Vinnuskóli Kópavogs fékk Grænfánann afhendan í níunda sinn

Grænfánahátíð Vinnuskóla Kópavogs var haldin hátíðleg 19.júlí sl. þar sem að vinnuskólinn fékk Grænfánann
afhendan í níunda sinn. Grænfáninn er viðurkenning vinnuskólans fyrir því að vera skóli á grænni grein.

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt umhverfismenntaverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Andrea Anna Guðjónsdóttir, starfsmaður Landverndar, afhenti fulltrúum Vinnuskóla Kópavogs fánann í þetta skiptið.

,,Verkefnið er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið af samtökunum „Foundation for Environmental Education.“ Með því að taka þátt í þessu verkefni styðjum við að umhverfismenntun, menntun til sjálfbærni og almennu umhverfisstarfi innan vinnuskólans,” segir Sólveig Jóhannesdóttir Larsen, Umhverfisfulltrúi Vinnuskóla Kópavogi.

Sólin skein hátt á lofti í tilefni Grænfánadagsins og var mikil gleði á Kópavogstúni. ,,Pylsur og grænmetispylsur voru settar á grillið og ýmis atriði voru í boði. Kynnir dagsins var enginn annar en Stjörnu Sævar sem var með alls konar fróðleik um umhverfismál og þá helst úr nýju bókinni sinni sem heitir „Umhverfið.“ Ýmsir tónlistarmenn stigu á sviðið en það voru þeir Arnar Trúbador, ISSI og FLONI,” segir Sólveig og bætir við: ,,Dagurinn gekk frábærlega og erum við þakklát öllum þeim sem komu að deginum og skipulagningunni. Þetta sumarið vinnum við að tíunda Grænfánanum sem verður afhentur á næsta ári. Við munum halda áfram að styrkja og mennta til sjálfbærrar þróunar og leggja okkar af mörkum til að efla og bæta umhverfismál innan skólans og í nærsamfélaginu.”

Forsíðumynd: Andrea Anna hjá Landvernd, Birta Birgisdóttir hjá Vinnuskóla Kópavogs og Sólveig Jóhannesdóttir Larsen umhverfisfulltrúi Vinnuskólans í Kópavogi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar