Það var setið í hverju sæti og rúmlega það á stofnfundi Vina Kópavogs fyrr sl. fimmtudag. Fundurinn samþykkti stofnskrá hins nýja félags (sjá www.vinirkopavogs.is) og kaus því stjórn. Þá samþykkti fundurinn eftirfarandi yfirlýsingu:
,,Stofnfundur íbúasamtakanna “Vinir Kópavogs” haldinn 28. október 2021 kallar eftir því að Bæjarstjórn Kópavogs endurskoði afstöðu sína til skipulagsmála og að stefnubreyting verði í þeim málum hið fyrsta.
Kópavogsbær hefur vaxið gríðarlega hratt undanfarna áratugi og íbúafjölgun hefur verið fjórföld á við Reykjavíkurborg frá 1990, svo dæmi sé tekið. Sú fjölgun hefur komið til vegna þess að nýtt land hefur verið numið til búsetu og nú er svo komið að Kópavogsbær þarf að endurskoða stefnu sína með hliðsjón af þéttingu byggðar vegna þess að bæjarfélagið hefur minnkandi landi úr að spila. Það kallar á ný viðhorf í skipulagsvinnu í Kópavogi. Skipulag á að mynda umgjörð um mannlíf, núverandi og framtíðar kynslóða Kópavogsbúa.
Kveikjan að stofnfun félagsins “Vinir Kópavogs” er andstaða fjölmargra Kópavogsbúa við fyrirhugað deiliskipulag á Fannborgarreit og Traðarreit vestur. Staðsetning miðbæjarins er einstök á höfuðborgarsvæðinu og það eru allar forsendur fyrir því að móta samfélag þar sem gott mannlíf, hófleg þétting byggðar, opin svæði og öflug atvinnustarfsemi fara saman. Í nýjum miðbæ þurfa mannvirki að taka mið af veðurfari og birtu svo þar þrífist gott mannlíf.
Samþykkt tillaga bæjarstjórnar uppfyllir á engan hátt væntingar Kópavogsbúa um slíkan miðbæ. Lega Borgarlínu gegnum miðbæinn er enn óákveðin sem eitt og sér er fráleitt. Borgarlínan skapar möguleika sem þarf að nýta, en ekki misnota í nafni „markmiða um þéttingu byggðar“. Það sjónarmið þjónar auðvitað fyrst og fremst byggingarfyrirtækjum sem hafa eðli málsins samkvæmt eingöngu fjárhagslega hagsmuni að leiðarljósi. Samráð bæjaryfirvalda við íbúa á svæðinu og við Kópavogsbúa almennt hafa verið algjörlega ófullnægjandi og erindum húsfélaga einfaldlega ekki svarað svo mánuðum skipti.
Bæjaryfirvöld veittu þeim sem hyggjast hagnast fjárhagslega á lóðarréttindum heimild til að vinna beint að gerð skipulagsins en sjónarmið íbúa á svæðinu voru fyrir borð borin. Sjái bæjaryfirvöld ekki að sér má búast við löngum deilum og málaferlum sem munu valda angist íbúa á skipulagssvæðinu og skaða fyrir bæjarlífið.
Í aðdragandi stofnfundarins kom í ljós að svo virðist sem vinnubrögð skipulagsyfirvalda í Kópavogi í öðrum hverfum bæjarins séu sama marki brennd. Samráð er lítið sem ekkert við íbúa eða samtök þeirra, hagsmunir framkvæmdaaðila njóta forgangs fram yfir bæjarbúa og framsal skipulagsvaldsins til verktaka gagnrýnislítið.
Fundurinn ályktar að bæjarstjórn leggi núverandi deiliskipulag við Fannborgarreit og Traðarreit vestur til hliðar nú þegar og skipulag miðbæjar Kópavogs verið hugsað upp á nýtt með sjónarmið íbúa og hagsmuni þeirra að leiðarljósi.
Vinir Kópavogs lýsa yfir vilja til taka þátt í að móta tillögur í þeim efnum og taka þátt í því nauðsynlega samtali.“
Í stjórn voru kjörnir:
• Miðbæjarsvæði – Kolbeinn Reginsson
• Digranes – Jóhann Már Sigurbjörnsson
• Kársnes – Fríða Garðarsdóttir
• Efri byggðir – Ólafur Björnsson