Íþróttir fyrir öll í Kópavogi

Nú í árslok 2023 býðst Kópavogsbúum að kjósa íþróttakvár Kópavogs í fyrsta skiptið, til viðbótar við íþróttakonu og íþróttakarl Kópavogs eins og tíðkast hefur síðustu ár. Með þessari breytingu er Kópavogsbær orðinn fyrsta sveitarfélag landsins til þess að skapa rými fyrir tilnefningu kynsegin fólks við val á íþróttafólki ársins en það er vonandi að fleiri fylgi á eftir.

Fyrir breytinguna var það háttalag á að hvert íþróttafélag í Kópavogi mátti tilnefna eina konu og einn karl í tveimur aldursflokkum, 13-16 ára og 17 ára og eldri, fyrir hverja grein íþrótta sem stunduð er hjá viðkomandi íþróttafélagi en nú má einnig tilnefna stálp og kvár. Íþróttaráð Kópavogs fer síðan yfir tilnefningarnar og velur allt að fimm karla, fimm konur og fimm kvár sem fara í rafræna íbúakosningu. Verðlaunin verða svo veitt í þremur flokkum, kvennaflokki, karlaflokki og kváraflokki. Íþróttakvár Kópavogs 2023, ásamt íþróttakarli og -konu, verður svo krýnt í fyrsta sinn á íþróttahátíð Kópavogs í janúar 2024.

Við Píratar í Kópavogi lögðum þessa breytingu en meðal áherslumála okkar í síðustu kosningum var að stuðla að því að íþróttahreyfingin yrði aðgengileg öllum óháð meðal annars kyni. Staðreyndin er sú að ef krakkar sem upplifa sig utan kynjatvíhyggjunnar eiga sér engar fyrirmyndir sem stunda íþróttir, og umgjörð íþróttahreyfingarinnar gerir ekki ráð fyrir þeim, þá dregur það verulega úr líkum á því að þau leggi stund á íþróttir sjálf. Þetta er því bæði mikilvægt jafnréttis- og lýðheilsumál. Við erum þakklát kollegum okkar úr öðrum flokkum bæjarstjórnar sem flestir tóku mjög jákvætt í uppfærsluna og töldu hana bæði sjálfsagða og tímabæra.

Árni Pétur Árnason og Indriði Ingi Stefánsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar