væri við endurútgáfu á starfsleyfi fyrir Álverið í Straumsvík að bæta vöktunaráætlun vegna flúormælinga í gróðri við Garðaholt. Samkvæmt nýlegum rannsóknum Sigrúnar Hrannar Halldórsdóttur, Vöktun á loftbornum flúor í gróðri benda rannsóknir hennar til þess að mengunarálag frá Álverinu í Straumsvík sé líklega mest á Garðaholti og Álftanesi.

Mælingarnar verða aðgengilega á vef Garðabæjar og eru nú þegar aðgengilegar á vefnum www.loftgaedi.is.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar