Í byrjun janúar skrifuðu Íþróttafræðideild HR og íþróttafélögin í Kópavogi, Breiðablik, Gerpla og HK undir samstarfssamning til tveggja ára fyrir verkefnið Virkni og Vellíðan. Virkni og Vellíðan er verkefni sem miðar að heilsueflingu fyrir 60 ára og eldri í Kópavogi. Eitt af markmiðum verkefnisins er að gefa bæjar-búum tækifæri á því að stunda heilsueflingu hjá íþróttafélaginu í sínu hverfi og stuðla jafnframt að farsælli öldrun. Verkefnið er á vegum íþróttafélagana þriggja Breiðablik, Gerplu og HK í samstarfi við UMSK, Kópavogsbæ og Háskólann í Reykjavík.
Fyrirkomulag verkefnisins Virkni og Vellíðan miðast við hópþjálfun undir handleiðslu þjálfara. Á æfingum er lögð áhersla á fjölbreytta þjálfun sem miðar af styrktar-, þol-, liðleika- og jafnvægisæfingum. Einnig er boðið upp á val æfingu og er markmiðið með henni að kynna fjölbreytt hreyfiúrræði og heilsueflingu. Zumba, Yoga, Quigong eru dæmi um slíkar æfingar.
Eins og staðan er í dag eru um 150 manns skráðir í verkefnið og gera má ráð fyrir því að sú tala fari hækkandi þegar líða fer á árið.
Kristján Valur Jóhannsson meistaranemi í Íþróttavísindum og þjálfun mun hafa umsjón með mælingum undir handleiðslu starfsmanna íþróttafræðideildar og með aðstoð nema í íþróttafræði.
Ef þú vilt fá nánari upplýsingar um starfsemina hjá Virkni og Vellíðan þá má senda póst á [email protected] eða finna á facebook.