Himinbláir fánar með hvítum skýjabólstrum munu blakta við aðalinngang Gerðarsafns yfir tveggja vikna skeið. Vindur og veður er inngrip þýsku listakonunnar Chili Seitz í almenningsrými í formi fána sem hún dregur að húni fánastanga safnsins sunnudaginn 7. júlí. Verkefnið hefur staðið yfir frá árinu 2021 og nú opnar listakonan sýningu í sal SÍM í miðborg Reykjavíkur og mun verkið síðar sama dag skjóta rótum fyrir utan Gerðarsafn þegar fánarnir verða dregnir að húni kl. 17:00. Fólk er boðið hjartanlega velkomið til að vera viðstatt fánaskiptin.
Í gegnum verkið vakna spurningar um eignarhald á rými með því að merkja sér loftið. Seitz leikur sér með myndmál fánans sem vísar sterkt til landamæra, sjálfsmyndar fólks og hvað það sé að tilheyra stað eða hugmyndafræði á sama tíma og fáninn er bara einfaldur myndberi. Hver munu koma saman undir þessum merkjum?
Fánarnir standa til 21. júlí.
Forsíðumynd: Þýska listakonan Chili Seitz