Fjölbreyttari Garðabær

Garðabær hefur stundum haft orð á sér fyrir að vera einsleitt samfélag. Það er að mörgu leyti rétt, enda er hlutfall fólks af erlendum uppruna hlutfallslega lágt í bænum ef miðað er við nágrannasveitarfélögin. Þessi mynd er nú hægt og rólega að breytast. Hlutfall erlendra ríkisborgara eykst jafnt og þétt og í Garðabæ býr einnig fleira flóttafólk en nokkurn tímann áður. 

Í apríl skrifaði bæjarstjóri undir samning við félags- og vinnumarkaðsráðherra um samræmda móttöku flóttafólks. Því skrefi var ég sérstaklega stolt af, því ég hef sem nefndarmaður Garðabæjarlistans í fjölskylduráði og bæjarfulltrúi talað fyrir þessum samningi frá því að fyrstu drög rötuðu á borð okkar stjórnmálafólks í bænum. Það er enda mikilvægt að fjármagna þjónustu við flóttafólk vel, því öll viljum við að aðlögun fólks að nýjum aðstæðum gangi sem allra best. Það er almennt ekki hlaupið að því að setjast að í ókunnu samfélagi, án alls baklands, hvað þá þegar fólk hefur gengið í gegnum það áfall að þurfa að flýja heimili sitt. 

Garðbæingar hafa tekið fallega á móti nýjum bæjarbúum, hvort sem þau koma hingað sem flóttafólk eða sem innflytjendur, og það er afskaplega mikilvægt að það haldi áfram. Í bæjarstjórn 2. nóvember sl. viðraði ég þá sýn mína að fjölbreyttari uppruna þeirra sem flytja til Garðabæjar verði að mæta með aðgerðum í forvarnarskyni. Í skólunum eru hæg heimatökin og ég setti því fram þá hugmynd að þemað fyrir næstu úthlutun þróunarsjóðs leik- og grunnskóla gæti snúist um forvarnir gegn útlendinga- og kynþáttafordómum. Formaður skólanefndar tók vel í hugmyndina og ég vona sannarlega að hún komi til framkvæmda í einni eða annarri mynd. 

Það er þó ekki aðeins Garðabær, skólar og stofnanir bæjarins sem geta lagt sitt af mörkum í sístækkandi bæjarfélagi sem verður fjölbreyttara með hverjum deginum. Við höfum öll tækifæri í okkar daglega lífi. Mig langar því að hvetja okkur öll sem búum í Garðabæ til þess að leggja okkur sérstaklega fram við að kynnast Garðbæingum af erlendum uppruna.

Sýnum í verki að allt fólk er velkomið í Garðabæ. Þannig byggjum við áfram gott samfélag, fyrir okkur öll. 

BHöfundur er bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar