Ég er skósjúk!

Á Garðatorgi 6 rekur Tinna Rún Davíðsdóttir verslunina Apríl. Tinna opnaði verslunina í desmeber 2017 og í fyrra opnaði hún einnig Apríl í Kringlunni. Tinna er með fjölbreytt úrval af skóm og öll merkin eru vandlega valin, má þá helst nefna sænksa merkið Ten Points, Audley, HOFF og Musse & cloud frá Spáni, Sam Edelman frá Bandaríkjunum og danska merkið Copenhagen Shoes. Það má segja að merkin séu frá öllum heimshornum og svo er einnig hægt að versla handgerða íslenska skartgripi frá Mjöll sem er alltaf gífurlega vinsæl gjöf og fatnað frá Absence of Colour sem að er merki í eigu Hebu Hallgrímsdóttur sem að búsett er í London.

Hver er Tinna Rún Davíðsdóttir? ,,Ég ólst upp í Reynilundi í Garðabæ og flutti svo í Urriðaholtið þegar að ég kom heim úr námi í Bretlandi fyrir nokkrum árum. Ég lærði Textílhönnun í Myndlistaskólanum í Reykjavík og klárði svo BA gráðuna í Bournemouth í Englandi. Ég á tvo stráka, Tóbías Davíð 11 ára og Elías Pétur 2 ára með Sigurjóni sambýlismanni mínum,” segir Tinna Rún.

Opnaði Apríl óvart með vinahjónum

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að opna Apríl skór á Garðatorgi fyrir 6 árum? ,,Ég opnaði verslunina eiginlega alveg óvart með vinahjónum sem að voru með laust pláss á Garðatorgi 4 og vildu gera eitthvað skemmtilegt við plássið. Ég var með margra ára reynsu í skóinnkaupum og almennum verslunarrekstri og vissi af mörgum spennandi merkjum sem að mér fannst vanta hér á landi. Ég var í námi á þessum tíma og það var ekki á planinu að bæta svona mikilli vinnu við það en við slógum til og ég sé ekki eftir því enda búið að vera mikið ævintýri. Fyrir rúmum 3 árum flutti ég svo verlsunina á Garðatorg 6 og bætti við fatnaði og skarti.”

Elska að fá mér góða og fallega leðurskó fyrir haustið

Hvað áttu mörg skópör og hvernig skór eru í uppáhaldi hjá þér? ,,Ég er skósjúk, en ég hef reyndar náð að stilla mig aðeins með aldrinum og passa að velja vel pörin sem að ég fæ mér. Ég hef ekki tölu á skópörunum mínum en ég er samt dugleg að selja eða gefa pörin sem að ég er hætt að nota. Haustin eru án efa minn uppáhalds tími varðandi tísku, ég elska að fá mér góða og fallega leðurskó fyrir haustið og svo eru flottir strigaskór líka algjör klassík í fataskápinn.”

Rúnuð tá, þvertá og támjótt vinsælt

Fylgist þú vel með skótískunni og er eitthvað nýtt fyrir hausti/veturinn? ,,Ég hef mikinn áhuga á tísku og hef alltaf haft og fylgist vel með, ég panta skóna 6-8 mánuði fram í tímann þannig að maður þarf að vera skrefinu á undan. Ég fer reglulega á skósýningar og fylgist með fatatískunni líka því þetta helst allt í hendur og núna er ég til dæmis að klára allar pantanir fyrir næsta sumar,” segir hún og heldur áfram: ,,Skótískan er mjög fjölbreytt þessa dagana, það er rúnuð tá, þvertá og támjótt í gangi og strigaskórnir virðast ekkert ætla að víkja á næstunni. Stígvélin eru að koma aftur eftir langa pásu og kúrekatískan er búin að vera áberandi en svo finnst mér klassíkir og áreynslulausir skór oftast seljast best, eitthvað sem að er alltaf hægt að nota óháð tískustraumum.”

Það gerist ekkert gáfulegt fyrr en hann er búinn að borða

En hvað er nú það fyrsta sem þú gerir á morgnana þegar þú vaknar? ,,Það fyrsta sem að ég geri á morgnanna er að fara niður með litla strákinn minn og knúsa hann í sófanum, svo gef ég honum morgunmat því það gerist ekkert gáfulegt hér fyrr en hann er búinn að borða enda er hann matmaður mikill,” segir hún bros- andi.

Æðislegt að fara út að ganga í Urriðaholtin

Stundar þú einhverja hreyfingu og hugsar þú almennt vel um þig? ,,Ég var í frábærum mömmutímum í World Class eftir fæðingu en datt svo alveg út úr hreyfingu þegar að ég byrjaði að vinna aftur og þarf að fara finna mér tíma til að hreyfa mig, ég hugsa að ég prófi nýja yoga stúdíóið á Garðatorgi næst. Annars er æðislegt að fara út að ganga í Urriðaholtinu sem að við erum dugleg að gera í frítímanum okkar.”

Hver er uppáhalds maturinn þinn og drykkur? ,,Uppáhalds maturinn minn er kjúklinga eða rækju tacos með miklu guacamole og ísköld Coca cola.”

Er alltaf með eitthvað á prjónunum

Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan Apríl skór? ,,Mín helstu áhugamál eru tíska auðvitað, hönnun, myndlist og handverk. Ég er alltaf með eitthvað á prjónunum þó að það taki kannski langan tíma að klára flíkina þá er bara eitthvað svo geggjað við að setjast eftir annasaman dag og prjóna smá, það er mín hugleiðsla. Svo finnst mér gaman í yoga, fara í göngutúra og að baka.”

Slakar á með því að prjóna, fara í sund eða horfa á góðan þátt með Sigurjóni

Hvernig slakar/slappar þú af? ,,Mér finnst best að slaka á með því að prjóna, fara í sund eða horfa á góða þætti í sjónvarpinu með Sigurjóni. Annars næ ég að njóta mín furðu vel í amstri dagsins og það vantar aldrei verkefnin.”

Hvað væri draumastarfið ef þú mundir finna þér nýjan starfsvettvang? ,,Ég á tvö draumastörf, annað er það sem að ég er að gera í dag og hitt er að vera hönnuður. Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að skapa og allt í kring um hönnun og hef gert aðeins af því eftir námið en vonandi einn daginn hef ég meiri tíma fyrir það,” segir Tinna að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar