Viðurkenningar og styrkur Jafnréttis og mannréttindaráðs

Boginn Bogfimifélag og fyrirtækið „Verum góð“ hlutu viðurkenningu Jafnréttis- og mannréttindaráðs Kópavogs 2023. Þá var verkefninu Spjallið úthlutaður styrkur ráðsins.
 
Viðurkenningarnar og styrkurinn voru afhentar við hátíðlega viðhöfn í Gerðarsafni í síðustu viku. Það var Heiðdís Geirsdóttir formaður ráðsins sem afhenti viðurkenningarnar að viðstöddum nefndarmönnum, bæjarstjóra og gestum. „ Í Kópavogi eru jafnrétti og mannréttindi okkur mikilvæg og við leggjum okkur fram við að öll upplifi sig velkomin og hluti af okkar frábæra samfélagi,“ sagði Heiðdís við tækifærið.
 
Um handhafa viðurkenninga og styrks:
 
„Verum góð” er fyrirtæki Margrétar Sigurðardóttur sem tekur að sér fræðslu fyrir nemendur, kennara, starfsfólk og foreldra. Hún hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða í Kópavogi, þar á meðal hinsegin fræðslu. Margrét hefur því lagt sín lóð á vogarskálarnar í jafnréttismálum í Kópavogi og víðar.
 
Boginn bogfimifélag hlaut viðurkenningu fyrir það framtak að stofna kynlausan keppnisflokk þar sem kynsegin einstaklingar geta keppt í bogfimi. Félagið var stofnað í Kópavogi árið 2012. Oliver Ormar Ingvarsson formaður félagsins og Guðmundur Örn Guðjónsson tóku við viðurkenningunni fyrir hönd Bogans.
 
Spjallið er samverustund sem fer fram á Bókasafni Kópavogs í því skyni að efla íslensku færni fólks af erlendum uppruna, auk þess að skapa vettvang fyrir tengslamyndun. Elísabet Indra Ragnarsdóttir, hjá Kópavogsbæ og Lísa Z. Valdimarsdóttir forstöðumaður Bókasafns Kópavogs eru í forsvari fyrir verkefnið og tóku við styrknum.
 
Á myndinni eru handhafar ásamt Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra. F.v. efsta röð: Signý Skúladóttir, Indriði Ingi Stefánsson, Ragnar Guðmundsson, miðröð: Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Óliver Ormar Ingvarsson, Helga G. Halldórsdóttir, Ásdís Kristjánsdóttir, Heiðdís Geirsdóttir, fremst: Lísa Z. Valdimarsdóttir, og Margrét Sigurðardóttir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar