Vill taka ný skref í takti við nýjar kröfur

Orri Vignir Hlöðversson tilkynnti í lok janúar að hann gæfi kost á sér til að leiða lista Framsóknarflokksins í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Birkir Jón Jónsson, bæjarfulltrúi framsóknar og oddviti flokksins í Kópavogi hefur gefið það út að hann ætli ekki að gefa kost á sér fyrir komandi sveitarstjórnar-kosningar, en Framsóknarflokkurinn er í meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs ásamt Sjálfstæðisflokknum.

Orri er alinn upp í Kópavogi og hefur búið í bænum mestan hluta ævi sinnar og hefur lengi tekið virkan þátt í ýmsum félagsstörfum í bænum. Orri, sem fæddur er árið 1964, lauk BA námi í alþjóðastjórnmálum og hagfræði frá Kaliforníuháskóla árið 1993. Hann hefur gengt starfi forstjóra Frumherja hf. síðastliðin 15 ár en árin fjögur þar á undan var hann bæjarstjóri í Hveragerði.

Reynsla, kunnátta og styrkur til að gera gagn

En hver er ástæðan fyrir því að Orri ákvað að gefa kost á sér í oddvitasæti framsóknar í Kópavogi og fara að blanda sér í bæjarpólitíkina? ,,Mér þykir mjög vænt um bæinn minn og vil sjá hann blómstra áfram sem sveitarfélag í fremstu röð á Íslandi. Ég býð mig fram til þess að hafa áhrif á framhaldið og leggja mitt af mörkum til að gera góðan bæ betri. Ég tel mig hafa reynslu, kunnáttu og styrk til að gera gagn og láta gott af mér leiða,” segir Orri.

Bæjarstjóri í Hveragerði

Þú kemur ekki alveg berskjaldaður inn í þetta enda gengt embætti bæjarstjóra í Hveragerði í fjögur ár og þekkir því eitthvað til er kemur að bæjarpólitíkinni? ,,Það er rétt að fyrir margt löngu síðan var ég bæjarstóri í Hveragerði í eitt kjörtímabil. Þannig kynntist ég sveitarstjórnarmálunum frá fyrstu hendi og öðlaðist reynslu sem ég hyggst vissulega taka með mér inn í þann leiðangur sem framundan er hér í Kópavoginum. Þess utan hef ég langa stjórnunarreynslu og reynslu af félagsstörfum sem ég veit að mun nýtast mér vel.”

Kópavogur er eitt framsæknasta sveitarfélag á Íslandi

Þú hefur verið búsettur í Kópavogi nánast alla þína tíð með örfáum undantekningum og tekið þátt félagsstörfum. Þú ert því vel kunnugur ýmsum málefnum og staðháttum í bænum. Hverjar eru þínar helstu áherslur – hvað er hægt að gera betur í Kópavogi? ,,Kópavogur er eitt fram-sæknasta sveitarfélag á Íslandi. Þeirri miklu íbúafjölgun sem átt hefur sér stað um langt skeið hefur verið skynsamlega stýrt af bæjaryfirvöldum og þar hafa Framsóknarmenn átt ríkan hlut að máli í góðu samstarfi við aðra flokka. Innviðauppbygging, t.d. grunnskólar, leikskólar og íþróttamannvirki, hafa verið í forgangi og laðað til sín fjölskyldufólk. Ég vil halda áfram uppbyggingu bæjarins á þessum framsýnu nótum og taka ný skref í takti við nýjar kröfur. Ég vil leggja enn frekari áherslu á gegnsæja stjórnsýslu og hátt þjónustustig til bæjarbúa. Þar er sama hvort um er að ræða skólamál, æskulýðsmál, félagsmál eða málefni eldri borgara. Skipulagsmál, húsnæðismál og loftslagsmál málaflokkar sem munu verða í deiglunni og þar vil ég leggja upp með lausnamiðaða hugsun i sátt við hagaðila. Atvinnumálunum vil ég líka gefa meiri gaum en verið hefur. Þótt Kópavogur sé vissulega hluti af atvinnusvæði SV- horns landsins þá á bærinn ennþá mikið inni þarna. Svona gæti ég lengi talið en þessar áherslur munu birtast í skýrari mynd þegar við höfum sett saman listann og klárað okkar málefnavinnu.”

Fótbolti fylgt mér alla tíð

Hvað gerir svo Orri utan vinnutímans, helstu áhugamál? ,,Utan vinnutímans sinni ég fjölskyldu og vinum eftir bestu getu. Áhugamálin eru allnokkur, fótboltinn hefur fylgt mér alla tíð og blossar upp af mikilli ástríðu með reglulegu millibili. Ég og eiginkonan erum í hestamennsku og ferðumst um töluvert landið á þeim frábæru fararskjótum á sumrin. Stangveiði hef ég stundað lengi, enda fátt skemmtilegra en að renna fyrir fisk í íslenskri náttúru. Ég fer út að hlaupa eins oft og ég get til að halda skrokknum í þokkalegu standi. Þá hef ég mikinn áhuga á sögu og alþjóðamálum og fylgist nokkuð vel með þróuninni þar. Að öðlast skilning á menningu þjóða er eitthvað sem alltaf hefur heillað mig. Ennþá skemmtilegra er ef maður getur tengt þann áhuga ferðalögum. Ég gæti haldið eitthvað áfram með hugðarefnin og áhuga-málin en læt hér við sitja.”

Hvenær kemur svo í ljós hvernig listi framsóknar mun líta út fyrir komandi sveit-arstjórnarkosningar? ,,Uppstillingarnefnd er að störfum og skilst mér að stefnan sé á að hafa listann kláran um miðja febrúarmánuð.”

Það eru töluverðar breytingar á flokkunum í Kópavogi og í það minnsta þrír oddvitar að hætta. Ertu spenntur fyrir komandi kosningum og er markmiðið að fylgja eftir góðum árangri Framsóknar-flokksins í landspólitíkinni, og bæta við manni í bæjarstjórn? ,,Það er rétt að miklar breytingar eru í gangi hjá flokkunum í Kópavogi. Ég vona að vel takist til með að fá gott og samvinnufúst fólk á lista í öllum flokkum. Framsóknarflokkurinn er með einn bæjarfulltrúa í Kópavogi í dag og að sjálfsögðu er það stefna okkar að fjölga þeim. Góður meðbyr með flokknum almennt hjálpar þar vonandi til, en fyrst og síðast verður það trúverðugleiki framboðsins og gæði sem ráða munu úrslitum og þar mun ég leggjast á árina af kappi,” segir Orri að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar