Bjarnakló útrýmt – getur ógnað heilsu fólks

Til þess að draga úr útbreiðslu plöntunnar Bjarnaklóar hefur garðyrkjudeild Garðabæjar unnið að því undanfarin ár að skrásetja og fjarlægja þær plöntur sem finnast á opnum svæðum og öðrum stöðum innan sveitarfélagsins. 

Bjarnarkló sem sleppur út í náttúruna getur dreifst á stór svæði í náttúrunni og ógnar líffræðilegum fjölbreytileika og takmarkar útivist. 

Inniheldur eitruð efnasambönd

Bjarnarkló ógnar einnig heilsu fólks. Plöntusafinn inniheldur eitruð efnasambönd sem virkjast í sólarljósi og geta valdið mjög alvarlegum og sársaukafullum bruna á húð og skilur yfirleitt eftir sig varanleg ör.

Haldin er skrá um vaxtarsvæði plöntunnar þannig að hægt sé að fylgjast með útbreiðslu hennar og bregðast við til að uppræta hana þannig að engin hætta sé á að slys af hennar völdum verði.

„Í ár höfum við fengið ábendingar frá íbúum í síma, í gegnum ábendingarvef og í tölvupósti. Brugðist er við ábendingum með því að fara á staðinn og uppræta hana sjálf eða fá verktaka í verkið,“ segir Jóhanna Kristín Jóhannsdóttir garðyrkjufræðingur í garðyrkjudeild Garðabæjar. 

Þurfa hlífðarfatnað, öryggisgleraugu og hanska

„Við útrýmingu Bjarnaklóar þarf að vera í hlífðarfatnaði, nota öryggisgleraugu og vera í hönskum. Við reynum að stinga hana upp ef hún er lítil en annars er hún söguð niður eins neðarlega og hægt er. Við sögum Bjarnaklóna í litla bita og setjum í poka og lokum fyrir. Bjarnaklóin sem við erum að saga niður eru oft 2 – 3 metrar á hæð en stærsta kló sem við höfum fjarlægt var í einkagarði úti á Álftanesi. Þar sem hún var svo stór, var hún söguð niður og sett á pallinn á bílnum, því næst kom gröfumaðurinn og gróf rótina í burtu,“ segir Jóhanna sem er greinilega ýmsu vön í þessum geira.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar