Eins og fram kom á vefsíðu IKEA síðustu viku þá lækkaði verslunin vöruverð á sex þúsund vörum í verslun sinni í Kauptúni Garðabæ sl. Fimmtudag. Um algjört einsdæmi er að ræða í íslenskri verslunarsögu að eitt og sama fyrirtækið lækki verðið á alls sex þúsund vörum.
Verðlækkanirnar eru kynntar í verslun IKEA og á vefsíðu fyrirtækisins sem Nýtt lægra verð. Þar segir líka að verðlækkunin sé ekki tímabundið tilboð og þá munu engar vörur hækka í verði á móti, en lækkunin er framhald á þróun sem hófst í lok seinasta árs.
Um er að ræða 6% lækkun að meðaltali og verður vöruverðið fest til ársloka og var formaður Starfsgreinasambandsins Vilhjálmur Birgisson, ekki lengi að tjá sig um þessa lækkun hjá IKEA í síðustu viku, en sambandið er nú í kjaraviðræðum við fulltrúa Samtaka atvinnulífsins og eitt helsta áherslumál þeirra að ná niður verðbólgu og vöxtum. ,,Verðlækkun IKEA sem gildir út árið er jákvætt innlegg í baráttunni gegn verðbólgunni. Umfang IKEA í verslun á Íslandi er mjög mikið og ekki útilokað að þessi mikla verðlækkun hafi áhrif á neyslu- vísitöluna og þar með verðbólguna,“ sagði Vilhjálmur við fjölmiðla í síðustu viku.
Helsta áhættan liggur í óvissu vegna gengisþróunar
En hvað segir Stefán R. Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, hvernig kom þetta til og hvernig getur verslunin lækkað vöruverð á sex þúsund vörum í þessari miklu verðbólgu? ,,Nýlegir samningar við birgja þýða að við gátum lækkað verð á yfir 6.000 vörum en heildarvöru- númerafjöldi hjá IKEA á Íslandi er um 9.500. Ákvörðun okkar var að láta viðskiptavini njóta þessarar lækkunar, um 6% að meðaltali í heildina. Helsta áhættan hjá okkur liggur í óvissu vegna gengisþróunar en við höfum trú á að gengi verði nokkuð stöðugt á næstunni,” segir hann og bætir því við að engar vörur munu hækka hjá IKEA út þetta ár.
Erum ákaflega stolt af því að geta tekið þetta skref
Má ekki segja að þetta sé einsdæmi í íslenskri verslunarsögu? ,,Við erum afar stolt af því að geta tekið þetta skref núna þegar aðstæður í efnahagsmálum eru viðkvæmar. Við fundum sterkt fyrir því innan fyrirtækisins þegar lækkunin var tilkynnt, að starfsfólk er ánægt og stolt.”
Og var hugmyndin einnig með þessum lækkunum að fyrirtækið legði sitt af mörkum til að hjálpa við að ná niður verðbólgu og háum vöxtum á Íslandi? ,,Já, þetta er okkar framlag til þess. Verkalýðsforystan hefur kallað eftir því að fyrirtæki leggðu sitt af mörkum og nú höfum við stigið okkar skref,” segir Stefán.
Trúum að þetta hafi áhrif og vonandi fylgja fleiri í kjölfarið
Þið lofið að nýja lága verðið muni halda sér til áramóta. Þið óttist kannski helstu gengisþróunina, en svo gæti verðbólgan einnig hækkað á næstu misserum eða hefur það engin áhrif á ykkur? ,,Það veit enginn nákvæmlega hvernig hlutirnir þróast, en þetta er okkar útspil til að vinna gegn verðbólgu. Við trúum því að þetta hafi áhrif og vonandi fylgja fleiri í kjölfarið á sama eða svipaðan hátt.”
Hagur allra að verbólgan lækki
Reiknið þið með að þessar lækkanir muni hafa mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu IKEA fyrir árið 2024, eruð þið að færa ákveðnar fórnir til greiða fyrir því að verbólgan lækki og að SA og verkalýðshreyfingin nái saman á skynsamlegum nótum? ,,Við reiknum með svipuðum niðurstöðum og áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er hagur allra að verðbólga lækki og það er einnig hagur allra að samningar náist og þeir verði á skynsamlegum nótum,” segir hann.
Þetta framtak ykkar eru frábærar fréttir fyrir alla landsmenn og það er greinilega mikil ánægja með þessa ákvörðun ykkar. Það er þó margt annað í gangi hjá ykkur um þessar mundir, en rétt rúmt ár er liðið síðan framkvæmdir hófust við stækkun vöruhússins við Kauptún. Hvar stendur verkefnið í dag og hvernig hafa framkvæmdir gengið? ,,Vöruhúsið sjálft verður tilbúið til notkunar á næstu vikum (lagerinn). Við tökum svo næstu hluta í notkun hvern af öðrum næstu 8 mánuði. Þá verður allt tilbúið til að taka við þeirri starfsemi sem hvert svæði á að sinna,” segir Stefán og bætir því við að framkvæmdir hafi gengið vel og það sé ótrúlega gefandi að sjá húsið verða að veruleika.
Að stærstum hluta nýtt vöruhús
Þetta er stór framkvæmd, en þið eruð að stækka núverandi húsnæði um rúmlega þriðjung, fer úr 22.500 femetrum í 35.000 fermetra. Hvað mun nýja byggingin hýsa og verður einhver breyting á núverandi verslun? ,,Nýbyggingin er að stærstum hluta nýtt vöruhús sem gerir okkur mögulegt að loka lagerum í Suðurhrauni 10 og Kauptúni 3. Með nýju húsi fáum við líka stórbætta aðstöðu fyrir heimsendingar, Smelltu og sæktu þjónustuna og betra rými til að sinna sendingum fyrir landsbyggðina. Þar að auki eru skrifstofur og önnur aðstaða fyrir starfsfólk.”
Skoða stöðugt nýja möguleika og fjölbreyttara vöruúrval
Eins og þú nefnir bjóðið þið upp á 9500 vörur – mun vöruúrvalið eitthvað aukast og einhverjar nýjungar að detta inn hjá ykkur? ,,Heildarvöruúrval IKEA er rúmlega 10.000 númer. Við skoðum stöðugt nýja möguleika og fjölbreyttara vöruúrval, sem við gerum áfram og höfum eftir breytingarnar meiri möguleika á því.”
Áætluð verklok í október 2024 Hvenær á svo framkvæmdum að ljúka og eru menn spenntir fyrir stækkuninni? ,,Allt fyrirtækið bíður spennt, við hlökkum öll til að hefja starfsemi í nýju byggingunni. Áætluð verklok eru í október 2024 svo það styttist í þetta með hverjum deginum og verður fljótar að líða en menn halda.”
2,4 milljónir gesta í fyrra
Eins og Vilhjálmur Birgisson sagði í síðustu viku þá er umfang IKEA í verslun á Íslandi mjög mikið og ekki útilokað að þessi mikla verðlækkun hafi áhrif á neysluvísitöluna og þar með verðbólguna. Hvað eruð þið að fá marga gesti til ykkar á hverju ári og hvað er það sem gerir IKEA að svona vinsælli verslun? ,,Við fengum til okkar 2,4 milljónir gesta í fyrra. IKEA er verslun fyrir alla fjölskylduna og við gerum okkar besta til að hver heimsókn sé sem ánægjulegust. Við bjóðum upp á breitt vöruúrval fyrir alla aldurshópa, góða vöru á góðu verði. Allir geta fundið eitthvað sem hentar þeirra heimili. Svo má ekki gleyma veitingasviðinu þar sem við bjóðum upp á góðan mat á mjög sanngjörnu verði. Bakaríið hefur líka sannað sig, það er mjög vinsælt og fastur viðkomustaður hjá mörgum,” segir Stefán að lokum.
Forsíðumynd: Stefán í nýja vöruhúsi IKEA sem verður tekið í notkun á næstunni.