Vinir Kópavogs bjóða fram til bæjastjórnar Kópavogs í vor

Á félagsfundi Vina Kópavogs 17. mars sl. var ákveðið að fela stjórn félagsins að undirbúa framboð til bæjarstjórnarkosninga í Kópavogi 14. maí nk.

Með framboði vill félagið veita Kópavogsbúum valkost sem hefur það meginmarkmið að efla þátttökulýðræði við ákvörðunartöku. Sérstaklega þarf að bæta aðkomu íbúa að skipulagsákvörðunum sem geta haft mikil áhrif á yfirbragð bæjarins sem og lífsgæði og lýðheilsu til langs tíma.

Undanfarin misseri hefur félagið beitt sér fyrir gagnrýnni umræðu um skipulagsmálin í Kópavogi sem hafa verið hertekin af fyrirtækjum sem fyrst og fremst hafa hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi. Bæjaryfirvöld hafa ekki hlustað og ekki tekið mark á vel rökstuddum athugasemdum íbúa. Minnihlutinn í bæjarstjórn hefur ekki staðið sig sem skyldi, ekki veitt meirihlutanum nauðsynlegt aðhald, og oft fylgt ákvörðunum meirihlutans að því virðist í blindni. Bein samskipti bæjarfulltrúa við bæjarbúa hafa líka verið í lágmarki. Bæjarfélagið hefur gleymt íbúum.

Vinir Kópavogs telja nauðsynlegt að spyrna við fótum og innleiða ný vinnubrögð í Kópavogi. Tryggja verður aðkomu íbúa að skipulagsmálum strax á frumstigi þegar markmið eru skilgreind en ekki eftir að hagsmunaaðilar hafa markað stefnuna. Þá leggur félagið mikla áherslu á að gerð skipulags á öllum stærri skipulagssvæðum verði alfarið í höndum og undir stjórn bæjaryfirvalda, en ekki einkafyrirtækja eins og tíðkast hefur.

Í skoðanakönnun sem Vinir Kópavogs stóð fyrir kemur fram að mikill meirihluti bæjarbúa vill hugmyndasamkeppnir um stærri skipulagsmál, til að draga fram valkosti sem síðan væri þá hægt að hafa íbúakosningu um.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar