Skapandi Fjölskyldustund með ÞYKJÓ í Gerðarsafni

Í Fjölskyldustund á laugardeginum 20. mars tók hönnunarteymið ÞYKJÓ á móti gestum í Gerðarsafni. ÞYKJÓ bauð upp á skemmtilega skuggabrúðusmiðju þar sem fjölskyldur lærðu að gera skuggabrúður innblásnar af skjaldbökum, sniglum, kuðungum og fleiri skeldýrum.

Smiðjan sló verulega í gegn og var vel sótt en á jarðhæð Gerðarsafns bauð ÞYKJÓ gestum að uppgötva töfra skuggaleikhúss. Glaðir krakkar fengu að prófa að láta skuggabrúðurnar sínar ferðast um ólík vistkerfi, allt frá sjávardjúpum, um sandstrendur og inn í regnskóga.

Hönnuðir ÞYKJÓ eru staðarlistamenn í Kópavogi 2021 og vinna núna að þverfaglegu rannsóknar- og hönnunarstarfi fyrir börn og fjölskyldur þeirra í samvinnu við Gerðarsafn, Salinn, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Bókasafn Kópavogs. ÞYKJÓ sérhæfir sig í búningum, innsetningum og listasmiðjum fyrir börn en innan vébanda hópsins eru barnamenningarhönnuður, textílhönnuður, búninga- og leikmyndahönnuður, arkitekt og klæðskerameistari.

ÞYKJÓ skipa Sigríður Sunna Reynisdóttir, Ninna Þórarinsdóttir, Tanja Huld Leví Guðmundsdóttir, Erla Ólafsdóttir og Sigurbjörg Stefánsdóttir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar